Síldarverksmiðjur ríkisins

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Síldarverksmiðjur ríkisins (S.R.) var íslenskt fyrirtæki sem starfaði frá 1930 til 1993, og undir nýju nafni til 1994. Síldarverksmiðjur ríkisins voru í eigu íslenska ríkisins og höfðu umsvifamikla starfsemi, aðallega á Norðurlandi og á Austfjörðum.

Stofnun[breyta | breyta frumkóða]

Síldarverksmiðjur ríkisins hófu starfsemi þann 19. júlí 1930, þegar síld var í fyrsta sinn landað í fyrstu verksmiðju félagsins í Siglufirði. Stofnun fyrirtækisins átti sér nokkurn aðdraganda. Óskar Halldórsson útgerðarmaður og Magnús Kristjánsson alþingismaður voru brautryðjendur í þessu máli, og flutti hinn síðarnefndi þingsályktunartillögu árið 1927 um að kanna kostnað við byggingu síldarverksmiðju á Norðurlandi á vegum ríkisins. Tillagan var samþykkt og var Jón Þorláksson fenginn til að afla upplýsinga um þetta. Árið 1928 fluttu þingmennirnir Erlingur Friðjónsson og Ingvar Pálmason frumvarp um stofnun síldarbræðslu á Norðurlandi. Tryggvi Þórhallsson, sem var atvinnumálaráðherra, fékk samþykki Alþingis fyrir byggingu bræðslunnar í Siglufirði.

Siglufjörður[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta verksmiðjan var reist á árunum 1929 til 1930 í Siglufirði. Guðmundur Hlíðdal verkfræðingur veitti byggingu verksmiðjuhúsanna forstöðu en um vélauppsetningu sá þýskur verkfræðingur, Schretzenmeyer að nafni. Bygging þessarar fyrstu síldarverksmiðju í eigu ríkisins kostaði rúmlega 1,4 milljónir króna. Afkastageta hennar var 2300 mál á sólarhring (1 mál síldar er 135 kíló). Þormóður Eyjólfsson ræðismaður var fyrsti formaður verksmiðjustjórnarinnar, en framkvæmdastjóri var norskur maður, Oscar Ottesen, sem hafði áður starfað við síldarbræðslu Dr. Pauls í Siglufirði. Þessi verksmiðja gekk í daglegu tali undir heitinu SR 30, sem er stytting á nafninu Síldarverksmiðjur ríkisins 1930. Fljótlega kom í ljós að mikil þörf var fyrir þessa verksmiðju fyrir síldarútveginn. Mikið verðfall varð á síldarlýsi árið 1930, en þrátt fyrir það var verksmiðjan rekin með nokkrum hagnaði. Hún skapaði umtalsverða atvinnu og möguleikar síldveiðiskipanna til löndunar og verðmætasköpunar jukust að miklum mun.

Í ljósi þess hversu vel gekk að starfrækja fyrstu verksmiðjuna lét ríkisstjórnin kanna möguleika á byggingu annarrar verksmiðju. Síðla árs 1933 samþykkti Alþingi lög um heimild fyrir ríkisstjórnina að láta byggja aðra síldarverksmiðju, einnig í Siglufirði. Magnús Guðmundsson atvinumálaráðherra fékk Guðmund Hlíðdal og Geir Zoega að annast yfirstjórn um byggingu verksmiðjunnar á árunum 1934 til 1935, og var hún nefnd S.R.N. verksmiðjan. Síldarverksmiðja Dr. Pauls í Siglufirði var einnig stækkuð um 2.500 mál samkvæmt ákvörðun Alþingis, en sú stækkun kom þó ekki til framkvæmda fyrr en árið 1941 vegna síðari heimsstyrjaldarinnar. Þetta sama ár, 1933, keyptu Síldarverksmiðjur ríkisins verksmiðju Dr. Pauls í Siglufirði, og ráku þá verksmiðju í allnokkur ár. Afkastageta þeirrar verksmiðju var um 1.740 mál þegar ríkið eignaðist hana.[1]

Það kom fljótlega í ljós að verksmiðjukostur var ekki nægilegur til að bræða alla þá síld sem hefði verið hægt að veiða á þessum tíma. Til dæmis þá var síldaraflinn til bræðslu kominn í 800.000 mál snemma í ágúst 1942, en Síldarverksmiðjur ríkisins bræddu helming þess aflamagns. Talið var að 6-800.000 mál hefði mátt veiða og bræða til viðbótar ef afköst verksmiðjanna hefðu verið nægjanleg. Bið eftir löndun og veiðibönn urðu líka til að veiðarnar urðu ekki meiri en raun var. Stjórn Síldarverksmiðja ríkisins fór fram á að byggja nýjar verksmiðjur með samtals 30 þúsund mála afköstum árið 1942, og samþykkti Alþingi þetta með þeirri breytingu að leyfi fengist fyrir 39 þúsund mála heildarafköstum. Þetta varð að lögum 25. september 1942. Af þessum fyrirhuguðu verksmiðjum var gert ráð fyrir nýrri 10 þúsund mála bræðslu í Siglufirði, til víðbótar verksmiðjukosti Síldarverksmiðja ríkisins þar. Vilhjálmur Þór, atvinnumálaráðherra, gerði tillögu um stækkun hinnar nýju verksmiðju í Siglufirði um 3.500 til 4.000 mál árið 1944, og var það samþykkt. Lítið gekk þó að útvega vinnsluvélar vegna styrjaldarinnar, en í mars 1945 þegar lok stríðsins voru í augsýn breyttist þetta og hægt var að útvega vélar frá Bandaríkjunum og Svíþjóð með litlum fyrirvara.

Árið 1945 var skipuð bygginganefnd til að undirbúa byggingu nýju síldarverksmiðjunnar í Siglufirði, en Áki Jakobsson, sem þá var atvinnumálaráðherra, skipaði nefndina. Trausti Ólafsson, efnafræðingur, var skipaður formaður nefndarinnar. Þórður Runólfsson, vélfræðingur, var tæknilegur ráðgjafi nefndarinnar. Nýja verksmiðjan í Siglufirði var byggð á árunum 1945 - 1947, og gekk undir nafninu SR 46. Pressur, sjóðarar og þurrkarar nýju verksmiðjunnar voru innlend smíði, allt framleitt af Vélsmiðjunni Héðni hf. í Reykjavík. Þessi tæki voru höfð stærri og afkastameiri en áður hafði þekkst. Seint í mars árið 1947 féll þak mjölgeymslu Síldarverksmiðja ríkisins undan sjóþunga, en sú bygging var ein sú stærsta á landinu. Þegar var hafist handa um að byggja nýja mjölskemmu á sama stað.

Síldveiði á miðum fyrir Norðurlandi brást mikið til á árunum 1945 til 1955. þetta varð til þess að Síldarverksmiðjur ríkisins í Siglufirði komu ekki að eins miklu gagni og búist hafði verið við. Þó var undantekning á þessu árin 1947 og 1948, en þau ár veiddist mikið magn af síld í Hvalfirði. Var síldin flutt til Siglufjarðar til bræðslu þar, nær ein milljón mál þessi tvö ár.

Þegar ljóst varð að síldin hafði minnkað til muna tók stjórn Síldarverksmiðja ríkisins ákvörðun um að láta byggja nýtt hraðfrystihús í Siglufirði á sínum vegum. Var þetta gert til að auka atvinnu á staðnum, en afgangur hráefnis frá frystihúsinu, hausar og slor, var bræddur í síldarbræðslum félagsins. Frystihúsið tók til starfa 27. október 1953, og hafði Ólafur Thors atvinnumálaráðherra forgöngu um það mál. Frá Siglufirði voru gerður út tveir togarar á þessum árum, en þeir komu til bæjarins sem hluti af endurnýjun togaraflota landsins, hinir svonefndu nýsköpunartogarar, fljótlega eftir stríðslok. Togarar þessir voru í eigu Bæjarútgerðar Siglufjarðar. Síldarverksmiðjur ríkisins sáu um framkvæmdastjórn togaranna í Siglufirði, auk reksturs frystihússins og síldarbræðslu. Sigurður Jónsson, viðskiptaframkvæmdastjóri sá um rekstur togaranna, en Vilhjálmur Guðmundsson verkfræðingur sá um tæknilega framkvæmdastjórn fyrir verksmiðjurnar og frystihúsið.

Auk þeirrar starfsemi sem hér hefur verið upp talin áttu Síldarverksmiðjur ríkisins stórt vélaverkstæði í Siglufirði sem var í daglegu tali nefnt Vélaverkstæði SR. Það sá um viðhald og viðgerðir á vélum og tækjum í eigu Síldarverksmiðja ríkisins í Siglufirði. Unnu þar milli tíu og fimmtán menn að staðaldri, í upphafi undir stjórn Þórðar Guðmundssonar, vélsmiðs.

Sigló síld lagmetisiðja[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1961 ákvað stjórn Síldarverksmiðja ríkisins að kanna möguleika á byggingu lagmetisiðju (niðursuðuverksmiðju) í Siglufirði. Emil Jónsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, studdi verkefnið. Ákveðið var að kanna niðurlagningu á kryddsíld og sykursíld í dósir. Hugmyndin var að framleiða fyrir erlendan jafnt og innlendan markað. Sérfræðingar frá Noregi voru fengnir til að undirbúa þetta verkefni ásamt innlendum kunnáttumönnum. Verksmiðjan tók til starfa 8. mars 1962. Fyrst í stað var um tilraunaframleiðslu að ræða, gaffalbita í 5 mismunandi sósum, vín-, lauk-, tómat, -dill og ávaxtasósu í 40 og 90 gramma dósum. Síldarflök voru einnig sett í tveggja og átján flaka dósir í vínsósu. Vilhjálmur Guðmundsson, framkvæmdastjóri SR, greindi frá þróun þessarar starfsemi í ræðu sem hann hélt við vígslu verksmiðjunnar. Þar kom fram að innlendar niðursuðuverksmiðjur sem framleiddu úr sjávarafurðum hefðu átt fremur erfitt uppdráttar með framleiðslu á erlendan markað, en innlendi markaðurinn væri vissulega fyrir hendi. Bygging verksmiðjunnar hófst í byrjun október 1961 og var allt tilbúið eftir aðeins fimm mánuði, sem þótti vel af sér vikið um hávetur. Byggingar teiknaði Sigvaldi Thordarson arkitekt. Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen annaðist útreikninga. Páll Jónsson var byggingameistari. Byggingin var um 3 þúsund rúmmetrar. Fyrsti verksmiðjustjóri var Ólafur Jónsson, sem áður starfaði hjá Mötu hf. við niðursuðu. Verksmiðjan byrjaði með lokunarvél og þvottavél fyrir dósir, en mest af vinnunni var unnið af stúlkum. Bæjarstjóri Siglufjarðar, Sigurjón Sæmundsson, árnaði fyrirtækinu heilla. Voru góðar vonir um að fyrirtækið ætti eftir að verða bænum og sjávarútveginum lyftistöng til framtíðar.[2] Í mars 1971 samþykkti ríkisstjórnin að breyta Sigló síld, sem fram að því var rekið af SR, í hlutafélag, leggja fram 30 milljóna króna hlutafé og kaupa allar eignir fyrirtækisins. Veitt var ríkisábyrgð á 10 milljóna króna láni til að byggja fyrirtækið upp. Siglufjarðarbæ verði boðin þátttaka í hinu nýja hlutafélagi með 20 prósenta framlagi á móti framlagi ríkisins og annarra stofnenda. Í frumvarpinu var heimild fyrir ríkið að selja hlutabréf sín, en verksmiðjan verði áfram rekin af SR til 1. september 1971.[3]

Raufarhöfn[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1935 keyptu Síldarverksmiðjur ríkisins tvær eldri síldarbræðslur á Sólbakka og Raufarhöfn. Rannsóknir dr. Þórðar Þorbjarnarsonar, fiskiðnfræðings, sýndu að vinna mátti gott lýsi og mjöl úr karfa, en karfalifur innihélt bætiefni og var unnið svonefnt vítamínlýsi úr henni. Veiðar og vinnsla á karfa hófust í talsverðum mæli þetta sama ár, 1935. Árið 1937 flutti Bjarni Snæbjörnsson tillögu á Alþingi um nýja 5000 mála síldarbræðslu á Raufarhöfn. Tillaga þessi var samþykkt en henni breytt á þann veg að verksmiðjan á Raufarhöfn myndi verða 2.500 mál en verksmiðjan S.R.N. yrði stækkuð um 2.500 mál. Þessi breyting kom til framkvæmda fyrir síldarvertíðina 1938 í tíð Haraldar Guðmundssonar, atvinnumálaráðherra. Jón Gunnarsson verkfræðingur var á þessum tíma framkvæmdastjóri Síldarverksmiðja ríkisins, og hafði hann yfirumsjón með öllum framkvæmdum. Meðal þess sem var gert fyrir síldarvertíðina 1937 var bygging nýs olíugeymis, mjölskemman var stækkuð, bætt við einni skilvindu, ný vatnsleiðsla lögð, síldarþrær endurnýjaðar, bryggjan byggð upp og nýr gufuketill tekinn í notkun. Kostnaður við þessar endurbætur var 89 þúsund krónur.[4] Árið 1940 flutti Ólafur Thors atvinnumálaráðherra frumvarp um að stækka verksmiðjuna á Raufarhöfn um 5.000 mál og var það samþykkt. Á þessum árum reyndist þó tafsamt að útvega vélar og byggingarefni til byggingar á nýjum síldarverksmiðjum. Einkum bitnaði lánsfjárskortur og erfiðleikar við að fá innflutningsleyfi á byggingarefni á hinni fyrirhuguðu nýju verksmiðju á Raufarhöfn. Seint í ágúst 1939 fóru Ásgeir Ásgeirsson bankastjóri og Jón Gunnarsson framkvæmdastjóri erlendis til að reyna að útvega lánsfé til byggingarinnar. Þeim gekk vel að fá umbeðin lán og gengu frá kaupum á vélum til verksmiðjunnar. Þetta mátti þó ekki tæpara standa því að síðari heimsstyjröldin skall á meðan þeir Ásgeir og Jón voru í þessari ferð, en skipið sem flutti vélarnar frá Noregi lagði frá landi með þær daginn áður en Noregur var hertekinn af Þjóðverjum 1940.

Næsta skrefið í þróun síldarverksmiðju ríkisins á Raufarhöfn var ákvörðun stjórnar S.R. að hefja byggingu nýrrar síldarbræðslu á Raufarhöfn árið 1962.[5] Afkastageta verksmiðjunnar hafði verið sú sama frá stofnun hennar, 5.000 mál. Þetta sumar, 1962, var mesta vinna í verksmiðjunni frá upphafi. Brætt var frá 9. júlí til 24. september, eða í 78 sólarhringa, samtals 363 þúsund mál.[6] Árið 1965 samþykkti stjórn S.R. að auka framleiðslugetu verksmiðjunnar á Raufarhöfn um 3.000 mál. Þessi ákvörðun var tekin vegna þess að afköst og geymslurými síldarverksmiðja á Austfjörðum var ekki í neinu samræmi við afkastagetu síldveiðflotans.[7]

Skagaströnd[breyta | breyta frumkóða]

Eins og fyrr segir skipaði Áki Jakobsson, atvinnumálaráðherra, bygginganefnd til að undirbúa og byggja nýja síldarbræðslu í Siglufirði árið 1945. Þessi nefnd sá einnig um að byggja nýja síldarverksmiðju á Skagaströnd. Verksmiðjan á Skagaströnd var byggð á árunum 1945 til 1947.[8] Rekstur Síldarverksmiðja ríkisins á Skagaströnd gekk frá upphafi ekki vel vegna hráefnisskorts. Verksmiðjan var tilbúin til notkunar árið 1946 og voru afköst hennar 7.500 mál á sólarhring. Þó var ekki lokið við bygginguna það ár, en unnið við hana veturinn 1946-1947. Verksmiðjan var prufukeyrð í fyrsta sinn 1. ágúst 1946. Dýpkunarframkvæmdir voru nauðsynlegar í höfninni áður en verksmiðjan tók til starfa svo stærri skip gætu lagst þar að, og var unnið að þeim á þessum tíma. Reiknað var með að byggingu verksmiðjuhúsanna yrði lokið sumarið 1947.[9] Árið 1949 var hafinn bræðsla á fiskúrgangi frá tveimur frystihúsum á staðnum. Þótti gað góð viðbót því atvinnulífið var í talsverðri lægð.[10] Í tengslum við breytingu síldarbræðslunnar svo hún gæti tekið á móti loðnu til vinnslu voru talsverðar hafnarframkvæmdir árið 1978, dýpkun og sett niður stálþil við viðlegukantinn svo hægt væri að taka á móti stærri bátum og skipum.[11]

Ár Síldarmagn til Skagastrandar (mál)
1946 6000
1947 12000
1948 22000
1949-1955 15000

Síldarbræðsla á Skagaströnd varð aldrei neitt í líkingu við það sem áætlað hafði verið. Eins og sést af töflunni hér að ofan var litlu landað þar. Á sjöunda áratugnum var reynt að flytja síld til Skagastrandar með flutningaskipi, en sú tilraun stóð skammt og hefur líkast til ekki þótt borga sig. Árið 1978 var reynt að breyta verksmiðjunni í loðnubræðslu, og stóð sú vinna fram á árið 1979. Þá vantaði aukna bræðslugetu fyrir Norðurlandi. Þegar breytingin var um garð gengin hvarf loðnan af miðunum fyrir Norðurlandi. Þó var haldið áfram að vinna fiskúrgang úr frystihúsunum á staðnum, og náði sú framleiðsla um 250 til 300 tonnum af mjöli á ári, þegar unnið var úr 1000 til 1500 tonnum af fiskúrgangi. Eftir breytingarnar á verksmiðjunni árið 1979 þótti mjölið frá Skagaströnd henta einkar vel sem skepnufóður, og var vinsælt gæðamjöl meðal bænda. Öll framleiðsla verksmiðjunnar var seld innanlands og ekkert flutt út á þessum tíma, frá 1979 til 1986.[12]

Seyðisfjörður[breyta | breyta frumkóða]

Síldarvinnsla hófst á Seyðisfirði 1932 með byggingu lítillar 800 mála verksmiðju. Árið 1951 taldi verksmiðjustórinn, Jónas Jónsson, að nauðsynlegt væri að stækka þessa verksmiðju mjög mikið . Afkastageta þáverandi verksmiðju væri svo lítil að bátar þyrftu að bíða dögum saman eftir löndun og mörgum bátum hefði þurft að vísa frá. Þessi staða væri því alls ekki ákjósanleg fyrir bæjarfélagið og atvinnumöguleika þar.[13] Í janúar 1962 samþykkti stjórn Síldarverksmiðja ríkisins að gera kauptilboð í síldarbræðsluna á Seyðisfirði, sem hafði 1.700 til 2.000 mála afkastagetu á sólarhring. Síldarbræðslan var í eigu nokkurra aðila en Bæjarsjóður Seyðisfjarðar var stærsti hluthafinn. Áform voru um að stækka bræðsluna upp í 4-5 þúsund mál, ef bærinn gengi að kauptilboðinu. Þá var einnig áhugi á að koma upp aðstöðu til umskipunar síldar úr síldveiðibátum í flutningaskip sem myndi senda síld til bræðslu í síldarverksmiðjur fyrir norðan land, þar sem síldveiði hafði verið treg.[14] Síldarverksmiðjur ríkisins keyptu verksmiðjuna af bænum fyrrihluta vetrar 1962, og var afkastageta verksmiðjunnar aukinn upp í 5.000 mál á sólarhring. Unnið var úr 96.929 málum af síld og síldarúrgangi sumarið 1962.[15] Á árunum 1966 og 1967 voru afköst þessarar síldarbræðslu aukin um 3.500 mál á sólarhring.[16] Vorið 1966 fór fram útboð á vegum Síldarverksmiðja ríkisins í gerð nýrrar mjölskemmu og undirstöður fyrir lýsisgeymi fyrir verksmiðjuna á Seyðisfirði.[17] Árið 1990 voru miklar framkvæmdir við byggingu nýrrar loðnubræðslu Síldaverksmiðju ríkisins á Seyðisfirði. Vitnað er til þess að kunnugir álíti að hér sé um að ræða eina fullkomnustu loðnubræðslu í Evrópu. 50 manns hafa haft fulla vinnu við byggingu verksmiðjunnar og var stefnt að því að hún gæti byrjað starfsemi í janúar 1991.[18] Í viðtali við Jón Ólafsson, formann félags fiskimjölsframleiðenda, kom fram að árið 1990 hafi Síldarverksmiðjur ríkisins fjárfest fyrir 525 milljónir króna í nýju verksmiðjunni á Seyðisfirði, en það var á þeim tíma mikil fjárfesting. Loðnuvertíðin árið 1990 hafi þó brugðist og hafi það verið mikið áfall fyrir allar loðnubræðslur landsins, í viðbót við að loðnuvertíðin 1989 brást að mestu. Um þetta sagði Jón: „Maður getur verið vitur eftir á. Loðnuvinnsla er erfiðasta greinin innan sjávarútvegsins. Þú veist ekkert þegar lagt er upp að hausti hversu mikið hráefni verður til skiptanna og jafnvel ekkert um afurðaverðið."[19]

Húsavík[breyta | breyta frumkóða]

Hinn 27. júlí 1942 samþykkti stjórn Síldarverksmiðja ríkisins að bera fram tillögu við ríkisstjórnina um að láta reisa fjórar nýjar síldarbræðslur með samtals 30 þúsund mála framleiðslugetu á sólarhring. Á Húsavík skyldi reisa 10 þúsund mála verksmiðju. Ástæða þess var að miklu meira framboð væri af síld til bræðslu en verksmiðjurnar sem fyrir voru gætu annað, og skemmdist mikið af síldinni í geymsluþróm verksmiðjanna meðan á geymslu stóð, en dagar gátu liðið þar til náðist að bræða síld frá því að henni var landað. Stjórn verksmiðjanna ásamt framkvæmdastjóra fór í þriggja daga ferð til Húsavíkur og Skagastrandar til að kanna aðstæður síðustu dagana í júlímánuði. Á Húsavík hélt stjórnin fund með Júlíusi Havstein, sýslumanni, og á Skagaströnd með Jóni Pálmasyni, alþingismanni, og Hafsteini Péturssyni, formanni hafnarnefndar. Síldarverksmiðjunum voru boðnar stórar ókeypis lóðir undir starfsemina á báðum stöðunum, en ljóst var að hafnarbætur voru einnig nauðsynlegar.[20] Í maí 1944 auglýstu Síldarverksmiðjur ríkisins að þær væru tilbúnar til að taka síld til bræðslu eða vinnslu á Húsavík um sumarið.[21] Árið 1946 tók verksmiðjan á Húsavík, sem afkastaði 350 málum á sólarhring, við 9.706 hektólítrum af síld til bræðslu, en árið 1945 var engin síld brædd þar.[22]

Í júlímánuði árið 1983 greindi Tryggvi Finnsson, forstjóri Fiskiðjusamlagsins á Húsavík frá því að Fiskiðjusamlagið hefði skrifað ríkisstjórninni bréf þar sem farið er fram á að fyrirtækið megi kaupa verskmiðju Síldarverksmiðja ríkisins í bænum. Fram kemur í erindi Tryggva að verksmiðjan sé lítil og ekkert hafi verið brætt í henni undanfarin ár nema fiskúrgangur frá frystihúsi félagsins.[23] Ekki virðist þó hafa orðið neitt úr þessari málaleitan, því í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1989, sem birt var í nóvember 1988, segir að fjármálaráðherra sé heimilt "að selja verksmiðjuhúsnæði, ásamt vélbúnaði og tækjum í eigu Síldarverksmiðja ríkisins á Húsavík."[24]

Reyðarfjörður[breyta | breyta frumkóða]

Veturinn 1961-1962 var ákveðið að Síldarverksmiðjur ríkisins myndu byggja nýja síldarbræðslu á Reyðarfirði. Byrjað var á byggingu verksmiðjuhúss um veturinn og vorið 1962 á Búðareyri, en svo var kaupstaðurinn nefndur, rétt við höfnina. Talsverðar hafnarbætur voru líka gerðar á þessum tíma, en ekki eingöngu vegna byggingar verksmiðjunnar heldur líka af því að þetta var þá þegar mikilvæg kaupskipa- og bátahöfn. Mikil vinna var því sumarið 1962 á staðnum, og meiri en oftast áður. Verksmiðjan var í fyrstu 1250 mál, með möguleikum til stækkunar síðar.[25] Síldarverksmiðjan átti þó við örðugleika að etja fyrstu árin. Árið 1964 kom fram að verksmiðjan starfaði aðeins á hálfum afköstum miðað við það sem hún hafði verið hönnuð fyrir. Var bent á að seint hefði gengið af ríkisins hálfu að byggja nægilega stórar síldarbræðslur á Austurlandi miðað við þá miklu síldveiði sem var þar á þessum árum.[26]

[27]Taprekstur 1989 og síðar[breyta | breyta frumkóða]

Taprekstur var á rekstri Síldarverksmiða ríkisins árið 1989. Fyrirtækið tapaði um 160 milljónum króna það ár, en það nam 13.1 prósentum af rekstrartekjum fyrirtækisins. Þetta tap mátti rekja til aflabrests á síðari hluta loðnuvertíðarinnar það ár. Tap varð á verksmiðjum SR í Siglufirði, alls 139.8 milljónir króna. Hagnaður varð af verksmiðjunum á Reyðarfirði og Seyðisfirði, en tap af rekstri verksmiðjanna á Raufarhöfn og Skagaströnd. Á Raufarhöfn var tapið 84.5 milljónir, en á Skagaströnd 5.8 milljónir. Jón Reynir Magnússon, framkvæmdastjóri Síldarverksmiðja ríkisins, útskýrði tapið: „Það er mjög einföld skýring á þessu," sagði Jón Reynir Magnússon, framkvæmdastjóri Síldarverksmiðja ríkisins þegar hann var spurður um ástæður tapreksturs fyrirtækisins. „Við vorum aðeins með framleiðslu á fyrri hluta ársins þ.e.a.s. á vetrarvertíðinni 1988 1989 en síðan kemur engin loðna fyrr en núna eftir áramótin á þessu ári. Við vorum nánast tekjulausir frá því í mars fram að áramótum sem er meginástæðan fyrir þessu." [28] Í viðtali við Jón Reyni Magnússon 29. maí 1991 sagði hann að verksmiðjurnar hefðu verið tekjulausar í heilt ár, og fyrirséð væri að heildarskuldir myndu nema 600 til 700 milljónum króna í árslok ef ekkert væri að gert. Taldi hann mikilvægt að gera eitthvað í stöðunni svo fyrirtækið yrði ekki gjaldþrota.[29] Hinn 4. júní 1991 fundaði ríkisstjórnin um skuldavanda nokkurra stórra fyrirtækja, þar á meðal Síldarverksmiðja ríkisins, sem skulduðu 1.3 milljarð króna. Boðaður var sérstakur aukafundur ríkisstjórnarinnar um þessi mál.[30] Skömmu síðar ákvað stjórn SR að verða við skilyrðum ríkisstjórnarinnar vegna 300 milljóna króna lántöku. Skilyrði þessi voru að settir verði þrír tilsjónarmenn með fjármálastjórn fyrirtækisins. Jón Reynir Magnússon framkvæmastjóri taldi ekki útlit fyrir að reksturinn stöðvaðist, en eftir væri að ganga frá málum við lánardrottna, einkum Landsbankann.[31]

Hinn 19. júní birtist grein um málefni Síldarverksmiðja ríkisins eftir Kristján L. Möller, forseta bæjarstjórnarinnar í Siglufirði og stjórnarmann í stjórn SR. Þar bendir Kristján á að verksmiðjurnar hafi aldrei á rúmlega sextíu ára ferli sínum notið styrkja úr ríkissjóði. Þá sé það ekki almennt vitað að Síldarverksmiðjur ríkisins hafi byggt hafnir og löndunaraðstöðu fyrir eigin reikning, en verðmæti þeirra mannvirkja sé um 265 milljónir króna. Verksmiðjurnar hafi því sparað ríkissjóði um 200 milljónir króna, því flestar hafnarframkvæmdir í landinu séu greiddar með 75 prósent framlagi ríkisins á móti 25 prósenta framlagi viðkomandi hafnarsjóða. Þá sé það ekki rétt að endurnýjun verksmiðjunnar á Seyðisfirði 1990 hafi farið fram án heimildar ríkisins, eins og haldið hafi verið fram, því á fjárlögum áranna 1989 til 1990 sé gert ráð fyrir þessu í B-hluta fjárlaga um ríkisfyrirtæki og sjóði, og séu þar áætlanir um fjárfestingu og framkvæmdir. Ennfremur er bent á að ríkið hafi styrkt einkareknar síldarverksmiðjur um fleiri hundruð milljónir króna á erfiðum tímabilum, t.d. árið 1987, með framlögum úr Atvinnutryggingasjóði í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, en hvorki þá né í annan tíma hafi Síldarverksmiðjur ríkisins fengið neina slíka aðstoð frá ríkinu, þrátt fyrir að vera mikilvæg kjölfesta fyrir atvinnulífið á þeim stöðum sem hún starfi.[32]

Síldarverksmiðjur ríkisins gerðar að hlutafélagi[breyta | breyta frumkóða]

Hinn 1. apríl 1993 samþykkti Alþingi lög um að breyta Síldarverksmiðjum ríkisins í hlutafélag í eigu ríkissjóðs. Stofnfundur hins nýja hlutafélags var haldinn í Siglufirði hinn 6. júlí það ár. Þorsteinn Pálsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, hélt ræðu af því tilefni. Þorsteinn Pálsson taldi upp ýmsar ástæður þess að ríkisstjórnin hefði tekið ákvörðun um að breyta Síldarverksmiðjum ríkisins í hlutafélag. I fyrsta lagi hefði orðið mikið og ófyrirséð tap af rekstri fyrirtækisins undanfarin ár, en þetta tap hefði orsakast af ófyrirséðum, ytri aðstæðum. Alvarlegir rekstrarörðugleikar steðjuðu að fyrirtækinu. Í öðru lagi væru lögin um síldarverksmiðjurnar frá árinu 1938 orðin úreld. Í þriðja lagi væri það stefna ríkisstjórnarinnar að breyta ríkisfyrirtækjum sem hefðu starfsemi á opinberum markaði í hlutafélög og selja þau síðan. Ríkið eigi sem sé ekki að stunda atvinnurekstur sem er í beinni samkeppni við atvinnurekstur á frjálsum markaði. "Í samræmi við framangreinda stefnu var hafinn undirbúningur að því að breyta rekstrarformi Síldarverksmiðja ríkisins. Skipaði ég nefnd strax sumarið 1991 undir forystu Eggerts Haukssonar viðskiptafræðings sem fékk það hlutverk að móta og leggja fram tillögur. Nefndin skilaði tillögum haustið 1991 og voru nefndarmenn sammála um að leggja til að rekstrarformi Síldarverksmiðja ríkisins yrði breytt í hlutafélag," sagði Þorsteinn Pálsson. Nafn hins nýja hlutafélags var SR-mjöl hf. Fastafjármunir, lausafjármunir og skuldir fyrirtækisins voru sett í endurmat. Um 60 fastir starfsmenn, sem áður störfuðu hjá ríkisverksmiðjunum, fengu endurráðningu við hið nýja fyrirtæki. Ríkissjóður Íslands yfirtók 400 milljóna króna lán af langtímaskuldbindingum Síldarverksmiðja ríkisins. Ennfremur sagði Þorsteinn Pálsson: "Með stofnun SR-mjöls hf., sem fram fer hér á Siglufirði í dag, er lagður grunnur að næsta skrefi málsins sem er að einkavæða fyrirtækið. Ríkissjóður er eigandi allra hlutabréfa í félaginu við stofnun þess og fer sjávarútvegsráðherra með eignarhlut ríkisins í félaginu. Enda þótt ríkissjóður sé eigandi allra hlutabréfa við stofnun SR-mjöls hf. er fyrirhugað að selja öðrum hlutabréf í félaginu eða einstakar eignir þess."[33][34]

SR Mjöl hf. selt[breyta | breyta frumkóða]

Miðvikudaginn 29. desember 1993 ákvað Þorsteinn Pálsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, að ganga að kauptilboði í öll hlutabréf ríkisins í SR-Mjöli hf. Þeir sem stóðu að þessu tilboði voru Benedikt Sveinsson og Jón Aðalsteinsson, fyrir hönd 21 útgerðarfyrirtækja og þriggja fjármálafyrirtækja. Kauptilboðið sem samþykkt var hljóðaði upp á 725 milljónir króna. Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður, hafði einnig gert tilboð í fyrirtækið fyrir hönd Haraldar Haraldssonar. Tilboði þeirra, sem hljóðaði upp á 801 milljón króna staðgreiðslu, var hafnað á þeirri forsendu að þeir fjármunir sem tilboðið væri byggt á væru ekki fyrir hendi, auk þess sem Haraldur hefði ekki viljað upplýsa opinberlega um hverjir stæðu með honum að þessu tilboði, þótt hann hefði í trúnaði upplýst það. Lýstu þeir Sigurður og Haraldur því yfir að leikreglur hefðu verið brotnar og fyrirfram hefði verið ákveðið að ganga að tilboðinu sem var samþykkt. Þorsteinn Pálsson mótmælti þessum fullyrðingum og sagði að þær hefðu ekki við neitt að styðjast. Benti hann á að tilboð Haraldar hefði ekki uppfyllt þau skilyrði sem sett voru í útboðslýsingu um fjárhagslegan styrk. Samband hefði verið haft við viðskiptabankann sem var tilnefndur, en bankinn gat ekki gefið nein svör.[35]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. „Taíla II. Síldarverksmiðjur í árslok 1937 og afköst þeirra“.
 2. „Hafln framleiðsla á Sigló síldarvörum. Niðurlagningarverksmiðjan reist á 5 mánuðum“.
 3. „Stjórnarfrumvarp; Hlutafélag um Sigló verksmiðjuna“.
 4. „Stækkun síldarverksmiðjanna knýjandi nauðsyn“.
 5. „Síldarverksmiðjur ríkisins 50 ára - Þorsteinn Gíslason“.
 6. „Lengsta bræðslutímabili lokið“.
 7. „Sjávarútvegurinn við áramót“.
 8. „Sveinn Benediktsson: SÍLDARVERKSMIÐJUR RÍKISINS 25 ÁRA“.
 9. „Síldarverksmiðjan á Skagaströnd reynd í gærkvöldi“.
 10. „Í Höfðahreppi er nóg að bíta og brenna en samt flýr fólkið héðan“.
 11. „Lodnubræðsla verður mikil lyftistöng fyrir staðinn“.
 12. „Síldarverksmiðjan á Skagaströnd“.
 13. „Seyðfirðingar vinna að bættum atvinnuskilyrðum“.
 14. „Stjórn SR vill kaupa“.
 15. „Nýjar síldarverksmiðjur“.
 16. „Nýjar verksmiðjur og endurbætur“.
 17. „Útboð“.
 18. „Úti ævintýri? ÞROTLAUS VINNA OG SERKENNILEGT ANDRUMS LOFT YFIR SÍLDARVERTÍDINNI Á AUSTFJÖRÐUM“.
 19. „Vandi loðnuverksmiðja: Heildarstaðan er gífurlega erfið“.
 20. „Stórkostleg aukning á Síldarverksmiðjum ríkisins“.
 21. „TILKYNNING frá SÍLDARVERKSMIÐJUM RÍKISINS“.
 22. „Tafla XVI. Síldarmóttaka verksmiðjanna 1945-1946“.
 23. „Fiskíðjusamlag Húsavíkur: VILL KAUPA VERKSMIÐJU SR I BÆNUM“.
 24. „Heimildir til ráðherra um kaup og sölu eigna“.
 25. „Búðareyri-Reyárfjörður. Viðtal við Helga Seljan“.
 26. „Framleiðsla og íyrirhyggja Síldarverksmiðjan á Seyðisfirði bræðir ekki Verksmiðjan á Reyðarfirði á hálfum afköstum“.
 27. „Stjórnin ræðir milljarðavanda fyrirtækja og sjóða“.
 28. „Um 160 milljóna tap af rekstri Síldarverksmiðja ríkisins“.
 29. „Skuldi r SR allt að 700 milljónir í árslok 1991“.
 30. „Stjórnin ræðir milljarðavanda fyrirtækja og sjóða“.
 31. „Stjórn Síldarverksmiðja ríkisins samþykkir tilsjónarmenn“.
 32. „Villandi fréttaflutningur um Síldarverksmiðjur ríkisins“.
 33. „Ræða Þorsteins Pálssonar sjávarútvegsráðherra á stofnfundi SR-mjöls hf. 6. júlí 1993 á Siglufirði“.
 34. „SR mjöl hf. taki yfir 1. ágúst“.
 35. „Segir fyrirfram ráðið hver fengi fyrirtækið - Staðlausir stafir að leikreglum hafi ekki verið fylgt“.