Friðrik Dór

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Friðrik Dór
Friðrik Dór á Iceland Airwaves árið 2011.
Fæddur
Friðrik Dór Jónsson

7. október 1988 (1988-10-07) (35 ára)
Störf
  • Söngvari
  • lagahöfundur
ÆttingjarJón Jónsson (bróðir)
Tónlistarferill
Ár virkur2009–í dag
Stefnur
Hljóðfæri
  • Rödd
  • trommur
  • gítar
Útgefandi
Samvinna
Meðlimur íIceGuys

Friðrik Dór Jónsson (f. 7. október 1988) er íslenskur söngvari og lagahöfundur frá Hafnarfirði. Hann er þekktur fyrir lög eins og „Hlið við hlið“, „Í síðasta skipti“ og „Fröken Reykjavík“. Hann er bróðir Jóns Jónssonar. Hann er einn af fimm meðlimum í strákahljómsveitinni IceGuys.

Tónlistarferill[breyta | breyta frumkóða]

2003–2008: Verzló og Músíktilraunir[breyta | breyta frumkóða]

Að loknum grunnskóla fór Friðrik Dór í Verzlunarskóla Íslands þar sem hann tók þátt í söngleiknum Welcome to the Jungle. Þar söng Friðrik Dór titillagið auk þess sem hann söng fjölmörg önnur lög, aðeins á fyrsta ári sínu í skólanum. Friðrik Dór tók þátt í fleiri söngleikjum á vegum Verzlunarskólans. Þar má nefna söngleikinn Á Tjá og Tundri. Í menntaskóla var Friðrik Dór nokkuð áberandi í félagslífinu, hann tók þátt í fjölmörgum Morfískeppnum fyrir ræðulið skólans en þar var hann frummælandi. Hann tók einnig þátt í ýmsum verkefnum á vegum skólans, svo sem annál og þá var hann meðlimur í 12:00 á síðasta ári sínu í Verzlunarskólanum.

Friðrik Dór hóf tónlistarferil sinn með hafnfirsku hljómsveitinni Fendrix, sem hann stofnaði með félögum sínum þegar hann var í 8. bekk í grunnskóla. Hljómsveitin tók þátt í Músíktilraunum árið 2003 og komst í útslit, en sigraði ekki. Friðrik Dór spilaði þar á trommur, en hann hefur æft á hljóðfærið frá því hann var smástrákur. Eftir tapið í Músíktilraunum gekk Friðrik Dór úr hljómsveitinni og hóf síðan sólóferil að loknu námi í Verzlunarskólanum.

2009–2011: Allt sem þú átt[breyta | breyta frumkóða]

Hann sló fyrst í gegn haustið 2009 með laginu „Hlið við hlið“. Lagið naut mikilla vinsælda og náði öðru sæti á Íslenska listanum á útvarpsstöðinni FM 957. Lagið var einnig spilað í kvikmyndinni Bjarnfreðarson, sem var frumsýnd um jólin 2009. Keppendur í fegurðarsamkeppninni Ungfrú Reykjavík komu fram í myndbandi við lagið. Því næst gaf hann út lagið „Á sama stað“ þar sem hann fékk rapparann Erp Eyvindarson í lið með sér. Hann gaf út lagið „Fyrir hana“ vorið 2010 og í kjölfarið gaf hann út myndband við það lag.

Vorið 2010 tók Friðrik Dór þátt í fimmta þætti af grínþættinum Steindinn okkar, sem sýndur var á Stöð 2. Í lokaatriði þáttarins var frumsýnt myndband við lagið „Geðveikt fínn gaur“ þar sem grínistarnir Steindi Jr. og Ásgeir Orri Ásgeirsson komu fram ásamt Friðriki. Í lok myndbandsins ræna þeir og „myrða“ Friðrik Dór. Áður en banaskotið ríður af fara grínistarnir með fyrstu línuna úr laginu „Hlið við hlið“. Lagið naut talsverðra vinsælda á FM 957 og fluttu Steindi, Ásgeir Orri og Friðrik Dór lagið ásamt nokkrum útvarpsmönnum í Eldhúspartýi FM 957 í nóvember 2010.

Friðrik Dór var valinn nýliði ársins á Hlustendaverðlaunum FM 957 sem haldin voru í júní 2010. Í sama mánuði kom út lagið „Keyrum'ettígang“ með röppurunum Henrik Biering og Erpi Eyvindarsyni en Friðrik syngur viðlagið í laginu. Fyrir jólin 2010 gaf Sena út breiðskífuna Allt sem þú átt með Friðrik Dór en á henni eru tólf lög. Á plötunni eru meðal annars lögin „Hlið við hlið“, „Fyrir hana“, „Hún er alveg með'etta“ og lagið „Til í allt“ sem Friðrik flytur ásamt Steinda Jr. og Ásgeiri Orra. Í nóvember 2010 náði Friðrik Dór þeim áfanga að lögin „Hún er alveg með'etta“, „Til í allt“ og „Keyrum'ettígang“ voru öll á topp 20 á síðunni tónlist.is, auk þess sem Allt sem þú átt var í 3. sæti yfir mest seldu plöturnar á síðunni.

Friðrik Dór var gestur Audda og Sveppa í vinsælum sjónvarpsþætti þeirra á Stöð 2 í febrúar 2011. Í þættinum var frumflutt nýtt lag þeirra félaga, „Sjomleh“, sem þeir syngja saman. Lagið sló í gegn og náði fyrsta sæti á Íslenska listanum á FM 957. Í apríl 2011 söng Friðrik Dór í endurgerð lags Valgeirs Guðjónssonar, „Vopn og verjur“, fyrir nýja smokkaherferð á vegum Ástráðs, félags læknanema, Félagasamtakanna Smokkur - sjálfsögð skynsemi, og Íslensku auglýsingastofunnar. Unnsteinn Manúel í hljómsveitinni Retro Stefson tók að sér að endurgera lagið fyrir herferðina og var það frumflutt 18. apríl 2011. Herferðin var endurtekning á sambærilegri herferð frá árinu 1986. Hann var einnig í þætti Jóns Ársæls, Sjálfstætt fólk.

2012–í dag: Vélrænn, Segir ekki neitt, Dætur og IceGuys[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2012 gaf hann út sína aðra plötu, Vélrænn. Árið 2015 tók hann þátt í Söngvakeppni sjónvarpsins með laginu „Í síðasta skipti“ þar sem hann endaði í 2. sæti.[1] Lagið naut þó gríðarlegrar vinsælda í kjölfarið. Sama ár opnaði hann veitingastaðinn Reykjavík Chips.[2] Árið 2018 gaf hann út plötuna Segir ekki neitt. Hann einn flytjenda í lokalagi Ármótaskaups 2020, „Klárum þetta saman“. Árið 2022 gaf hann út plötuna Dætur. Árið 2023 gekk hann til liðs við strákahljómsveitina IceGuys.[3]

Útgefið efni[breyta | breyta frumkóða]

Breiðskífur[breyta | breyta frumkóða]

  • Allt sem þú átt (2010)
  • Vélrænn (2012)
  • Segir ekki neitt (2018)
  • Dætur (2022)

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Vísir/Friðrik Dór í rokkið á ný“.
  • „Samúel/Fyrsti íslenski R&B diskurinn“.
  • „Vísir/Friðrik Dór og Erpur keyra þetta í gang“.
  • „Vísir/Friðrik Dór frumsýnir nýtt myndband“.
  • „Vísir/Auddi og Sveppi - Friðrik Dór frumflytur nýtt lag“.
  • „Mbl.is/Smokkaherferð af stað“.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „María Ólafsdóttir vann Söngvakeppnina, fer í Eurovision“. Kjarninn. 14. febrúar 2015. Sótt 1. janúar 2024.
  2. „Friðrik Dór opnar frönskustað“. www.mbl.is. 22. apríl 2015. Sótt 1. janúar 2024.
  3. Logason, Boði (20. júlí 2023). „Frumsýning á Vísi: Sjóðandi heitt tónlistarmyndband frá IceGuys - Vísir“. visir.is. Sótt 1. janúar 2024.