Fara í innihald

Baugsmálið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Baugsmálið nefnist málaferli ríkissaksóknara á hendur eigendum Baugs Group hf. og öðrum, auk umræðu um pólítísk tengsl við málið og annað. Samfara þessu hefur borið á Baugi Group í umfjöllun fjölmiðla vegna hins svonefnda fjölmiðlafrumvarps 2004 og kaup Baugs á fyrirtækjum erlendis og innlendis.

Málið kom fyrst fram í fjölmiðlum þegar Jón Gerald Sullenberger, eigandi fyrirtækisins Nordica lagði fram kæru á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni þáverandi stjórnarformanni Baugs. Jón Gerald naut við undirbúning kærunnar aðstoðar Jóns Steinars Gunnlaugssonar hæstaréttarlögmanns. Forsaga þess var sú að Jón Gerald þekkti Jónínu Benediktsdóttur og bað hana um að finna fyrir sig lögmann á Íslandi. Jónína snéri sér til Styrmis Gunnarssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, sem gefur Jóni Steinari meðmæli sín með þeim orðum að „hann er innvígður og innmúraður“. Það er almennt álitið að þar hafi Styrmir verið að vísa til vináttu Jóns Steinars við formann Sjálfstæðisflokksins og þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson.

Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra gerði af þeim sökum húsleit í Skútuvogi 7 í Reykjavík þann 28. ágúst 2002 þar sem höfuðstöðvar Baugs voru. Í framhaldi af þessu lagði lögmaður Baugs, Hreinn Loftsson, fram athugasemdir við Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem hann sagði húsleitina ólögmæta. [1] Jón Ásgeir gaf svo út fréttatilkynningu rúmlega viku seinna þar sem hann ásakaði Jón Gerald um að skáldað ákæruna og var harðorður gagnvart vinnubrögðum ríkislögreglustjóra. [2] Þá var framkvæmd önnur húsleit, nú í höfuðstöðvum SMS verslunarfélagsins í Færeyjum sem Baugur átti helmingshlut í og ákæru Baugs um ógildingu fyrri húsleitar hafnað. Niðurstaða Héraðsdóms var kærð til Hæstaréttar sem vísaði málinu frá. Undir lok árs 2003 voru eignir Baugs Group í fyrirtækjum í Bretlandi einu 39 milljarðar. [3]

Breytingar innan stjórnar Baugs

[breyta | breyta frumkóða]

Umfjöllunin olli miklum taugatitringi meðal Baugsmanna. Tryggvi Jónsson hætti sem forstjóri Baugs og hóf störf sem forstjóri Heklu bílaumboðs.[heimild vantar] Jón Ásgeir tók við af honum.

Guðfinna S. Bjarnadóttir og Þorgeir Baldursson sögðu sig úr stjórn Baugs í mars 2003 vegna þess að trúnaðarupplýsingum, fundargerðir stjórnarinnar, hafði verið lekið til Fréttablaðsins og birt þar. [4] Jón Ásgeir sendi frá sér fréttatilkynningu þar sem hann tók fyrir að vera heimildarmaður Fréttablaðsins.

Opinbert mál var höfðað á hendur 6 einstaklingum vegna ætlaðra brota. Ákæruliðirnir voru 40 vegna ætlaðra brota ákærðu á almennum hegningarlögum, lögum um hlutafélög, lögum um ársreikninga, lögum um bókhald og tollalögum, sem þeir áttu að hafa framið sem stjórnendur Baugs hf. og endurskoðendur félagsins.[5]

Sakborningar:

Á 18 ákæruliðum voru hins vegar slíkir ágallar að mati Héraðsdóms Reykjavíkur, að dómurinn vísaði málinu í heild sinni frá dómi. Ríkislögreglustjóri kærði þann úrskurð til Hæstaréttar sem að kvað upp sinn úrskurð í málinu 10. október 2005. Samkvæmt dómi Hæstaréttar var ákæruliðum 1-32 en ákæruliðum 33-40 sem tóku til meintra brota á lögum um ársreikninga, almennum hegningarlögum og tollalögum. Þessum ákæruliðum var vísað til efnismeðferðar í héraðsdómi.[5]

Í lok september 2005 stóðu gífurlegar deilur á milli Fréttablaðsins (sem er að hluta til í eigu Baugs) annars vegar og Morgunblaðsins hins vegar um meint afskipti Styrmis Gunnarssonar, ritstjóra Morgunblaðsins og Kjartans Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins af upphafi málsins og einnig vegna birtingar Fréttablaðsins á tölvupósti á milli Styrmis, Jóns Geralds Sullenbergers og Jónínu Benediktsdóttur, sem Morgunblaðið telur vera stolin gögn. Sýslumaðurinn í Reykjavík hefur kveðið upp lögbannsúrskurð að beiðni Jónínu, sem kveður á um að bannað sé að birta eða vitna til þessara gagna.

Málalyktir

[breyta | breyta frumkóða]

Tæpum sex árum eftir húsleitina sem markar upphaf málsins, lauk málaferlum með lokadómi hæstaréttar þann 5. júní 2008 og staðfesti hann dóm Héraðsdóms Reykjavíkur. Tryggvi Jónsson var dæmdur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fjárdrátt og fleiri brot. Jón Ásgeir Jóhannesson og Jón Gerald Sullenberger voru dæmdir í 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að gefa út „tilhæfulausan kreditreikning“ sem breytti bókhaldsstöðu Baugs.

  1. „Baugur krefst úrskurðar um lögmæti aðgerða lögreglu“. Sótt 21. nóvember 2006.
  2. „Jón Ásgeir segir Sullenberger hafa vísvitandi blekkt lögreglu“. Sótt 21. nóvember 2006.
  3. „Eign Baugs í breskum fyrirtækjum 39 milljarðar króna“. Sótt 30. nóvember 2006.
  4. „Segja sig úr stjórn Baugs vegna alvarlegs trúnaðarbrests: Lögmenn gera úttekt á upplýsingaleka“. Sótt 30. nóvember 2006.
  5. 5,0 5,1 „Hrd. 10. okóber 2005 (420/2005)“.