Sahrawi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sahrawi eða Sahrawi-þjóðin er þjóðflokkur sem býr í vesturhluta Sahara-eyðimerkurinnar, einkum í Vestur-Sahara sem að mestu er hernumið af Marokkóstjórn, en einnig innan viðurkenndra landamæra Marokkó, í Máritaníu og í flóttamannabúðum í Alsír.

Menning Sahrawi-fólksins er líkt og algengt er í Sahara-eyðimörkinni afar blönduð af berbneskum og túaregískum áhrifum, sem birtist meðal annars í sterkri stöðu kvenna. Sahrawi skiptast í fjölda ættbálka sem flestir tala hassarísku, arabíska mállýsku, en aðrir notast við berbísk tungumál.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Orðið Sahrawi kemur úr arabísku (صحرواوي) og merkir bókstaflega maður úr eyðimörkinni. Flest vestur-evrópsk tungumál notast við orð þetta, þó stundum með örlítið frábrugðinni stafsetningu. Ekki er kunnugt um að til sé íslensk útgáfa af nafninu.

Fólksfjöldi[breyta | breyta frumkóða]

Áætlað er að rúmlega þrjár milljónir manna hafi hassarísku að móðurmáli, þar af 2,3 milljónir í Máritaníu. Ómögulegt er að segja með fullri vissu hversu margir þeirra líta á sig sem Sahrawi-menn í pólitískum skilningi þess hugtaks. Vegna deilunnar um sjálfstæði Vestur-Sahara er hart deilt um þessa tölfræði, en flestar áætlanir rokka á bilinu 200 þúsund til 400 þúsund. Búa flestir í Marokkó, Vestur-Sahara og í flóttamannabúðum í Tindouf-héraðinu í vestur-Alsír.

Trúarbrögð[breyta | breyta frumkóða]

Sahrawi-fólkið aðhyllist velflest súnní-grein íslamskrar trúar og tilheyrir Maliki-skólanum innan hennar. Eitt og annað í trúarsiðum þeirra hefur þó mótast af staðbundnum aðstæðum og hefðum. Allt frá miðöldum hefur áhrifa súfisma gætt í trúariðkun almennings.