Hringadróttinssaga
![]() Eftirlíking af hringnum eina ofan á eintaki af Föruneyti hringsins. | |
Höfundur | J. R. R. Tolkien |
---|---|
Upprunalegur titill | The Lord of the Rings |
Þýðandi | Þorsteinn Thorarensen |
Land | Bretland |
Tungumál | Enska |
Útgefandi | Allen & Unwin (í Bretlandi) |
Útgáfudagur | 29. júlí 1954 (Föruneyti hringsins) 11. nóvember 1954 (Tveggja turna tal) 20. október 1955 (Hilmir snýr heim) |
Forveri | Hobbitinn |
Hringadróttinssaga (enska: The Lord of the Rings) er skáldsaga eftir enska rithöfundinn J. R. R. Tolkien sem kom út í þremur bindum árin 1954 og 1955. Bindin heita Föruneyti hringsins (The Fellowship of the Ring), Tveggja turna tal (The Two Towers) og Hilmir snýr heim (The Return of the King). Hvert bindi skiptist í tvær bækur og sagan skiptist því í alls sex bækur. Hringadróttinssaga gerist í söguheimi sem Tolkien skapaði. Sami heimur er einnig sögusvið bókanna Hobbitinn, Silmerillinn og fleiri eftir sama höfund. Upphaflega sá Tolkien fyrir sér að sagan kæmi út sem annað bindi tveggja binda verks, þar sem Silmerillinn væri seinna bindið.[1]
Sagan fjallar í stuttu máli um hobbitann Fróða Bagga sem erfir dularfullan hring eftir frænda sinn og fóstra, Bilbó Bagga, þegar Bilbó hverfur fyrir allra augum á 111 ára afmælinu sínu. Seinna kemur í ljós að þessi hringur var sköpunarverk Saurons, sem tókst næstum því að ná undir sig öllum Miðgarði fyrir mörgum öldum. Þegar Sauron glataði hringnum missti hann allan mátt og flúði burt sem veikur skuggi og veldi hans hrundi til grunna. Nú er Sauron tekinn að eflast á ný og Fróði þarf að fara ásamt garðyrkjumanni sínum, Sóma, og fleiri hobbitum til Mordor að eyða hringnum eina. En það eru fleiri að berjast gegn Sauroni, til dæmis Aragorn sonur Araþorns, erfinginn að krúnu Gondors, álfurinn Legolas sonur Þrændils, erfingi að krúnu Myrkviðar, dvergurinn Gimli sonur Glóins, og vitkinn Gandálfur sem ber einn álfahringanna þriggja.
Tolkien leitaði víða fanga í innblæstri fyrir söguna, meðal annars í norrænni goðafræði,[2][3] kristni, öðrum fantasíum, og reynslu hans sjálfs af bardögum í fyrri heimsstyrjöld.
Sögunni var tekið með nokkrum fyrirvara þegar hún kom fyrst út, en seinna varð hún vinsæl hjá 68-kynslóðinni. Hún átti stóran þátt í að móta og auka veg fantasíunnar sem bókmenntagreinar. Nú er hún oft talin þekktasta fantasía heims. Í könnuninni The Big Read sem BBC stóð fyrir árið 2003 lenti hún í efsta sæti lista yfir ástsælustu bresku skáldsögur allra tíma.[4]
Hringadróttinssaga hefur verið kvikmynduð nokkrum sinnum. Fyrst kom út teiknimynd árið (1978) sem segir sögu fyrsta bindisins og hluta af öðru bindi, en þekktustu kvikmyndirnar eru eflaust þríleikur nýsjálenska leikstjórans Peter Jackson sem komu út á árunum 2001 til 2003. Sagan hefur nokkrum sinnum verið sett upp sem útvarpsleikrit, sem söngleikur og teiknimyndaþættir.
Íslensk þýðing
[breyta | breyta frumkóða]Feðgarnir Úlfur Ragnarsson og Karl Ágúst Úlfsson þýddu Hobbitann á íslensku árið 1978. Þorsteinn Thorarensen þýddi síðar allar bækurnar á íslensku. Titlar þessarar útgáfu Hringadróttinssögu á íslensku eru Föruneyti hringsins, Tveggja turna tal og Hilmir snýr heim.[5][6][7]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Reynolds, Pat. „The Lord of the Rings: The Tale of a Text“ (PDF). The Tolkien Society. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 3. mars 2016. Sótt 24 október 2015.
- ↑ Ármann Jakobsson (1994). „Veruleiki hins óþekkta: Hringadróttinssaga og norrænar bókmenntir“. Tímarit Máls og menningar. 55 (3): 87–93.
- ↑ Olga Holownia (2003). „Völuspá og Hringadróttinssaga“. Tímarit Máls og menningar. 64 (3–4): 54–59.
- ↑ „The BBC's Big Read“. BBC. Apríl 2003.
- ↑ Jón Özur Snorrason (26. janúar 1996). „Hringnum lokað“. Morgunblaðið. bls. 24.
- ↑ Anna María Björnsdóttir (20 maí 2024). „Vilja ekkert frekar en að þýðingarnar komi út“. ruv.is. Sótt 22 júní 2024.
- ↑ „Hringadróttinssaga (Icelandic)“. tolkientranslations.com. Sótt 22 júní 2024.