Hof á Höfðaströnd

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hof á Höfðaströnd.

Hof á Höfðaströnd er bær og kirkjustaður í Skagafirði, skammt ofan við Hofsós. Þar var prestssetur áður. Hofskirkja er timburkirkja, reist á árunum 1868-1870 og er hún friðuð.

Hof var höfuðból og þar bjuggu oft höfðingjar fyrr á öldum, svo sem Brandur Jónsson lögmaður (d. 1494), Hrafn Brandsson yngri, sem bjó þar áður en hann náði Glaumbæ af Teiti Þorleifssyni, og Magnús Björnsson lögréttumaður, sonarsonur Jóns Arasonar. Skúli Magnússon, síðar landfógeti, bjó líka á Hofi fyrstu árin sem hann var sýslumaður Skagfirðinga.

Pálmi Jónsson, stofnandi Hagkaupa, fæddist á Hofi 3. júní 1923 og ólst þar upp. Lilja dóttir hans keypti Hof og réðst þar í allmiklar framkvæmdir, meðal annars reist íbúðarhús sem hönnuðirnir hjá Studio Granda fengu Sjónlistarverðlaunin 2007 fyrir. Það var einnig tilnefnt til Arkitektaverðlauna Evrópusambandsins.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]