Fara í innihald

Náttfaravíkur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Náttfaravíkur

Náttfaravíkur

Náttfaravíkur

Náttfaravíkur er lítil eyðibyggð við vestanverðan Skjálfandaflóa í Suður-Þingeyjarsýslu. Víkurnar voru í byggð frá landnámsöld og fram á 20. öld. Í þeim voru þrjú býli, Vargsnes nyrst, Naustavík sunnar og Kotamýrar syðst. Á Kotadal, ofan í landi Kotamýra eru ennfremur óljósar tóftir sem nefnast Helgastaðir.

Frá Náttfaravíkum er hægt að komast á tvenna vegu landleiðina, vestur á Flateyjardalsheiði yfir Almannaskarð og suður í Köldukinn annað hvort upp Kotadal og yfir Kotaskarð. Áður fyrr var hægt að vara fjörurnar suður í Bjargarkrók. Sú leið er með öllu ófær í dag þar sem mikið hefur gengið á fjörurnar og gengur sjórinn í dag alveg upp að bjarginu á löngum kafla.

Uppruni nafnsins[breyta | breyta frumkóða]

Garðar Svavarson, hinn sænski landkönnuður var, ef marka má Landnámu, fyrsti norræni landnámsmaðurinn á Íslandi. Hann átti þó litla dvöl hér á landi og sneri brátt aftur til Noregs. Í upphafi Landnámu segir orðrétt:

Um vorið, er hann [þ.e. Garðar Svavarsson] var búinn til hafs, sleit frá honum mann á báti, er hét Náttfari, og þræl og ambátt. Hann byggði þar síðan, er heitir Náttfaravík.

Seinna, um miðbik Landnámu, stendur:

Náttfari, er með Garðari hafði út farið, eignaði sér áður Reykjadal og hafði merkt á viðum, en Eyvindur [landnámsmaður frá Hörðalandi] rak hann á braut og lét hann hafa Náttfaravík.

Náttfari hefur sem sagt numið land í Náttfaravíkum en síðan einnig í Reykjadal, en verið rekin þaðan aftur ofan í Náttfaravíkur sem við hann eru kenndar, eða fyrst verið í Reykjadal og síðar fengið Náttfaravíkur. Nafn víkanna kann að vera seinni tíma skýring á örnefninu, en skammt fyrir sunnan Naustavík er klettur sem er mjög ljós að lit, og kann hann að hafa heitið Náttfari til forna, og víkurnar verið kenndar við hann.

Tengill[breyta | breyta frumkóða]

Náttfaravíkur - Mbl - Valgarður Egilsson. 2000