Fara í innihald

Græna gangan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Græna gangan (arabíska almassira alkhadrae spænska: Marcha verde) var aðgerð á vegum stjórnvalda í Marokkó í nóvember árið 1975 til að neyða Spánverja til að láta af hendi yfirráðasvæði sitt í Spænsku-Sahara. Um 350 þúsund manns héldu í fylgd nærri 20 þúsund marokkóskra hermanna inn í Vestur-Sahara. Þar mætti hún í fyrstu lítilli mótspyrnu Polisario-hreyfingar Sahrawi-fólksins en fljótlegga braust út allsherjar styrjöld milli Polisario og Marokkóhers, Vestur-Sahara stríðið, sem stóð í sextán ár.

Stjórnvöld í Marokkó í norðri og Máritaníu í suðri höfðu lengi gert tilkall til yfirráðasvæðis Spánverja í Vestur-Sahara. Árið 1973 höfðu sveitir Polisario-hreyfingar innfæddra íbúa landsins hafið skæruhernað gegn spænsku stjórninni með þeim árangri að í október 1975 höfðu Spánverjar á laun hafið viðræður við leiðtoga uppreisnarmanna um valdaskipti. Þannig funduðu utanríkisráðherra Spánar, Pedro Cortina y Mauri og El-Uali Mustapha Sayed leiðtogi Polisario í Algeirsborg  í þessu skyni.

Marokkóstjórn reyndi að bregðast við sjálfstæðiskröfunum með því að krefjast úrskurðar Alþjóðadómstólsins. Niðurstaða dómsins olli Marokkómönnum þó vonbrigðum, því hún var á þá leið að þótt sumir ættbálkar Sahrawi-þjóðarinnar hefðu sögulega lotið stjórn soldánsins í Marokkó gilti það ekki um þá alla. Þá ættu hvorki Marokkó né Máritanía sögulegan rétt til landakrafna, þess í stað ættu íbúar landsins, Sahrawi-fólkið, rétt til sjálfsákvörðunar varðandi framtíð sína. Til að flækja málin enn frekar hafði sendinefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna lýst því yfir daginn áður en dómurinn fell að yfirgnæfandi meirihluti Sahrawi-þjóðarinnar aðhylltist stofnun eigin ríkis.

Hassan II konungur Marokkó kaus hins vegar að horfa einvörðungu á þann hluta úrskurðarins sem gat um söguleg tengsl Sahrawi-fólks og Marokkó, en hafði að engu sjálfa niðurstöðuna. Hann tilkynnti þegar um undirbúning grænu göngunnar, sem myndi tryggja yfirráð Spænsku-Sahara.

Til að undirbúa aðstæður og til að koma í veg fyrir mögulega íhlutun Alsírsstjórnar (að sögn Marokkó) eða til að hernema landið og brjóta niður andstöðu heimamanna (að sögn Polisario), hélt Marokkóher inn í norðausturhluta landsins þann 31. október 1975. Þar mætti hann þegar nokkurri mótspyrnu Polisario-hreyfingarinnar sem þá var tveggja ára gömul.

Græna gangan

[breyta | breyta frumkóða]

Græna gangan var mjög vel kynnt og ógnarfjölmenn aðgerð. Þann 6. nóvember 1975 söfnuðust um 350 þúsund óvopnaðir Marokkóbúar saman við borgina Tarfaya í sunnanverðu landinu og biðu merkis frá konungi sínum, Hassan II um að halda yfir landamærin. Þeir veifuðu Kóraninum, þjóðfána Marokkó, slagorðum um yfirráð Marokkóstjórnar og myndum af konunginum. Græni liturinn í nafni göngunnar vísaði til íslamskrar trúar.

Þegar komið var yfir landamærin hafði spænski herinn fengið þau fyrirmæli að skjóta ekki á göngufólk til að afstýra blóðbaði. Þá fjarlægðu hermenn jarðsprengjur af svæðinu.

Rök Marokkóstjórnar fyrir yfirráðum

[breyta | breyta frumkóða]

Marokkóstjórn heldur því fram að sögulega séð hafi fullveldi marokkóska ríkisins byggst á hollustueiðum við soldáninn. Að hennar mati hafi íbúar á svæðinu umdeilda svarið slíka eiða mörgum öldum fyrir yfirráð Spánverja og því hafi verið um bein tengsl að ræða. Þannig hafi soldánninn Hassan fyrsti staðið fyrir tveimur leiðöngrum árið 1886 til að stugga útlendingum burt frá áhrifasvæðinu og skipað þar embættismenn. Í málflutningi sínum fyrir Alþjóðadómstólnum taldi Marokkóstjórn einnig til gömul dæmi um skattheimtu til marks um yfirráðarétt sinn.

Þá vísaði Marokkó til ýmissa milliríkjasamninga sinna, svo sem við Spán árið 1861, Bandaríkin árin 1786 og 1836 og Stóra-Bretland árið 1856 til marks um sögulegan rétt sinn.

Dómstóllinn komst þó að þeirri niðurstöðu að hvorki aðgerðir marokkóska ríkisins innanlands né í samskiptum við önnur ríki bentu til þeirra afgerandi tengsla yfir lengra tímabil að þau gætu staðið undir yfirráðakröfum. Jafnvel þótt tekið væri tillit til þess hversu laustengt marokkóska ríkið hefði verið fyrr á tíð, væri ekki unnt að tala um skýr og afdráttarlaus yfirráð Marokkó yfir Spænska-Sahara.

Madrid-samkomulagið

[breyta | breyta frumkóða]

Græna gangan átti sér stað á tímum djúpstæðrar pólitískrar kreppu á Spáni. Einræðisherrann Franco, sem stýrt hafði landinu í nærri fjörutíu ár var við dauðans dyr. Þrátt fyrir mun meiri hernaðarstyrk spænska herliðsins í Vestur-Sahara en marokkóska hersins, óttaðist spænska stjórnin að deilur við Marokkó gætu leitt til nýlendustríðs í Afríku, sem gæti grafið undan völdum hennar heima fyrir og valdið pólitískum óstöðugleika.

Spænska stjórnin, undir forystu Jóhanns Karls prins, sem var starfandi þjóðhöfðingi í fjarveru Francos og settur forsætisráðherra, Arias Navarro, hafði engan áhuga á að bæta upplausn í nýlendunum við vandræði sín. Árinu áður hafði portúgölsku stjórninni verið steypt eftir að hafa dregist út í stríð í nýlendum sínum Angóla og Mósambík.

Í ljósi þessa brást spænska stjórnin við Grænu göngunni með það í huga að afstýra styrjöld en halda þó eins miklum áhrifum á svæðinu og mögulegt væri. Spánverjar hófu því tvíhliða viðræður við stjórnvöld í Marokkó og Máritaníu, sem jafnframt gerði kröfur til yfirráða. Að kröfu Marokkómanna áttu innfæddir íbúar Vestur-Sahara ekki aðild að viðræðunum sem lauk þann 14. nóvember með Madridar-samkomulaginu svokallaða. Samkomulagið skipti Spænsku-Sahara milli Máritaníu og Marokkó, þó með klausu í þriðju grein þríhliða samkomulagsins um að horfa þyrfti til sjónarmiða íbúanna sjálfra.

Spánn fékk 35% nýtingarrétt á fosfórnámunum í Bou Craa sem og fiskveiðiréttindi í sinn hlut. Í kjölfarið innlimuðu Marokkó og Máritanía þau landsvæði sem samkomulagið ráð fyrir. Marokkó gerði tilkall til norðurhlutans, Saquia el-Hamra og um það bil hálfa Rio de Oro, meðan Máritanía freistaði þess að yfirtaka syðsta þriðjung landsins undir heitinu Tiris al-Gharbiyya. Síðar fell Máritanía frá öllum landakröfum í ágústmánuði 1979 og afsalaði löndum sínum til Polisario-hreyfingar Saharwi-fólksins, en Marokkóstjórn lagði svæðið samstundis undir sig. Máritaníustjórn hélt engu að síður eftir litlu svæði, Ras Nouadhibou, til að veja öryggi höfuðborgarinnar Núaksjott.

Polisario-hreyfingin, með dyggum stuðningi Alsírsstjórnar hafnaði Madridar-samkomulaginu og krafðist þess að úrskurður Alþjóðadómstólsins um sjálfsákvörðunarrétt Sahrawi-fólksins yrði virður. Hreyfingin sneri nú vopnum sínum að hinum nýju valdhöfum, til að knýja fram kröfur sínar um tafarlaust sjálfstæði eða þjóðaratkvæðagreiðslu að öðrum kosti. Engin lausn hefur enn fundist á deilunni.

Nú um stundir er vopnahlé við lýði eftir samkomulag Marokkóstjórnar og Polisario frá árinu 1991 þess efnis að leita skyldi lausnar með atkvæðagreiðslu um sjálfstæði. Sameinuðu þjóðirnar ýttu úr vör friðargæsluverkefni, MINURSO, sem hefur það hlutverk að fylgjast með því að vopnahléið haldi og undirbúa atkvæðagreiðsluna sem enn hefur ekki farið fram. Marokkóstjórn hefur til þessa hafnað öllum hugmyndum að útfærslu á atkvæðagreiðslu, en þess í stað lagt til að landsvæðið fái aukna sjálfsstjórn innan landamæra Marokkó. Slíkum tillögum hefur verið hafnað af Spánarstjórn, Polisario og stjórnvöldum í Alsír.

Spánverjar eru milli steins og sleggju þar sem annars vegar tekst á sú viðleitni þeirra að halda góðum samskiptum við Marokkó, grannríki sitt til suðurs sem þess utan deilir landamærum með Spáni við Ceuta og Melilla, en hins vegar ábyrgð Spánar sem fyrrum nýlenduveldis. Hin hefðbundna afstaða Spánarstjórnar, fram að valdatöku Zapateros forsætisráðherra var á þá leið að virða bæri vilja íbúa Vestur-Sahara og að halda bæri atkvæðagreiðslu undir stjórn Sameinuðu þjóðanna. En samkvæmt gögnum frá bandaríska utanríkisráðuneytinu sem birtust á Wikileaks, breytti Zapatero-stjórnin áherslum sínum varðandi almenna atkvæðagreiðslu og studdi þess í stað málstað Marokkó. Í ræðu í spænska þinginu þann 15. desember 2010 þrætti þó utanríkisráðherrann Trinidad Jiménez fyrir stuðning Spánar við málstað Marokkó í málinu og áréttaði að Spánarstjórn væri fylgjandi samningum milli Marokkó og Polisario.

Fyrirmynd greinarinnar var „Green March“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 27. október 2015.