Fara í innihald

Dalai Lama

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Dalaí Lama)
Gendun Drup, fyrsti Dalai Laman

Dalai Lamatíbetsku: ཏཱ་ལའི་བླ་མ་; nánast borið fram sem: taa la’i bla ma) er embætistitill eins aðalleiðtoga lamasiðar, helstu gerðar búddisma í Tíbet. Í þeirri grein búddisma eru prestar og munkar nefndir lama (kennari) og Dalai Lama er æðstur kennimanna í Gelug-reglu tíbetskrar búddista. Dalai Lamarnir voru einnig valdamestu stjórnmálaleiðtogar Tíbet frá því á sautjándu öld fram til ársins 1951 er Kínverjar hertóku Tíbet.

Þegar Dalai Lama deyr þá hefst leit að eftirmanni hans því að samkvæmt trú tíbetskra búddista endurholdgast Dalai Lama sem lítill drengur og á þessi hefð rætur aftur til fimmtándu aldar. Drengir sem eru fæddir rétt eftir andlát Dalai Lama eru kannaðir og fyrir þá eru lögð próf. Þegar hinn endurborni Dalai Lama þykir fundinn er viðkomandi drengur sendur í klaustur og bíður hans þar löng og mikil þjálfun og menntaferill.

Hingað til hafa verið fjórtán Dalai Lamar og sá fyrsti fæddist árið 1391 e. Kr. Flestir Tíbetar líta á Dalai Lama sem endurholdgun búddans Avalokiteshvara sem í Tíbet er nefndur Chenrezig, སྤྱན་རས་གཟིགས་ , búdda kærleikans og miskunnseminnar, og sýna þeir leiðtoga sínum mikla virðingu.

Núverandi Dalai Lama er Tenzin Gyatso. Hann fæddist 4. júlí 1935 í Norðaustur-Tíbet og er hann er fjórtánda endurholdgun Dalai Lama og er þjóðhöfðingi og andlegur leiðtogi flestra Tíbeta. Árið 1989 hlaut Dalai Lama friðarverðlaun Nóbels fyrir að stuðla að friðsamlegri baráttu Tíbeta fyrir sjálfstæði frá Kína en Dalai Lama hefur ávallt neitað að beita ofbeldi í baráttunni fyrir bættum hag landa sinna og frelsun Tíbet. Hann hefur haft mikil áhrif á fjölda fólks alls staðar í heiminum með boðskap sínum og persónuleika. Sérhver Dalai Lama er sögð vera sama sálin klædd nýju holdi.[1]

Tenzin Gyatso, núverandi Dalai Lama

Listi yfir Dalai Lama

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Gedun Drupa (1391-1474)
  2. Gedun Gyatso (1475-1542)
  3. Sonum Gyatso (1543-1588)
  4. Yonten Gyatso (1589-1617)
  5. Lobsang Gyatso (1617-1682)
  6. Tsangyang Gyatso (1682-1706)
  7. Kelsang Gyatso (1708-1757)
  8. Jamphel Gyatso (1758-1804)
  9. Lungtok Gyatso (1805-1815)
  10. Tsultrim Gyatso (1816-1837)
  11. Knedrup Gyatso (1838-1856)
  12. Trinley Gyatso (1856-1875)
  13. Thupten Gyatso (1876-1933)
  14. Tenzin Gyatso (1935- )[2]

Dalai Lama á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Dalai Lama kom til Íslands 2009 og dvaldi þar í þrjá daga og hélt fyrirlestur í Laugardalshöll. Hann kom þann 31. maí 2009 og fór af landi 3. júní 2009. Hann tók þátt í samtrúarlegri friðarstund í Hallgrímskirkju þar sem fulltrúar allra stærstu trúfélaga landsins voru saman komnir. Hann fór einnig í heimsókn í Háskóla Íslands og tók þátt í pallborðsumræðum ásamt prófessorum af hugvísindasviði. Hann heimsótti líka Alþingi og sat á fund með utanríkismálanefnd Alþingis og ræddu um málefni Tíbets, umhverfis- og mannréttindamál. Þann 2. júní 2009 hélt hann fyrirlestur um lífsgildi, viðhorf og lífshamingju og svaraði spurningum áhorfenda í Laugardalshöll. Dalai Lama var mjög snortinn eftir heimsóknina til Íslands og þakkaði fyrir góðar móttökur.[3]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. EMB. „Hver er dalai lama? “. Vísindavefurinn 15.6.2001. http://visindavefur.is/?id=1712. (Skoðað 21.4.2010).
  2. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. janúar 2014. Sótt 21. apríl 2010.
  3. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 31. júlí 2010. Sótt 21. apríl 2010.
  • Dalai Lama: Friðarhöfðingi. Sjálfævisaga Dalai Lama. Land mitt og þjóð. Fjölvaútgáfan, Reykjavík 1990.