Hvítárholt

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hvítárholt er bær sem stendur við bakka Hvítár í Hrunamannahreppi í Árnessýslu.

Fornleifafundir[breyta | breyta frumkóða]

Sumarið 1963 fundust fornar mannvistaleyfar í Hvítárholti. Við nánari athugun áttuðu rannsakendur sig á að um sögualdarbyggð væri að ræða og ákveðið var að gera fullnaðarannsókn á svæðinu í kring um bæinn. Umfangsmikill fornleifauppgröftur var framkvæmdur sem stóð yfir með hléum sumrin 1963 til 1967.[1]

Fornleifarannsóknin[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnandi rannsóknarinnar var Þór Magnússon, en einnig störfuðu við rannsóknina Guðmundur Jónsson, Gísli Gestsson, Kristján Eldjárn og Halldór J. Jónsson.[1]

Svæðið sem minjarnar spönnuðu var töluvert víðfermt, hryggur, um 600 til 800 metra langur.

Fornleifarannsóknin í Hvítárholti var viðamesta húsarannsóknarverkefni sem Þjóðminjasafnið hafði framkvæmt til þessa. Áður en yfir lauk komu í ljós einhverjar merkilegustu og óvenjulegustu sögualdarminjar og mannvistaleyfar sem rannsakaðar hafa verið hérlendis og aukið hafa á þá mynd sem til var af húsagerð á Íslandi. Alls fundust tíu hús af ýmsum gerðum sem virðast öll vera frá sama tíma eða frá um 10. öld. Voru þetta þrír stórir skálar, leyfar einnar hlöðu og eins fjóss. Auk þess fundust leyfar fimm jarðhúsa, algerlega óþekktrar húsagerðar á Íslandi.[1][2]

Það sem gerir fornleifauppgröftinn í Hvítárholti einnig merkilegan er að þar var í fyrsta sinn ráðist í rannsókn á minjum sem hvergi er getið um í fornritum.

Skálarnir[breyta | breyta frumkóða]

Skálarnir þrír sem fundust í Hvítárholti voru allir um 20 metrar að lengd, vandlega byggð aflöng hús með bogadregnum veggjum. Skálarnir féllu nánast algerlega inn í þá mynd sem við höfðum af húsagerð á 10. öld hérlendis. Þeir samsvöruðu einnig náið húsagerðum frá sama tíma sem fundist hafa í Færeyjum, Orkneyjum og Danmörku. Eitt gerði skálana þó óvenulega, því þar fannst veggjagerð sem aðallega er þekkt í nágrannalöndum okkar en hafði ekki áður þekkst á Íslandi.[1]

Jarðhúsin[breyta | breyta frumkóða]

Merkilegasta uppgötvunin voru þó áðurnefnd jarðhús. Þar fundust ummerki algerlega óþekktrar húsagerðar á Íslandi, hinna svokölluðu jarðhúsa, fimm að tölu og voru íslenskir fornleifafræðingar undrandi á þessari óvæntu viðbót. Jarðhúsin í Hvítárholti eru einfaldlega holur, um þrír til fjórir metrar í þvermál, sem grafnar hafa verið niður um einn metra. Í nokkrum holanna fundust eldstæði og eldsprungnir steinar. Í Íslendingasögum er víða getið um jarðhús, meðal annars í Eyrbyggju. Þar segir frá niðurgröfnu baðhúsi sem svipar til lýsinga á jarðhúsunum í Hvítárholti. Möguleg útskýring á tilvist og tilgangi jarðhúsanna gæti þar verið komin. Jarðhúsin eru stórmerkileg uppgötvun í á sviði íslenskra fornleifarannsókna.[1]

Rómverskur peningur[breyta | breyta frumkóða]

Við uppgröftinn í Hvítárholti fannst einnig nærri 1700 ára rómverskur koparpeningur. Spurningin sem vaknaði upp við fund peningsins var: Hvað vildu samtímamenn í Hvítárholti með einskisnýta rómverska mynt? Kristján Eldjárn varpaði fram þeirri tilgátu að rómverskir sjómenn hefðu mögulega lent í hafvillu hér við land löngu fyrir landnám, víkingar hefðu síðar fundið þessa peninga og borið til bústaða sinna. Enn hefur ekki tekist að útskýria tilvist peningsins.[3]

Bæjarstæðið[breyta | breyta frumkóða]

Staðsetning Hvítárholts er nokkuð óvenjuleg fyrir þær sakir að bæinn hefur borið hátt og hefur verið áveðra og einnig var gott vatnsból ekki nærri. Hvítá leggur um á vetrum og flæðir einnig yfir bakka sína í asahlákum. Ekki þykir ólíklegt að þessi atriði hafi átt hlut í að bærinn lagðist í eyði eða var færður um set.[1]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 Þór Magnússon (1972). „Sögualdarbyggð í Hvítárholti“. Árbók hins íslenzka fornleifafélags (69. árgangur): 5–80.
  2. Leskaflar í fornleifafræði.
  3. Morgunblaðið. (1966). "Nærri 1700 ára rómverskur koparpeningur finnst við Hvítárholt". Bls. 3.