Höfuðborgarsvæði Ástralíu
Höfuðborgarsvæði Ástralíu | |
---|---|
Kjörorð: "Pro Rege, Lege et Grege" (Fyrir drottninguna, lögin og fólkið) | |
Land | Ástralía |
Höfuðborg | Canberra |
Stjórnarfar | |
• Æðsti ráðherra | John Stanhope |
Flatarmál | |
• Samtals | 2.358 km2 |
Mannfjöldi (2022) | |
• Samtals | 455.869 (7 sæti) |
• Þéttleiki | 190/km2 |
Tímabelti | UTC +10 (+11 á sumrin) |
Vefsíða | act.gov.au |
Höfuðborgarsvæði Ástralíu (enska: Australian Capital Territory, ACT) er, eins og nafnið bendir til, svæði sem stofnað var utan um höfuðborg Ástralíu, Canberra. Þannig tilheyrði hún hvorki Nýja Suður Wales né Victoria eftir að höfuðborgir þeirra (Sydney og Melbourne) höfðu deilt um hvor þeirra fengi hlutverkið. Svæðið er algjörlega umlukið NSW enda tilheyrði land þess áður því fylki.
Höfuðborgarsvæði Ástralíu hefur ákveðna sjálfstjórn en sú sjálfstjórn er þó miklu minni en fylkjanna. Svæðið hefur eigin 17 manna löggjafarsamkomu, en ríkisstjórn samveldisins hefur þar neitunarvald. Höfuðborgarsvæðið á tvo þingmenn í hvorri deild ástralska samveldisþingsins.
Staðir
[breyta | breyta frumkóða]Canberra er eina borg svæðisins og þar býr mikill meirihluti íbúanna, en í nágrenni hennar eru enn nokkrir sveitabæir og einstaka þorp sem flest eru eldri en borgin, t.a.m. Hall, sem smám saman er að renna saman við borgina (svæðið er allmiklu stærra en borgin er í dag). Fyrir sunnan borgina er Tidbinbilla friðlandið þar sem hefur mátt sjá áströlsk dýr í sínu náttúrulega umhverfi en friðlandið var að miklu leyti til þess að gestir gætu komið og skoðað náttúruna. Svæðið varð mjög illa úti í skógareldunum 18. janúar 2003 og drápust þá flestöll dýrin. Uppbyggingarstarf hófst strax en langt er þangað til svæðið mun ná sér að fullu. Mikilvægt er þó að geta þess að skógareldar eru mjög mikilvægur þáttur í náttúru Ástralíu og liður í fjölgun margra tegunda. Rétt hjá friðlandinu er geimfjarskiptastöð rekin af NASA. Namadgi þjóðgarðurinn sem í er nyrsti hluti áströlsku alpanna er einnig innan höfuðborgarsvæðisins, rétt hjá áðurnefndu friðlandi.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Fólk hefur búið þar sem nú er Höfuðborgarsvæði Ástralíu mjög lengi og þar bjuggu frumbyggjaættbálkarnir Walgalu, Ngarigo og Ngunnawal (en úr máli þeirra er nafn höfuðborgarinnar tekið). Evrópumenn komu ekki þangað fyrr en á þriðja áratugi 18. aldar og voru þar þá aðeins einstaka þorp, eins og svo víða í Ástralíu. Árið 1908 var svæðið valið undir hina nýju höfuðborg enda nokkurn veginn mitt á milli Sydney og Melbourne, stærstu borganna, og með góðu aðgengi að vatni. 1911 var haldin keppni um skipulag hinnar nýju höfuðborgar og hana vann Walter Burley Griffin. Bygging borgarinnar hófst 1913 og árið 1927 flutti þingið loks á höfuðborgarsvæðið.