Héðinsfjörður
66°09′38″N 18°45′00″V / 66.16056°N 18.75000°V
Héðinsfjörður er tæplega 6 km langur eyðifjörður nyrst á Tröllaskaga, á milli Hestfjalls að vestan og Hvanndalabyrðu að austan. Fyrir botni fjarðarins er ágætt veiðivatn, Héðinsfjarðarvatn, og er útrennsli úr því um Héðinsfjarðarós út í fjörðinn. Við vatnið og inn af því voru áður fáeinir bæir. Næsta byggð til vesturs er í Siglufirði og voru fyrrum fjölfarnar leiðir þangað úr Héðinsfirði um bæði Hestskarð og Hólsskarð. Til austurs var mest farið um Fossabrekkur til Ólafsfjarðar.
Mannskæðasta flugslys á Íslandi varð í Héðinsfirði 29. maí 1947 þegar flugvél Flugfélags Íslands flaug á utanvert Hestfjall. Fórust allir 25 sem í vélinni voru, 21 farþegi og fjögurra manna áhöfn.
Árið 2006 hófst vinna við Héðinsfjarðargöng, sem liggja á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar um Héðinsfjörð og voru þau opnuð 2. október 2010.
Bæir
[breyta | breyta frumkóða]- Vík (fór í eyði 1951)
- Grundarkot (fór í eyði 1949)
- Vatnsendi (fór í eyði 1946)
- Ámá (fór í eyði 1927)
- Möðruvellir (fóru í eyði 1903)