Yale-háskóli
Yale-háskóli (Yale University) er einkaskóli í New Haven í Connecticut í Bandaríkjunum. Skólinn var stofnaður árið 1701 og hét þá Collegiate School. Hann er þriðji elsti háskólinn í Bandaríkjunum og er einn hinna átta svonefndu Ivy League-skóla.
Yale er þekktur fyrir að veita góða grunnmenntun en einnig er lagaskóli háskólans, Yale Law School, þekktur sem og leiklistarskóli háskólans, Yale School of Drama. Við háskólann hafa numið bæði forsetar Bandaríkjanna og ýmsir aðrir þjóðhöfðingjar. Árið 1861 varð skólinn fyrsti háskóli Bandaríkjanna til þess að veita Ph.D.-gráðu.
Fjárfestingar skólans nema 20 milljörðum bandaríkjadala, sem gerir skólann að næstríkustu menntastofnun Bandaríkjanna á eftir Harvard-háskóla. Við skólann starfa um 3.200 kennarar, sem kenna 5.200 grunnnemum og 6.000 framhaldsnemum.[1]
Heimavistarkerfi skólans byggir á fyrirmynd frá Oxford og Cambridge.
Hefðbundinn skólarígur hefur lengst af ríkt milli Yale og Harvard jafnt í íþróttum sem námi og rannsóknum.
Einkunnarorð skólans eru Lux et veritas eða „Ljós og sannleikur“.