Fara í innihald

Halldór Brynjólfsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Halldór Brynjólfsson (f. 15. apríl 1692, d. 28. október 1752) var biskup á Hólum frá 1746 til dauðadags, 1752, eða í 6 ár.

Foreldrar Halldórs voru Brynjólfur Ásmundsson lögréttumaður á Saurum í Helgafellssveit og Ingjaldshóli, og kona hans Vilborg Árnadóttir, dóttir Árna Kláussonar prests í Vestmannaeyjum.

Halldór fæddist á Saurum og ólst upp þar og á Ingjaldshóli. Hann lærði í Hólaskóla og varð stúdent þaðan 1715. Fór utan sama ár, skráður í Kaupmannahafnarháskóla um haustið, og lauk embættisprófi í guðfræði vorið 1716. Hann kom heim um sumarið og fékk Útskála og þjónaði jafnframt Hvalsnesi. Fékk Staðastað 1736 og varð prófastur í Snæfellsnessýslu 1738. Árið 1739 lagði hann til að stofnaður yrði barnaskóli á Snæfellsnesi, sem haldið væri uppi með hlut af hverju skipi í sýslunni, en af því varð ekki.

Haustið 1740 fór Halldór til Kaupmannahafnar til þess að reyna að fá Hólabiskupsdæmi, en tókst ekki, kom heim 1741. Sumarið 1745 var hann að boði konungs kvaddur utan, og var vígður Hólabiskup 25. mars 1746. Hann kom að Hólum um haustið og var biskup til æviloka, 1752. Halldór fékk hálsmein og krabbamein í tungu, fór utan haustið 1752 til þess að leita sér lækninga, en andaðist á Eyrarsundi. Hann var jarðsunginn frá Vorfrúarkirkju í Kaupmannahöfn.

Páll Eggert Ólason segir um Halldór: "Dugnaðarmaður, en þó örlátur, ... talinn með lærðustu prestum, góður kennimaður og siðsamur; hann fékkst við lækningar, blóðtökur o.fl. meðan hann var prestur. Hann var hagmæltur." Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar eru nokkrar stórlygisögur hafðar eftir Halldóri biskupi, sem benda á gamansamlega raupsemi.

Um 60 bækur komu út á Hólum í biskupstíð Halldórs Brynjólfssonar, þar af 7 alþingisbækur og 23 tilskipanir. Útgáfa tilskipana var nýjung, og þýddi Halldór sumar þeirra sjálfur. Þegar hann var í Kaupmannahöfn, 1740-1741, þýddi hann rit eftir Erik Pontoppidan: Sannleiki guðhræðslunnar (Kmh. 1741). Var þýðingin harðlega gagnrýnd og bókin oft kölluð Rangi-Ponti. Þýddi einnig smárit eftir Hatton: Lítið ágrip um þær fjórar species (Hólum 1746). Lét endurprenta Vísnabók Guðbrands biskups (Hólum 1748).

Í Þjóðskjalasafni Íslands eru varðveittar skjalabækur úr embættistíð Halldórs Brynjólfssonar.

Í Hóladómkirkju var málverk af Halldóri Brynjólfssyni, það er nú í Þjóðminjasafni Íslands, og eftirmynd þess á Hólum.

Kona Halldórs Brynjólfssonar (gift 1725) var Þóra Björnsdóttir (f. 1705, d. 27. september 1767), dóttir Björns Thorlaciusar prófasts að Görðum á Álftanesi. Eftir andlát Halldórs biskups, fluttist Þóra að Reynistað og bjó þar við rausn til æviloka.

Börn þeirra sem upp komust: Þórunn Halldórsdóttir (f. 1726) húsfreyja á Stóra-Núpi, Gróa Halldórsdóttir (f. um 1730), Elín Halldórsdóttir (f. um 1730), Páll Halldórsson (f._um 1735) klausturhaldari, seinast á Syðri-Ey á Skagaströnd, Þrúður Halldórsdóttir (f. 1736) húsfreyja í Fremri-Gufudal, Vilborg Halldórsdóttir (f. 1740) húsfreyja á Breiðabólstað í Ölfusi, Brynjólfur Halldórsson (f. um 1740) gullsmiður á Sauðá og víðar, Snæbjörn Halldórsson (f. um 1742) prestur í Grímstungum og víðar, Björn Thorlacius Halldórsson (f. 1743) kaupmaður á Húsavík, og Margrét Halldórsdóttir (f. 1746) prestsfrú í Odda.

  • Páll Eggert Ólason: Íslenskar æviskrár II.



Fyrirrennari:
Ludvig Harboe
Hólabiskup
(17461752)
Eftirmaður:
Gísli Magnússon