Fara í innihald

Kastalinn í Nottingham

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Brúin og gamla hliðið

Kastalinn í Nottingham er eitt kunnasta mannvirki í ensku borginni Nottingham. Hann var áður eitt sterkasta vígi í Englandi. Kastalinn var að mestu rifinn 1649 við lok ensku borgarastyrjaldarinnar, en nokkrir hlutans hans standa enn.

Saga kastalans

[breyta | breyta frumkóða]

Það var Vilhjálmur sigursæli sem lét reisa kastalann til að byrja með árið 1067, ári eftir sigur hans í orrustunni við Hastings. Kastalinn var að mestu gerður úr viði með jarðvegsgarði í kring. Í konungstíð Hinriks II síðla á 12. öld veik þessi kastali fyrir mannvirki úr grjóti og var næstu aldir eitt sterkasta vígi Englandskonunga.

Ríkharður ljónshjarta

[breyta | breyta frumkóða]

Sonur Hinriks var Ríkharður I ljónshjarta. Þegar hann fór í krossferð 1190 fóru margir aðalsmenn með honum. Kastalinn í Nottingham var því á tímabili mannlaus. Því flutti jarlinn af Nottingham í hann. Það var á þessum tíma sem sögurnar um Hróa hött gerðust, en aðalandstæðingur hans var jarlinn. Lokasenna þeirra gerist í kastalanum, en þar stendur Hrói uppi sem sigurvegari. Þegar dróst að Ríkharður kæmi heim aftur til Englands (hann var tekinn til fanga í Austurríki á leið heim), tóku fylgismenn bróður hans, Jóhanns landlausa, kastalann í Nottingham, enda var hann sterkt vígi. Þegar Ríkharður losnaði úr prísundinni 1194 eftir hátt lausnargjald, fór hann til Nottingham og gerði umsátur um kastalann. Til þess notaði hann að hluta umsáturstól þau sem hann hafði yfir að ráða í Jerúsalem. Ríkharður sigraði í bardaganum sem eftir fylgdi og endurheimti kastalann.

Valdarán Játvarðs III

[breyta | breyta frumkóða]

Játvarður III var aðeins 14 ára gamall þegar faðir hans, Játvarður II var drepinn. Móðir hans, Ísabella frá Frakklandi, og ástmaður hennar, Roger Mortimer, stjórnuðu ríkinu meðan Játvarður III var ómyndugur. En Játvarður var óánægður. 19. október 1330, þegar Játvarður var 17 ára, dvaldi móðir hans og Roger í kastalanum í Nottingham. Með aðstoð frá William Montagu hugði hann á valdarán. Þeir læddust inn í kastalann og drápu lífverði drottningar og Mortimers. Mortimer var bundinn og fluttur til London, þar sem hann var hengdur mánuð síðar. Ísabella var neydd til að segja af sér. Þannig náði Játvarður völdum. Hann notaði kastalann sem aðsetur á hinum og þessum tímum. Stundum hélt hann þing í kastalanum. Eftirmaður hans, Ríkharður II, hélt að minnsta kosti þrjú ríkisþing í kastalanum, það síðasta 1397. Á 14. öld voru nokkrir þekktir einstaklingar í varðhaldi í dýflissum kastalans. Þeirra helstur var Davíð II konungur Skotlands árið 1346.

Fleiri konungar

[breyta | breyta frumkóða]
Kastalinn eins og hann er talinn hafa litið út síðla á miðöldum

Eftir daga Ríkharðs III var kastalinn ekki lengur notaður í hernaðarlegum tilgangi í nokkurn tíma. Hinrik IV veitti eiginkonu sinni, Jóhönnu af Navarra, afnot af kastalanum 1403. Þar bjó hún að mestu leyti til dánardags 1437. Á Rósastríðunum síðla á 15. öld lýsti Játvarður IV sig sem konung Englands í kastalanum í Nottingham og hann lét jafnframt laga og stækka kastalann. Hinrik VIII lét stækka kastalann enn, en sjálfur dvaldi hann þar nokkru sinnum. Auk þess bjó hann til herdeild nokkur hundruð manna sem áttu að sitja í kastalanum og tryggja öryggi hans. Eftir það var kastalinn eitt allra sterkasta vígi Englandskonunga út 16. öldina.

Borgarastríðið

[breyta | breyta frumkóða]

Í upphafi 17. aldar var kastalinn yfirgefinn og byrjaði hann þá að grotna niður. Þegar enska borgarastyrjöldin hófst 1642 var hluti hans orðin það lélegur að segja má hann var rústir. 22. ágúst 1642 fór Karl I til Nottingham og hóf að safna liði fyrir væntanlegt stríð við þingið í London. Í kastalanum lét hann hífa konungsflaggið að gömlum hermannasið til að safna liði. Þetta þótti mikil ögrun við þingið, sem einnig safnaði liði. Skömmu síðar yfirgaf Karl borgina. Ári síðar réðist her þingsins á kastalann í Nottingham og hélt honum til 1649. Þetta var síðasti herinn sem dvaldi í kastalanum. Á þessu ári var Karl I tekinn af lífi og var kastalinn þá rifinn niður að mestu leyti. Þannig lauk 600 ára tilvist þessarar merku byggingar.

Herragarður og safn

[breyta | breyta frumkóða]
Kastalasafnið eins og það lítur út í dag

1674-79 lét Henry Cavendish, hertoginn af Newcastle, reisa sér herrasetur í rústum kastalans, en þá hafði konungdæmið í Englandi verið endurreist. Nokkrir hlutir kastalans stóðu þó enn uppi og voru þeir gjarnan notaðir í nýju bygginguna. Í herrasetrinu bjuggu hertogarnir næstu aldir. Í iðnbyltingunni á 19. öld risu fátækrahverfi í Nottingham. Þegar hertoginn af Newcastle neitaði að undirrita endurreisnarlög (Reform Act) árið 1832 trylltist lýðurinn. Hann ruddist inn í herrasetrið og brenndi það niður. Þannig lá það í rústum allt til 1875 er herrasetrið var endurreist og vígt 1878 af prinsinum af Wales (síðar Játvarður VII). Setrið var reist sem safnahús, fyrsta borgarsafn Englands utan London. Þar kennir ýmissa grasa, m.a. fínvefnað úr Nottingham, keramik, málverk og annað.

Viðburðir

[breyta | breyta frumkóða]

Ýmsir viðburðir fara fram á kastalalóðinni. Má þar nefna árlega bjórhátíð og Hróa hattar leikrit. Árið 2008 var heimsmet sett við kastalann er þar safnaðist saman meiri fjöldi manna í Hróa hattar klæðum á einum og sama staðnum en áður hefur gerst.