Fara í innihald

100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi var haldið þann 19. júní 2015 til að minnast þess áfanga að 100 árum fyrr undirritaði Kristján konungur X lög þess efnis sem áður höfðu verið til umræðu og staðfest á Alþingi Íslendinga, að konur og vinnumenn, 40 ára og eldri, fengu kosningarétt til Alþingis. Það aldurstakmark átti svo að minnka um eitt ár á ári þar til 25 ára aldurstakmarkinu yrði náð. Kosið var eftir þessum nýju lögum árið eftir eða 1916.

Framkvæmdarnefnd[breyta | breyta frumkóða]

11. mars 2013 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um hvernig minnast ætti 100 ára afmælis kosningaréttar og kjörgengis íslenskra kvenna 19. júní 2015. Forseti Alþingis boðaði til fundar þann 14. september 2013 með fulltrúum samtaka íslenskra kvenna og stofnana sem fást við jafnréttismál kynjanna. Á þeim fundi var kosið í framkvæmdarnefnd sem mótaði endanlegar tillögur og annaðist frekari undirbúning fyrir afmælisárið. [1][2]

Auður Styrkásdóttir var valin formaður, Siv Friðleifsdóttir varaformaður og með þeim í nefndinni voru Drífa Hjartardóttir, Erla Karlsdóttir, Ingimar Karl Helgason, Ólafía B. Rafnsdóttir og Steinunn Stefánsdóttir þá var Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir ráðin sem framkvæmdarstjóri.[3]

Undirbúningur og hátíðarhöld[breyta | breyta frumkóða]

Vel var staðið að undirbúningi sem hófst opinberlega með kynningarfundi á Hallveigarstöðum þann 15. október 2014. Afmælisárið (stundum kallað byltingarárið 2015) voru svo margir viðburðir til að minnast þessara tímamóta um land allt, erindi og ráðstefnur m.a. í Skagafirði, Stykkishólmi, Hveragerði, á Dalvík, Eyrarbakka og Akureyri. Hátíðarhöldin teygðu sig meira að segja til Kaupmannahafnar. [4]

Þá voru settir í sýningu örþættir í ríkissjónvarpinu, tileinkaður 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna undir nafninu "Öldin hennar", þeir voru 52 talsins og sýndir á jafnmörgum vikum.[5]

Stærsti dagurinn er þó án efa afmælisdagurinn 19. júní þegar konur fögnuðu um land allt frá morgni til kvölds. Margir atvinnurekendur lögðu sitt til hátíðarhaldanna með því að gefa frí í tilefni dagsins.[6]

Afmælisárinu lauk svo formlega þann 20. janúar 2016 með málþinginu "Byltingin 2015 – og hvað svo?" þar sem m.a. fulltrúar stjórnmálaflokka á Alþingi og einstaklingar sem tóku þátt í afmælisárinu fóru yfir stöðuna og framtíð feminískrar baráttu.[7]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. http://www.althingi.is/altext/141/s/1223.html
  2. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. nóvember 2016. Sótt 25. janúar 2017.
  3. „Afmælisnefndin“. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. maí 2017.
  4. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. mars 2017. Sótt 25. janúar 2017.
  5. http://www.ruv.is/thaettir/oldin-hennar
  6. http://www.mbl.is/frettir/knippi/3443/
  7. „Byltingin 2015 – og hvað svo?“. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. maí 2017.