Jón Sigurðsson (verkalýðsforingi)
Jón Sigurðsson (12. maí 1902 - 6. júlí 1984) var stofnandi og fyrsti formaður Sjómannasambands Íslands.
Ævi
[breyta | breyta frumkóða]Jón fæddist í Hafnarfirði. Foreldrar hans voru Sigurður Jónsson, fiskmatsmaður, og fyrri kona hans, Guðný Ágústa Gísladóttir, en hún lést úr berklum árið 1910. Jón var í miðið af börnum þeirra fimm. Faðir hans kvæntist aftur og eignaðist sjö börn með seinni konu sinni, þótt aðeins fimm kæmust upp.
Eftir barna- og gagnfræðaskólanám í Hafnarfirði og Ási í Ásahreppi stundaði hann sjóvinnustörf á skútum, bátum og togurum. Árið 1934 varð hann fyrsti erindreki Alþýðusambands Íslands samkvæmt skipunarbréfi frá Jóni Baldvinssyni, forseta sambandsins, en varð síðar fyrsti framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins, sem hann gegndi með hléum 1940 - 1944. Þá var hann ritari Sjómannafélags Reykjavíkur 1932 - 1934 og 1951 - 1961 og formaður félagsins 1967 - 1971. Var í framboði til Alþingis í Austur-Húnavatnssýslu 1933 og aftur 1937, en féll í bæði skiptin fyrir Jóni Pálmasyni á Akri. Fór fram í þriðja sinn fyrir Alþýðuflokkinn í alþingiskosningunum árið 1942 og þá á Akureyri, en féll líka í það skiptið. Starfsmaður Pósts og síma 1945-1948. Varð aftur framkvæmdastjóri ASÍ 1949 - 1954. Kenndi ungum jafnaðarmönnum fundarsköp og ræðumennsku á vegum Alþýðuflokksins á tímabilinu 1940-1950. Í sölunefnd setuliðseigna 1945 - 1947. Framkvæmdastjóri Félags sérleyfishafa 1955-1958. Forstjóri Innflutningsskrifstofunnar 1958-1960. Skrifstofustjóri hjá Verðlagsstjóra 1961 - 1966 og 1968 - 1972.
Þann 24. febrúar 1957 gerðist hann einn af helstu hvatamönnum að stofnun Sjómannasambands Íslands. Á framhaldsstofnfundinum í október það sama ár var hann kjörinn formaður Sjómannasambandsins og gegndi þeirri stöðu samfleytt til 1976 meðfram öðrum störfum. Hann sat í miðstjórn Alþýðusambandsins með hléum frá 1938 - 1976. Sat í Verðlagsráði sjávarútvegsins frá stofnun þess 1961 - 1977, þar af formaður 1966 - 1968. Í hafnarstjórn Reykjavíkur 1958 - 1963. Formaður hússtjórnar Norræna hússins frá opnun þess 1968 - 1979. Í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins 1934 - 1937 og 1974 - 1976. Í verðlagsnefnd 1960 - 1980. Í stjórn Alþýðuflokksins 1934 - 1976, þar af 25 ár í framkvæmdastjórn flokksins. Stofnandi og formaður Verkalýðsmálanefndar flokksins í 20 ár. Var í mörgum stjórnskipuðum nefndum. Var fastur fulltrúi verkalýðshreyfingarinnar á alþjóðaþingum, svo sem þingum ITF, ICFTU, auk samnorrænna fiskiráðstefna, sem voru haldnar til skiptis í hverju Norðurlandanna fyrir sig. Þá var hann ævinlega boðinn á þing Alþýðusambandanna á Norðurlöndum. Var fulltrúi Íslands á 25. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York árið 1970. Þá var hann einn af föstum ræðumönnum á hátíðarsamkomum verkalýðshreyfingarinnar á 1. maí ár hvert. Rak ásamt eiginkonu sinni Fjölritunarstofu Jóhönnu Guðmundsdóttur 1948 - 1976. Heiðursfélagi í Verkalýðsfélagi Hólmavíkur, Bifreiðastjórafélaginu Frama og í Alþýðuflokknum. Sæmdur gullmerki Sjómannadagsráðs 1976 og riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1. janúar 1973. Ritstjóri Neista, blaðs jafnaðarmanna á Siglufirði 1935-1937. Ritstjóri Sæfara, blaðs Sjómannasambands Íslands 1958. Jón lést í Reykjavík 6. júlí 1984.
Jón var tvíkvæntur. Seinni kona hans var Jóhanna Guðmundsdóttir frá Seyðisfirði, bókari og framkvæmdastjóri (f. 30. júlí 1909 - d. 9. nóvember 1985). Þau eignuðust eina dóttur, en fyrir átti Jón fjögur börn af fyrra hjónabandi.
Heimild
[breyta | breyta frumkóða]- Íslenskir samtíðarmenn (1976). Auk þess birtist þetta í Morgunblaðinu á andlátsdegi hans. Sjá ennfremur ýtarefni á Gardur.is. - Sigvaldi Hjálmarsson: "Viðtöl við Jón Sigurðsson", sem birtust heilan mánuð í Alþýðublaðinu í maí 1968.