Gljúfurleit

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Gljúfurleit kallast dalverpi inn með Þjórsá frá Gljúfrá að Kóngshöfða við Dalsá. Gljúfurleit er öll vel gróin og stöllótt eftir rofmátt Þjórsár. Efsta hlíðin kallast Langahlíð og teygir hún sig allt frá Geldingaá að Kóngsási á meðan aðrir stallar fljóta sums staðar saman.

Um Gljúfurleit falla þrjár ár; Gljúfurá, Geldingaá og Hölkná. Eru þær allar frekar vatnslitlar en víða eru þær óreiðar vegna þess hve þær hafa grafið sig. Í Geldingaá er hár foss þar sem hún fellur í Þjórsá en einnig í Hölkná. Hölknárfoss eða Slæðufoss er á móti Ófærutanga þar sem fjallmenn Gnúpverja þurfa að príla fram af þremur stöllum til að hefja leitir sínar neðst við Þjórsá.

Í Þjórsá eru tveir fossar innan þess svæðis sem nefnist Gljúfurleit og eru það Dynkur (kallast Búðarhálsfoss að austan) og Gljúfurleitarfoss sem er 28 metra hár.

Í Gljúfurleit eru þrír fjallkofar; Gljúfurleitarkofinn, gamli kofinn í Gljúfurleit sem er einum stalli neðar og Trantur, sem er gamall kofi á ysta tranti við Þjórsá. Bara nýi Gljúfurleitarkofinn er notaður í dag.