Francisco Varallo
Francisco Antonio „Pancho“ Varallo (f. 5. febrúar 1910 - d. 30. ágúst 2010) var knattspyrnumaður frá Argentínu. Hann var í landsliði þjóðar sinnar sem lék til úrslita á HM 1930 og sá keppandi á mótinu sem lifði lengst.
Ævi og ferill
[breyta | breyta frumkóða]Francisco Varallo fæddist í La Plata og hóf ungur að leika knattspyrnu með hverfisliðinu sínu. Hann vakti snemma athygli stórliðanna í borginni og átján ára gamall var hann tekinn til reynslu hjá Estudiantes de La Plata þar sem hann raðaði inn mörkum. Þegar til átti að taka neituðu forsvarsmenn uppeldisfélagsins að hleypa honum til Estudiantes þar sem þeir voru sjálfir stuðningsmenn Gimnasia. Varallo gekk því til liðs við Gimnasia og átti stóran þátt í að félagið vann sinn fyrsta og eina argentínska meistaratitil árið 1929. Varallo var eini fulltrúi meistaranna í landsliðshópi Argentínu á HM í Úrúgvæ.
Goðsögn hjá Boca
[breyta | breyta frumkóða]Síðla árs 1930 hélt Buenos Aires-liðið Vélez Sársfield í langa keppnisferð um Suður-Ameríku, Mexíkó og Bandaríkin. Varallo var lánaður til fararinnar og lét mikið að sér kveða.
Eftir heimkomuna vorið 1931 gekk hann til liðs við stórlið Boca Juniors. Þetta var árið sem atvinnumennska var tekin upp í Argentínu og þóttu launakjör Varallo mjög góð. Honum hafði þó boðist margfalt hærri laun frá liðum á Ítalíu sem hann hafnaði að kröfu foreldra sinna.
Hjá Boca reyndist Varallo afar farsæll og setti markamet sem ekki voru slegin fyrir en mörgum áratugum seinna. Hann var oft nefndur Cañoncito af fótboltaunnendum sem vísaði til þess hversu lágvaxinn en snöggur hann væri.
Varallo varð argentínskur meistari með liðinu árin 1931, 1934 og 1935. Fyrsti titillinn vannst við sögulegar kringumstæður þar sem Boca og erkifjendurnir í River Plate mættust í úrslitum. Varallo tók vítaspyrnu síðla leiks sem var varin. Dómarinn lét hins vegar endurtaka spyrnuna þar sem Varallo tókst að skora. Í kjölfarið sauð uppúr á vellinum, þrír leikmenn River Plate voru reknir útaf og að lokum gekk liðið af velli í mótmælaskyni og Boca var úrskurðaður sigur.
Þrálát meiðsli og deilur um launakjör settu mark á síðustu ár Varallo á knattspyrnuvellinum en hann lagði loks skóna á hilluna þrítugur að aldri árið 1940.
Með landsliðinu
[breyta | breyta frumkóða]Francisco Varallo var yngstur allra leikmanna Argentínu á HM Í Úrúgvæ. Hann lék alla þrjá leiki liðsins í riðlakeppninni og skoraði eitt marka sinna manna í 6:3 sigri á Mexíkó. Í næstu viðureign, á móti Síle varð hann fyrir meiðslum sem kostuðu hann undanúrslitin. Varallo náði hins vegar bata fyrir úrslitaleikinn gegn heimamönnum. Hann lýsti síðar 4:2 tapinu í þeim leik sem stærstu vonbrigðum lífs síns.
Varallo átti ekki fast sæti í argentínska landsliðshópnum þótt leikirnir yrðu sextán á árabilinu 1930-37. Hann var til að mynda ekki í hópnum sem hélt á HM 1934. Þegar Copa America var haldin í Argentínu árið 1937 var Varallo hins vegar í liðinu sem fór með sigur af hólmi. Hann skoraði þrjú mörk í keppninni, þar af tvö í mikilvægum 2:1 sigri á Síle.
Eftir að keppnisferlinum lauk reyndi Varallo fyrir sér í þjálfun en komst fljótlega að þeirri niðurstöðu að það ætti ekki við hann. Um tíma reyndi hann fyrir sér í stjórnmálum með Perónistaflokknum áður en hann gerðist umboðsmaður fyrir happdrætti.
Varallo náði hundrað ára aldri og varð elstur allra þátttakenda á HM 1930. Vegna andláts hans var mínútu þögn á öllum knattspyrnuleikjum í Argentínu.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Francisco Varallo“ á spænsku útgáfu Wikipedia. Sótt 12. ágúst 2023.