Sjómannafélag Reykjavíkur
Sjómannafélag Reykjavíkur er hagsmunafélag sjómanna á höfuðborgarsvæðinu og heitir í dag Sjómannafélag Íslands.
Sagan
[breyta | breyta frumkóða]Nokkur aðdragandi var að stofnun sjómannafélags í Reykjavík. Fyrst voru Bárufélögin svokölluðu stofnuð á síðasta áratug 19. aldar, en haustið 1915 hófst undirbúningur stofnunar félags sjómanna. Jón Guðnason, þá háseti á botnvörpuskipinu Nirði, hóf það undirbúningsstarf. Hann hafði sér til ráðgjafar Ólaf Friðriksson og Jónas Jónsson frá Hriflu. Þeir voru mjög svo fylgjandi þessarri hugmynd og studdu því Jón eins og þeir gátu. Það var svo laugardaginn 16. október, að kallað var saman til fundar í Goodtemplarahúsinu til undirbúnings stofnuninni. Þar mættu um þrjátíu manns, sennilega allir sjómenn, nema þeir Ólafur og Jónas frá Hriflu. Jón Guðnason hóf fyrstur umræðurnar, sem snérust um þörfina fyrir stofnun sjómannafélags. Það var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Þar var og samþykkt, að hvorki skipstjórar eða stýrimenn mættu vera í félaginu. Þá var kosið í nefnd til að semja uppkast að lögum félagsins, sem í voru: Guðleifur Hjörleifsson, Jón Guðnason, Hjörtur Guðbrandsson, Ólafur Friðriksson, Jósep Húnfjörð og Ólafur Guðmundsson.
Laugardaginn 23. október var svo stofnfundurinn haldinn. Laganefndin lagði fram frumvarp til laga fyrir félagið. Ólafur Friðriksson hafði orð fyrir henni og lagði síðan til, að stofnað yrði Hásetafélag Reykjavíkur. Sú tillaga var samþykkt. 29. október var svo haldinn einskonar framhaldsstofnfundur Hásetafélagsins, þar sem fyrri fundurinn hafði falið laganefndinni að halda áfram störfum. Á þessum fundi var kosin stjórn Hásetafélagsins. Formaður var kjörinn Jón Bach og Ólafur Friðriksson ritari. Það er ekki annað hægt að sjá á heimildum, en allir fundarmenn hafi verið hásetar, utan Ólafs og Jónasar frá Hriflu, sem var kosinn endurskoðandi félagsins. Síðan var fjallað um kaup og kjör sjómanna.
Árið 1916 hófst kjarabarátta Hásetafélagsins fyrir alvöru, þegar þeir reyndu að fá hærra kaup af hálfu Félags íslenskra botnvörpuskipaeigenda, og stofnuðu til fyrsta verkfallsins af hálfu sjómannastéttarinnar. Í lok árs 1916 var svo kosinn nýr formaður Hásetafélagsins, Guðleifur Hjörleifsson. Á eftir honum komu Sigurjón Á. Ólafsson (1916–1917 og 1920–1950), Eggert Brandsson (1918–1920), Garðar Jónsson (1951–1960), Jón Sigurðsson (1961–1971), Hilmar Jónsson(1972-1977), Guðmundur Hallvarðsson (1978–1994). Jónas Garðarsson tók við af honum, en var stuttan tíma. Núverandi formaður er Helgi Kristinsson.
Árið 1919 var nafni félagsins svo breytt í Sjómannafélag Reykjavíkur, og svo hét félagið til 2007, þegar Matsveinafélag Íslands og Sjómannafélagið sameinuðust í eitt undir nafninu Sjómannafélag Íslands. Félagið telur um 800–900 manns í dag frá ýmsum stöðum á landinu. Stjórnarmenn Sjómannafélags Reykjavíkur voru helstu hvatamenn að stofnun Sjómannasambands Íslands á árunum 1956-1957.
Heimild
[breyta | breyta frumkóða]- Skúli Þórðarson: Sjómannafélagið 50 ára. Reykjavík : Helgafell, 1965.