José Luis Rodríguez Zapatero

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
José Luis Rodríguez Zapatero
Zapatero árið 2015.
Forsætisráðherra Spánar
Í embætti
17. apríl 2004 – 21. desember 2011
ÞjóðhöfðingiJóhann Karl 1.
ForveriJosé María Aznar
EftirmaðurMariano Rajoy
Persónulegar upplýsingar
Fæddur4. ágúst 1960 (1960-08-04) (63 ára)
Valladolid, Spáni
StjórnmálaflokkurSpænski sósíalíski verkamannaflokkurinn
MakiSonsoles Espinosa
Börn2
HáskóliHáskólinn í León
StarfKennari, stjórnmálamaður
Undirskrift

José Luis Rodríguez Zapatero (f. 4. ágúst 1960) er spænskur stjórnmálamaður úr Spænska sósíalíska verkamannaflokknum sem var forsætisráðherra Spánar frá 2004 til 2011. Hann gegndi tveimur kjörtímabilum sem forsætisráðherra en ákvað að bjóða sig ekki fram til endurkjörs árið 2011.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Zapatero fæddist í Valladolid í Kastilíu-León árið 1960. Afi hans hafði verið tekinn af lífi af falangistum í upphafi spænsku borgarastyrjaldarinnar og dauði hans hafði djúpstæð áhrif á fjölskyldu Zapateros og stjórnmálaskoðanir hennar. Zapatero nam lögfræði við Háskólann í León og vann sem kennari við skólann að námi loknu til ársins 1986. Hann hreifst á yngri árum mjög af Felipe González, leiðtoga Sósíalíska verkamannaflokksins (PSOE), sem varð áberandi í spænskum stjórnmálum stuttu eftir að einræðisstjórn Francos leið undir lok árið 1975. Zapatero gekk í PSOE árið 1979 og reis fljótt til metorða innan flokksins á næstu árum.[1]

Zapatero var kjörinn á spænska þingið árið 1986, sama ár og sósíalistar náðu meirihluta á þinginu. Hann var þá 26 ára og þar með yngsti þingmaður Spánar. Zapatero náði endurkjöri á þing árin 1993 og 1996 en í síðari kosningunum báðu sósíalistar ósigur fyrir hægriflokkum og fóru í stjórnarandstöðu. Kosningaósigurinn leiddi til krafa um hugmyndafræðilega endurnýjun og leiðtogaskipti innan PSOE. Zapatero var kjörinn formaður héraðsdeildar flokksins í León árið 1997. Tveimur árum síðar studdi hann Joaquín Almunia sem aðalritara og forsætisráðherra sósíalista en Almunia neyddist til að segja af sér eftir að sósíalistar guldu sögulegt afhroð í kosningum árið 2000.[1]

Zapatero var kjörinn aðalritari PSOE þann 22. júlí árið 2000. Í baráttu sinni um leiðtogaembættið hafði hann boðað hugmyndafræði sem hann kallaði „nýju leiðina“ (sp. Nueva Vía) og svipaði til miðjusinnaðra en markaðsvænna stefnumála sem evrópskir vinstrileiðtogar á borð við Tony Blair og Gerhard Schröder höfðu boðað á undanförnum árum.[1]

Sem aðalritari Sósíalistaflokksins gagnrýndi Zapatero ríkisstjórn José María Aznars og Þjóðarflokksins harðlega fyrir stuðning hennar við Íraksstríðið og lofaði gagngerri breytingu á utanríkisstefnu Spánar næðu sósíalistar kjöri. Í kosningum árið 2004 fóru sósíalistar fram með slagorðinu „Við eigum skilið betra samfélag“ (sp. „Merecemos una España mejor“), sem þótti lýsa afstöðu þeirra Spánverja sem fannst átta ára stjórn Þjóðarflokksins hafa aukið misskiptingu í landinu.[1] Sósíalistar unnu óvæntan sigur í kosningunum, meðal annars vegna þess að fáeinum dögum fyrir kosningar var framin mannskæð hryðjuverkaárás í Madríd. Ríkisstjórn Þjóðarflokksins var fljót að kenna basknesku sjálfstæðishreyfingunni ETA um árásina, en ljóst þótti að hinir raunverulegu sökudólgar væru úr al-Kaída og að Spánn hefði orðið skotmark samtakanna vegna stuðnings Aznars við Íraksstríðið.[2]

Sem forsætisráðherra reyndi Zapatero að boða sættir við aðskilnaðarhreyfingar í Baskalandi en þetta leiddi til þess að andstæðingar hans sökuðu hann um linkind gagnvart hryðjuverkamönnum. Zapatero hóf friðarviðræður við ETA en neyddist til að hverfa frá þeirri stefnu eftir að ETA gerði sprengjuárás á flugvöll í Madríd í lok ársins 2006. Árásin var pólitískt áfall fyrir Zapatero þar sem hann hafði stuttu áður lýst yfir bjartsýni um að friði yrði brátt náð í Baskalandi.[3]

Á stjórnartíð Zapateros varð Spánn árið 2005 þriðja ríki heims til að lögleiða hjónabönd samkynhneigðra þrátt fyrir umtalsverða andstöðu kaþólsku kirkjunnar þar í landi.[4]

Undir forystu Zapateros vann Sósíalistaflokkurinn endurkjör í kosningum árið 2008.[5] Á seinna kjörtímabili Zapateros varð Spánn illa fyrir barðinu á heimskreppunni sem skall á árið 2008 og Zapatero neyddist til að boða niðurskurð í ríkisútgjöldum og breyta stefnu sinni til þess að takast á við efnahagsvandann. Stefnubreyting Zapateros leiddi til þess að vinsældir hans báðu hnekki og að fylgi við ríkisstjórn hans hrundi. Zapatero ákvað að kalla til snemmbúinna kosninga þann 20. nóvember 2011 og að bjóða sjálfan sig ekki fram til endurkjörs.[6][7] Í kosningunum hlaut Sósíalistaflokkurinn sína verstu útreið frá lokum einræðisins og Þjóðarflokkurinn undir forystu Mariano Rajoy vann hreinan þingmeirihluta.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 Ásgeir Sverrisson (13. mars 2004). „„Ný leið" til sigurs?“. Morgunblaðið. Sótt 12. nóvember 2019.
  2. „Öfgalaus og yfirvegaður“. Fréttablaðið. 17. mars 2004. Sótt 12. nóvember 2019.
  3. Ásgeir Sverrisson (2. janúar 2005). „Friðarvonir verða að engu á Spáni“. Morgunblaðið. Sótt 12. nóvember 2019.
  4. „Páfi gagnrýnir sósíalista á Spáni“. Morgunblaðið. 27. janúar 2005. Sótt 12. nóvember 2019.
  5. Jóhanna María Vilhelmsdóttir (11. mars 2008). „Sósíalistar aftur í lykilhlutverki á Spáni“. Morgunblaðið. Sótt 12. nóvember 2019.
  6. Garea, Fernando (29. júlí 2011). „Zapatero convoca el 20-N para que "otro Gobierno dé certidumbre". El País (spænska). Madrid. Sótt 12. nóvember 2019.
  7. „Siete años de Gobierno de Zapatero“. Cadena SER (spænska). 29. júlí 2011. Sótt 12. nóvember 2019.


Fyrirrennari:
José María Aznar
Forsætisráðherra Spánar
(17. apríl 200421. desember 2011)
Eftirmaður:
Mariano Rajoy