Fara í innihald

Fundur Íslands

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ísland er eyja á miðju Atlantshafi, um 300 km frá Grænlandi, 800 km frá Skotlandi og 1000 km frá Noregi. Eftir að jökull síðustu ísaldar hvarf námu plöntur og dýr land á Íslandi en elstu óumdeildu ummerki um mannvist á landinu eru frá seinni hluta 9. aldar e.Kr. Margar ólíkar skoðanir eru uppi um hvenær landið hafi verið fundið og hverjir hafi verið þar á ferð. Ein hugmynd er að Ísland hafi verið óþekkt með öllu fyrir víkingaöld og að fundur þess þá hafi strax leitt til landnáms. Önnur er að sæfarendur og strandþjóðir við Atlantshaf hafi lengi vitað um tilvist landsins þegar það loksins tók að byggjast.

Heimildir frá miðöldum nefna til sögunnar papa og ýmsa nafngreinda víkinga, en einnig hafa fundist rómverskir peningar sem gætu bent til að Rómverjar hafi komið til Íslands um 300 e.Kr. og sigling gríska landkönnuðarins Pýþeasar frá Massilíu um Norður Atlantshaf á 4. öld f. Kr hefur einnig verið tengd Íslandi. Mest hefur þó verið deilt um hvenær landnám norrænna manna hófst á Íslandi og verður stuttlega fjallað um þá deilu hér að því marki sem hún hefur áhrif á hugmyndir um hvenær landið fannst.

Norsemen Landing in Iceland

Norrænar miðaldaheimildir

[breyta | breyta frumkóða]

Í Íslendingabók sem Ari fróði ritaði á fyrri hluta 12. aldar, segir frá því að á Íslandi hafi verið papar áður en norrænir menn námu land:

"Þá váru hér menn kristnir, þeir es Norðmenn kalla papa, en þeir fóru síðan á braut, af því at þeir vildu eigi vesa hér við heiðna menn, ok létu eptir bækr írskar ok bjöllur ok bagla; af því mátti skilja, at þeir váru menn írskir."[1]

Í Landnámabók, en elstu varðveittu gerðir hennar eru frá seinni hluta 13. aldar, eru sömu upplýsingar en bætt við: "Enn er ok þess getit á bókum enskum, at í þann tíma var farit milli landanna."[2] Ekki er vitað hvaða ensku bækur þetta gætu hafa verið en flestir telja að þar sé átt við frásagnir um Thule sem stafa frá landkönnun Pýþeasar í fornöld (sjá að neðan).

Ari fróði nefnir Ingólf Arnarson sem fyrsta landnámsmanninn, en í yngri heimildum er bætt við sögnum um ýmsa aðra sem áttu að hafa komið á undan. Elst þeirra er Historia Norvegiæ frá því laust eftir miðja 12. öld. Í henni er sagt að Garðar hafi fundið landið en á eftir honum hafi komið "Anbi" en síðan hafi Ingólfur og Hjörleifur fluttst þangað með fjölskyldur sínar.[3] Ívið yngra rit Þóris munks, Historia de Antiquitate Regum Norwagiensium talið skrifað um 1180, nefnir að landið sem Garðar fann hafi verið kallað Garðarshólmur og segir að sá sem kom á eftir Garðari hafi heitið Flóki.

Hvorugt þessara norsku rita frá seinni hluta 12. aldar nefnir papa á Íslandi (Historia Norvegiæ hefur talsvert um þá að sega í sambandi við Orkneyjar) og bæði gera ráð fyrir að Íslandi hafi fundist á veldisárum Haraldar hárfagra. Þórir munkur segir að það hafi verið á níunda eða tíunda ríkisári hans (um 870 að venjulegu tali) að menn hafi ætlað að sigla til Færeyja en hrakist af leið í stormi, komið að áður óþekktu landi, kannað það og lofað það mjög þegar þeir komu til baka og þá hafi Ingólfur og Hjörleifur siglt af stað með fjölskyldur sínar.

Samskonar sagnir liggja til grundvallar ítarlegri lýsingum Landnámabókar en hún bætir líka við tveimur persónum, þeim Naddoði og Náttfara.

Sagnir um fyrstu landkönnuðina

[breyta | breyta frumkóða]

Í Sturlubók Landnámu er Naddoður nefndur fyrstur þeirra sem komu til Íslands en Hauksbók hefur hann á eftir Garðari. Báðar gerðirnar segja að skip hans hafi hrakist af leið til Færeyja, þeir hafi gengið á land á Austfjörðum, klifið þar á fjöll til að athuga hvort reykir sæjust sem benti til að landið væri byggt og farið aftur til Færeyja um haustið. Er þeir sigldu til baka féll snær á fjöll og kölluðu þeir landið af því Snæland. Í Skarðsárbók sem er eitt af handritum Landnámu er sagt að Naddoður hafi komið til Íslands árið 770 e.Kr.[4]

Sturlubók lætur Garðar Svavarsson leita lands þess sem Naddoður hafði fundið, en Hauksbók sem hefur hann fyrstan telur hann hafa rekið til Íslands undan stormi. Báðar gerðirnar segja hann sænskan og að hann hafi komið að landi austan við Horn, að hann hafi siglt í kringum landið og haft vetursetu á Húsavík við Skjálfanda. Báðar nefna líka Náttfara, sem var á bát sem sleit frá skipi Garðars og settist hann að í Náttfaravík með þræli og ambátt.[5] Garðar á að hafa nefnt landið Garðarshólm.

Báðar gerðir Landnámabókar segja í mun lengra máli frá tilraun Hrafna-Flóka til að nema land á Íslandi. Ólíkt Garðari og Naddoði var ætlun Flóka að setjast að á Íslandi og á leið sinni til Íslands frá Noregi kom hann við bæði á Hjaltlandi og í Færeyjum en eftir að hann var kominn út á opið haf beitti hann þeirri tækni að sleppa hröfnum til að vita hvort hann væri kominn nálægt landi. Sá fyrsti flaug "aptr um stafn; annarr fló í lopt upp ok aptr til skips; enn þriði fló fram um stafn í þá átt, sem þeir fundu landit."[6] Flóki bjó um veturinn hjá Brjánslæk á Barðaströnd: "Fjörðrinn allr var fullr af veiðiskap, ok gáðu þeir eigi fyrir veiðum at fá heyjanna, ok dó allt kvikfé þeirra um vetrinn. Var vár heldr kalt."[7] Flóka er eignað að kalla landið Ísland[8] og lét hann illa yfir kostum þess.

Næstir í röð landkönnuða samkvæmt Landnámabók voru fóstbræðurnir Ingólfur og Hjörleifur. Þeir fóru fyrst í könnunarleiðangur til að leita lands þess er Hrafna-Flóki hafði fundið og voru einn vetur í Álftafirði eystra. Að því loknu skipulögðu þeir leiðangur þann sem leiddi til varanlegrar byggðar Ingólfs í Reykjavík.

Greinileg stígandi er í þessum frásögnum; þær verða lengri og ítarlegri eftir því sem fram líður, ásetningur landkönnuðana verður meiri og skýrari, og undirbúningur þeirra betri og árangursríkari. Sá fyrsti kemur fyrir mistök, annar af forvitni, sá þriðji gerir tilraun til búsetu sem mistekst og það er ekki fyrr en með þeim fjórða sem varanleg byggð kemst á. Sagan um Náttfara er á skjön við þessa þróun og má vera að sú mynd sem Landnámabók dregur upp sé tilraun til að samræma nokkrar ólíkar sagnir.

Thule og evrópskar miðaldaheimildir

[breyta | breyta frumkóða]

Evrópskar miðaldaheimildir sem geta um Ísland, t.d. Saga Hamborgarbiskupa eftir Adam frá Brimum (frá um 1070) og Danakonungasaga Saxa málspaka (frá um 1200) fjalla ekki sérstkalega um fund landsins en setja það ákveðið í samband við Thule, land í Norðurhöfum sem þekkt hafði verið í fræðiritum frá því í fornöld.

Nafnið Thule virðist komið frá Pýþeasi frá Massiliu, grískum landkönnuði sem sigldi til Bretlands á seinni hluta 4. aldar f.Kr. Frásögn Pýþeasar sjálfs er glötuð en víða er vísað til hennar í ritum fornaldar og fyrri hluta miðalda. Hvað Thule varðar er þær endursagnir ekki allar á einn veg en rauði þráðurinn er að landið sé sex daga siglingu norður af Bretlandi og er hnattstaða þess tengd við hafís og langar sumarnætur.

Aldursgreiningar í fornleifafræði

[breyta | breyta frumkóða]

Sagnfræðin gefur okkur góða hugmynd um hvernig landnámið getur hafa verið, en það gengur hinsvegar ekki út á áþreifanlegar leifar líkt og fornleifafræðin felur í sér. Fornleifafræðin fæst við minjar líkt og forngripi, kuml, en einnig mannvirkja- og mannvistarleifar. Stefnt er að leita sem mestu upplýsinga um þessar minjar og reynt er að aldursgreina þær, leita uppruna þeirra og einnig er reynt að túlka þær svo hægt sé að setja þær í þjóðfélagslegt samhengi. Það kemur líklega engum á óvart að flestir eldri forngripir sem fundist hafa á Íslandi eru af erlendum uppruna. Þar af leiðandi er hægt að beita samanburði til þess að finna út aldur þeirra og hvernig þeir hafa verið notaðir. Þægilegast þykir að aldursgreina forngripi líkt og skartgripi, peninga og vopn. Fornleifaheimildir geta gefið okkur góða mynd af elstu byggð í landinu og þar af leiðandi hvenær líklegt sé að landið hafi verið numið.[9] Talið er að landið hafi orðið albyggt árið 930 e.Kr. og þar af leiðandi er það ártal notað um lok Landnámsaldar. Fornleifar staðfesta þetta að mestu leiti.

Yfirleitt er talað um þrjár undirstöðugreinar fornleifafræðinnar sem að notaðar eru til aldurgreiningar og er það formgerðarfræði, geislakolsaldurgreining og gjóskulagafræði. Formgerðarfræðin nýtist vel er það þarf að tímasetja til dæmis skartgripi og vopn þar sem að það má yfirleitt tímasetja þá gripi af stíleinkennum. Elstu skartgripir sem að hafa fundist hér á landi eru frá fyrri hluta 9.aldar og hafa þeir einkum fundist í gröfum kvenna. Peningar þykja oft vera sú tegund forngripa sem að þægilegast er að aldursgreina þar sem að þeir voru mótaðir á ríkisárum tiltekins höfðingja eða konungs. Geislakolsaldursgreining er önnur helsta aldursákvörðunaraðferðin og er hún einnig þekkt sem C-14 greining. Geislakol finnast í öllum lífverum þar sem þau myndast stöðugt í andrúmsloftinu. Þegar lífvera deyr þá minnkar styrkur geislakola í henni sem gerir það að verkum að þessi aðferð hentar vel í aldursgreiningu. Síðast en ekki síst er gjóskulagafræði sem virkar í raun sem ákveðið tímatal sem að byggist á notkun eldfjallagjósku.[10]

Elstu byggðir

[breyta | breyta frumkóða]

Við rannsóknir á elstu byggðum hér á landi er helst notast við gjóskulög sem að þekkt eru sem Landnámslagið svokallaða og Eldgjárgjóska. Landnámslagið er í kringum 871 e.Kr. á meðan Eldgjárgjóska hefur verið tímasett til kringum 934 e.Kr.[11] Meðal þeirra elstu og vel varðveittustu bæjarhúsaleifa sem að rannsakaðar hafa verið má nefna bæjarstæðið í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum og einnig fundust þrír skálar í Hvítárholti í Hrunamannahreppi í Árnessýslu. Að lokum fannst skáli og fjós í Papey sem að talin eru vera frá 10.öld. Það má einnig nefna að á Bessastöðum og í Reykjavík hafa fundist þó nokkrir skálar sem að eru taldir vera frá 9. eða 10 öld. Af þeim minjum sem að fundist hafa má draga þá ályktun að landnámsmenn hafi í fyrstu byggt sér jarðhýsi til búsetu en ekki leið á löngu þar til þeir fóru að búa í skálum. Niðurstaða rannsókna á fyrstu búsetu í landinu færa okkur ýmsar upplýsingar svo sem að landið hafi byggst með hraði, að byggt hefði verið á eyjum undan ströndum, láglendinu og í inndölum.[12]

Landnám samkvæmt forngripum

[breyta | breyta frumkóða]

Forngripir geta staðfest ýmsar tilgátur og kenningar líkt og um landnám. Landnám er talið hefjast um 870 og ljúka um 930. Þegar maður ber þessa kenningu saman við þá forngripi sem hafa fundist, þá virðast þær styðja hana að mestu leiti. Flestir gripir sem að hafa fundist í kumlum eru frá miðri 9.öld fram á miðja 10.öld. Þar af leiðandi eru til dæmis skartgripir og vopn sem að hafa fundist hér á landi mestmegnis frá 10.öld. Þeir skartgripir sem að hér hafa fundist hafa yfirleitt fundist í gröfum kvenna. Á sama hátt hafa flest vopn fundist í gröfum karla. Algengustu vopnin virðast hafa verið spjót og tugi spjóta hafa fundist en einnig hafa til dæmis fundist sverð, axir og skildir.[13] Þar að auki gefa kuml okkur góða vísbendingu um hvenær fólk fór að setjast að hér á landi. Allt gefur til kynna að landnámsmenn hafi líklega grafið sína látnu samkvæmt þeim siðum og venjum sem tíðkuðust á þeirra heimaslóðum. Þess má geta að það er mikill skyldleiki með þeim kumlum sem að hafa fundist á Íslandi og þeim sem að hafa fundist á Noregi, Mið-Svíþjóð, byggðum norrænna manna á Orkneyjum og Hjaltlandseyjum. Flest kumlanna eru talin vera frá 10.öld en minnihluti þeirra er talinn vera frá 9.öld. Þar af leiðandi er hægt að draga þá ályktun að landnámið hafi hafist á síðari hluta 9. aldar og hafi lokið um 930, þar sem að flestar fornminjar eru frá þeim tíma.[14]

Ágreiningur um tímasetningar

[breyta | breyta frumkóða]

Hér á landi hafa fundist þó nokkrir rómverkir peningar sem að eru frá tímabilinum 270-305 e.Kr. Þeir eru frá tímum keisaranna Aurelianus sem að kom til valda árið 270 og Diocletianus sem að fór frá völdum árið 305. Peningarnir eru koparpeningar með silfurblæ sem að eru betur þekktir sem antoninianar. Sumir telja að peningarnir hafi borist með norrænum mönnum en það hafa hinsvegar ekki fundist margir peningar af þessari tegund þar og það gerir þá kenningu frekar ólíklega. Enn fremur hafa menn haldið því fram að Papar hafi haft þá með sér þar sem að rómverskir peningar hafa fundist á þeim slóðum þar sem að þeir hafa einkum verið. Hinsvegar, komu Papar frá landi þar sem að antoninianar voru afar sjaldgæfir.[15] Kristján Eldjárn taldi að líklegast væri að rómverskir borgarar hafi flutt þessa peninga til Íslands. Þetta á að hafa verið er þeir voru gjaldgengir í rómverka ríkinu og telur hann að það gæti hafa verið í lok 3.aldar. Þá hafi skip frá rómverskri hjálendu rekist til Íslands, nánar tiltekið Suðausturlands. Samkvæmt því hefur skipið líklegast lent í hrakningum og farið hafvilla. Þar af leiðandi hafa þeir ekki fundið landið af ásettu ráði og því í raun fundið það óvart. Jafnvel þó að Kristján haldi þessu fram þá er hann hinsvegar sammála því að það voru norrænir menn sem að byggðu landið fyrstir.[16] Þór Magnússon ásamt þýska fræðimanninum Reinhold Jordan telja mun líklegra að peningarnir hafi borist með norrænum landnemum á 9-10. öldinni.[17] Þessir peningar sem að fundist hafa, kveiktu á umræðu um að mögulega hafi Ísland fundist frá Englandi og því mikið fyrr en fornir sagnaritarar hafa vitað. Það hafi hinsvegar ekki verið byggt. Þar að auki hélt Margrét Hermanns-Auðardóttir því fram í Doktorsritgerð sinni að landnámið hafi hafist mun fyrr en haldið væri fram. Hún vill meina að landnámið hafi hafist á 7. öld og að það hafi verið norrænir menn, sem fóru frá Noregi. Það sem hún notar til stuðnings eru til dæmis fornleifarannsóknir í miðbæ Reykjavíkur, Herjólfsdal í Vestmannaeyjum og Hrafnseyri við Arnarfjörð. Margir fornleifafræðingar eru þessu ósammála þar sem að þessi kenning byggist ekki á fornminjum heldur byggist hún á geislakolaldursgreiningu.[18]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Íslenzk fornrit I, bls. 5
  2. Íslenzk fornrit 1, bls. 32.
  3. Ekrem et al eds. 2003
  4. „Hófst landnám á Íslandi 200 árum fyrr en talið hefur verið?“. Vísindavefurinn.skoðað 12. mars 2014.
  5. „Hvers vegna hefur Náttfara ekki verið hampað sem fyrsta landnámsmanninum?“. Vísindavefurinn. skoðað 12. mars 2014
  6. Íslenzk fornrit I, 36, 39
  7. Íslenzk fornrit 1, 38, 39
  8. „Hver gaf Íslandi það nafn?“. Vísindavefurinn. skoðað 12. mars 2014
  9. Guðrún (2004): 39.
  10. Guðrún (2004): 40.
  11. Guðrún (2004): 40-41.
  12. Guðrún (2004): 45-46.
  13. Guðmundur (1996): 27.
  14. Guðmundur (1996): 28-29.
  15. Kristján (2000): 29-31.
  16. Kristján (2000): 33.
  17. Kristján (2000): 35-36.
  18. Guðmundur (1996): 30-31.
  • Ekrem, Inger (editor), Lars Boje Mortensen (editor) and Peter Fisher (translator) (2003). Historia Norwegie. Museum Tusculanum Press.
  • Guðmundur Ólafsson. „Vitnisburður fornleifafræðinnar um landnám Íslands“. Um Landnám á Íslandi- Fjórtán Erindi (Reykjavík: Vísindafélag Íslendinga, 1996): 25-32.
  • Guðrún Sveinbjarnardóttir. „Landnám og Elsta Byggð- Byggðarmunstur og Búsetuþróun“. Hlutavelta tíman- menningararfur á þjóðminjasafni (Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands, 2004): 39-47.
  • Kristján Eldjárn, Kuml og haugfé- úr heiðnum sið á Íslandi (Reykjavík: Mál og menning, 2000)