Fara í innihald

Öxi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Exi)
Þessi grein er um handverkfæri, fyrir fjallveginn sjáið: Öxi.
Öxi
Louis Douzette

Öxi[1] (eða exi[2]) er handverkfæri sem notað er við smíðar til að kljúfa timbur og breyta lögun þess. Einnig eru axir stundum notaðar sem vopn í bardaga. Í Íslendingasögum er til dæmis stundum talað um silfurreknar og gullreknar axir og í Hringadróttinssögu bar dvergurinn Gimli exi sem vopn.

Axarhausinn er yfirleitt úr hörðum málmi (t.d. járni eða stáli) og skalli öðru megin eins og á hamri, en þunn egg á hinum endanum til að höggva með, t.d. í timbur. Til eru ýmsar gerðir af öxum, til dæmis ísöxi og klifuröxi sem notaðar eru við fjalla- og jöklaferðir og skaröxi en blaðið á henni snýr þversum miðað við skaftið. Hún er heppileg til að höggva sæti í timbur. Eins má nefna bolöxi,[3] viðaröxi, tálguöxi, bjúgöxi, saxbílu og blegðu. Á venjulegri exi snýr blaðið í sömu stefnu og skaftið, sem oftast er úr tré og misjafnlega langt eftir því hvað öxin er notuð við. Axir voru mikið notaðar við húsbyggingar á fyrri öldum og ómissandi við skógarhögg og vinnslu á rekaviði.

Axir hafa lengi verið notaðar við aftökur og í frönsku byltingunni kom fallöxin fram sem skjótvirkara aftökutæki.

Axir til forna

[breyta | breyta frumkóða]

Axirnar norrænu voru taldar einkunnarvopn Norðurlandaþjóða, og voru mjög misjafnar að stærð og lögun. Léttar axir skammskeftar, er nefndust handaxir, báru menn hversdagslega heima fyrir til öryggis sjálfum sér. Í bardögum voru þær einkum hafðar að kastvopnum. Hinar eiginlegu vígaxir voru stærri og þyngri. Algengasta tegund þeirra var hin svonefnda breiðöx. Nafnið miðar einkum til þess að greina hana frá bolöxum (þ.e. viðaröxum). Breiðöxin hafði hátt blað og mjótt, nær því meitillaga. Breiðaxarblaðið var aftur á móti fremur lágt á skafti, allþunnt, lítið eitt bogadregið fyrir munninn, úthyrnt, en að sér dregið upp undir augað og þykknaði þar mjög; skallinn (hamarinn) var flatur, sjaldnar hnúðmyndaður. Eggin var 3-12 þumlunga á lengd.

Nærri lætur, að meðallengd breiðaxa hafi verið um 5 þumlungar. Væri hyrnunar slegnar mjög fram og svírabugðurnar krappar - einkum kverkin - nefndist öxin: Snarhyrnd öx. Til breiðaxa töldust ennfremur skeggaxir; þær voru snaghyrndar aftur en ekki fram, þ.e. höfðu skegg undir kverkinni. Aftur á móti virðist bryntröllið hafa verið frábrugðið snaghyrnum einkum að því leyti, sem skalllinn var sleginn fram í alldigran brodd, hvassan og strendan, er vel var til þess fallinn að rjúfa hjálma og brynjur, eða þá í lítið axarblað, tiltölulega þykkara og sterkara en aðalblaðið. Ekki má rugla bryntröllinu við brynþvarann, er var höggspjót svipað atgeir, og er lýst sem spjóti með breiðu og löngu blaði og þverslá á falnum.

Eitt og annað

[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Beyging orðsins „öxi". á Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls
  2. „Beyging orðsins „exi". á Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls
  3. Páll Vídalín, Skýringar yfir Fornyrði Lögbókar, bls. 92-93, Reykjavík 1854.