Fara í innihald

Staðarstaður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Staðastaður)
Staðarstaður

Staðarstaður (áður Staður á Ölduhrygg) er bær og prestssetur í Staðarsveit á sunnanverðu Snæfellsnesi. Staðarstaður (stundum Staðastaður) var mikil hlunnindajörð, þótti eitt besta prestakall landsins og þar hafa margir þekktir menn verið við bú.

Sagnaritarinn Ari Þorgilsson fróði er talinn hafa búið á Staðarstað á 12. öld. Sonarsonur hans, Ari Þorgilsson sterki, bjó á jörðinni seinna á öldinni, síðan tengdasonur Ara sterka, Þórður Sturluson og á eftir honum sonur hans og sonarsonur, Böðvar Þórðarson og Þorgils skarði Böðvarsson.

Síðar varð Staðarstaður prestssetur og þar sem jörðinni fylgdu mikil hlunnindi var staðurinn eftirsóttur. Margir þeirra presta sem þangað völdust voru af höfðingjaættum eða þóttu líklegir til frama. Fjórir prestar frá Staðarstað urðu biskupar (Marteinn Einarsson, Halldór Brynjólfsson, Gísli Magnússon og Pétur Pétursson) og Hallgrímur Sveinsson biskup, sonur séra Sveins Níelssonar, ólst þar upp. Af síðari tíma prestum má nefna Kjartan Kjartansson, sem var prestur á árunum 1922-1938, var hugvitsmaður og viðgerðarmaður og er talin ein fyrirmyndin að séra Jóni prímusi í Kristnihaldi undir Jökli og Þorgrím V. Sigurðsson, sem var prestur á Staðarstað 1944-1973. Þorgrímur var skólamaður mikill og jafnvígur á flestar greinar og var hann síðastur íslenskra kennimanna til að halda heimaskóla að gömlum sið og búa unglinga undir framhaldsnám. Í kirkjugarðinum á Staðarstað er svokallaður Franskireitur, þar sem grafnir eru tæplega 40 Frakkar er drukknuðu þegar sex franskar skútur fórust úti fyrir Staðarsveit og með þeim yfir hundrað skipverjar árið 1870.

Ýmsir þekktir menn koma einnig við sögu Staðarstaðar. Oddur Sigurðsson lögmaður var fæddur á Staðarstað. Galdra-Loftur Þorsteinsson dvaldi hjá prestinum á Staðarstað og fór þaðan í sinn síðasta róður. Jóhann Jónsson skáld var fæddur á Staðarstað og einnig Ragnar Kjartansson myndhöggvari. Minnisvarði um Ara fróða eftir Ragnar var reistur á Staðarstað 1981.

Núverandi kirkja á Staðarstað er steinkirkja og var reist á árunum 1942-1945. Í henni eru meðal annars listaverk eftir Tryggva Ólafsson og Leif Breiðfjörð.

  • „Komið hausthljóð í vindinn. Lesbók Morgunblaðsins, 8. janúar 1994“.
  • Þorsteinn Jósepsson, Steindór Steindórsson og Páll Líndal (1982). Landið þitt Ísland, S-T. Örn og Örlygur.
  • Björn Hróarsson (1994). Á ferð um landið, Snæfellsnes. Mál og menning. ISBN 9979-3-0853-2.
  Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.