Bandamannaleikarnir 1919
Bandamannaleikarnir 1919 (enska: Inter-Allied Games) voru íþróttamót sem haldið var að frumkvæði Bandaríkjahers á íþróttavelli skammt fyrir utan París frá 22. júní til 6. júlí 1919. Mótinu svipaði í skipulagningu til Ólympíuleikanna en voru þó einungis ætlaðir hermönnum sem þjónað höfðu í herjum sigurvegaranna í fyrri heimsstyrjöldinni. Óvænt velgengni leikanna kann að hafa ráðið miklu um þá ákvörðun Alþjóðaólympíunefndarinnar að freista þess að blása nýju lífi í Ólympíuleikana.
Aðdragandi og skipulag
[breyta | breyta frumkóða]Þótt vopnahléi hafi verið lýst yfir á vesturvígstöðvunum í nóvember 1918 var langt í formlegir friðarsamningar næðust. Fjöldi hermanna hafðist því enn við í Frakklandi tilbúnir að taka upp vopn á nýju ef samningaviðræður færu út um þúfur. Liðsandinn var ekki upp á marga fiska. Hermennirnir þráðu að komast heim og mannfall vegna Spænsku veikinnar varð ekki til að bæta ástandið.
Bandarískir þróttafrömuðir sem störfuðu á vegum kristilegu samtakanna YMCA í Frakklandi stungu upp á að blásið yrði til íþróttahátíðar til að bæta stemninguna, hvetja hermennina til líkamsræktar og sýna fram á styrk Bandaríkjamanna á íþróttasviðinu. Hugmyndin féll í góðan jarðveg og var fljótlega ráðist í að bjóða keppendum hvaðanæva til Parísar sumarið 1919. Keppt var í fjölda greina, einstaklingsíþróttum sem og hópíþróttum og minnti greinalistinn mjög á Ólympíuleika áranna fyrir stríð.
Öllum 28 ríkjunum sem talist höfðu til bandamanna í stríðinu var boðin þátttaka og svöruðu 18 þeirra kallinu. Í sumum tilvikum var þátttakan þó varla nema að forminu til. Þannig áttu Gvatemala og Nýfundnaland ekki nema einn keppenda hvort land og hið skammlífa Konungdæmi Hasemíta (við Rauðahafsströnd Arabíuskaga) sendi ekki eiginlega keppendur heldur knapa sem sýndu arabíska reiðfimi sína.
Enginn aðgangseyrir var að viðburðum leikanna og sóttu Parísarbúar og allra þjóða hermenn þá í stríðum straumum. Áætlað er að heildarfjöldi áhorfenda hafi verið nærri hálf milljón manna. Keppendur voru um 1.500 talsins, Bandaríkjamenn flestir þeirra.
Íþróttirnar
[breyta | breyta frumkóða]Meðal keppenda á leikunum voru ýmsir kunnir íþróttakappar og aðrir sem síðar áttu eftir að geta sér gott orð í keppni. Þar má nefna: hnefaleikakappann Gene Tunney, sem varð heimsmeistari í þungavigt frá 1926-28; bandaríska sundmanninn Norman Ross sem hlaut fimm gullverðlaun á mótinu og átti eftir að næla sér í þrjú slík á ÓL í Antwerpen auk þess að setja fjölda heimsmeta og franska tennisleikarinn André Gobert sem unnið hafði gull á Stokkhólmsleikunum 1912. Eddie Eagan var meðal þátttakenda í hnefaleikakeppninni. Hann skráði síðar nöfn sín í Ólympíusöguna með því að vinna til verðlauna á bæði sumar- og vetrarólympíuleikum, í Antwerpen 1920 í hnefaleikum og í bobbsleðabruni í Lake Placid 1932.
Bandaríkjamaðurinn Charley Paddock varð hlutskarpastur í 100 metra hlaupinu bæði í París 1919 og í Antwerpen árið eftir. Belgar urðu hlutskarpastir í sundknattleik. Fyrirliði þeirra, Victor Boin, sem jafnframt var skylmingarkappi varð árið eftir fyrsti íþróttamaðurinn til að flytja Ólympíueiðinn við setningu ÓL.
Knattspyrnukeppnin
[breyta | breyta frumkóða]Knattspyrnukeppni Bandamannaleikanna er um margt merkileg í fótboltasögunni. Hún var til að mynda fyrsta slíka keppnin með liðum frá tveimur heimsálfum. Átta lönd sendu lið til keppni og var leikið í tveimur fjögurra liða riðlum og úrslitaleikur milli toppliðanna. Liðin voru valin úr hópi hermanna og afar mismunandi frá einu landi til annars hversu margir af bestu leikmönnum hvers lands voru þar innanborðs. Liðið frá Tékkóslóvakíu fór með sigur af hólmi og hefur verið litið á leiki þess sem fyrstu viðureignir tékkóslóvakíska landsliðsins. Fæst hinna þátttökulandanna líta á leikina á Bandamannaleikunum 1919 sem fullgilda landsleiki.
1. riðill
[breyta | breyta frumkóða]Níu leikmenn franska liðsins áttu eftir að leika fyrir hönd þjóðar sinnar á Ólympíuleikunum 1920. Hetja Frakka í riðlinum, markvörðurinn Pierre Chayriguès, sem fékk ekki á sig mark, var svo á milli stanganna á ÓL í París 1924. Fimm úr ítalska liðinu kepptu á ÓL ári síðar og nær allir leikmennirnir áttu eftir að keppa fyrir Ítalíu á einhverjum tímapunkti. Frakkar og Ítalir voru með áberandi sterkustu liðin í riðlinum og var lokaleikur þeirra hreinn úrslitaleikur um toppsætið.
Lykilleikmaður gríska liðsins var Giorgos Kalafatis, sem var kunnur alhliða íþróttagarpur fyrir stríð og stofnandi íþróttafélagsins Panathinaikos. Á Bandamannaleikunum kynntist hann körfubolta í fyrsta sinn og flutti íþróttina með sér heim til Grikklands. Lið Rúmena var skipað leikmönnum frá Búkarest og innihélt bæði Þjóðverja og Englending. Markvörður liðsins, hinn 22 ára gamli Constantin Rădulescu átti eftir að þjálfa rúmenska landsliðið á fyrstu þremur heimsmeistaramótunum í knattspyrnu.
Sæti | Lið | L | U | J | T | Sk | Fe | Mm | Stig | |
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1 | Frakkland | 3 | 3 | 0 | 0 | 17 | 0 | +17 | 6 | |
2 | Ítalía | 3 | 2 | 0 | 1 | 16 | 3 | +13 | 4 | |
3 | Grikkland | 3 | 1 | 0 | 2 | 3 | 22 | -19 | 2 | |
4 | Rúmenía | 3 | 0 | 0 | 3 | 3 | 14 | -11 | 0 |
24. júní 1919 | |||
Frakkland | 4-0 | Rúmenía | Stade Pershing, París Áhorfendur: 10.000 |
Nicolas (2), Gastiger, Rénier |
25. júní 1919 | |||
Ítalía | 9-0 | Grikkland | Stade Pershing, París |
Sardi (2), Cevenini (4), Santamaria {(2), Asti |
25. júní 1919 | |||
Ítalía | 7-1 | Rúmenía | Stade Pershing, París |
Ermanno Aebi, Cevenini (2) | Mares |
26. júní 1919 | |||
Frakkland | 11-0 | Grikkland | Stade Pershing, París |
Nicolas (4), Rénier (3), Dubly (2), Darjeu, Petit |
28. júní 1919 | |||
Grikkland | 3-2 | Rúmenía | Stade Pershing, París |
28. júní 1919 | |||
Frakkland | 2-0 | Ítalía | Stade Pershing, París |
Gamblin, Nicolas |
2. riðill
[breyta | breyta frumkóða]Bandaríkin og Kanada voru eftirbátar evrópsku liðanna, enda fótbolti ekki eins hátt skrifaður vestanhafs og austan. Kunnasti leikmaður kanadíska liðsins var Alf Spouncer, kominn hátt á fertugsaldur. Hann hafði leikið með enskum félögum sitthvoru megin við aldamótin og m.a. orðið enskur bikarmeistari með Nottingham Forest árið 1898. Hann átti síðar eftir að gerast þjálfari Barcelona 1923-24.
Sex leikmenn Belgíu voru í landsliði þjóðar sinnar sem urðu Ólympíumeistarar á heimavelli árið 1920. Kunnastur þeirra var Armand Swartenbroeks. Hinn eiginlegi úrslitaleikur riðilsins var upphafsleikur Belgíu og Tékkóslóvakíu. Síðarnefnda liðið var að mestu borið uppi af leikmönnum frá Slavia Prag. Þrettán úr hópnum sem keppti á Bandamannaleikunum voru jafnframt í liði Tékkóslóvakíu í Antwerpen ári síðar sem komst alla leið í úrslitaleikinn.
Sæti | Lið | L | U | J | T | Sk | Fe | Mm | Stig | |
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1 | Tékkóslóvakía | 3 | 3 | 0 | 0 | 15 | 5 | +10 | 6 | |
2 | Belgía | 3 | 2 | 0 | 1 | 13 | 6 | +7 | 4 | |
3 | Bandaríkin | 3 | 1 | 0 | 2 | 7 | 19 | -12 | 2 | |
4 | Kanada | 3 | 0 | 0 | 3 | 8 | 13 | -5 | 0 |
24. júní 1919 | |||
Tékkóslóvakía | 4-1 | Belgía | Stade Pershing, París Áhorfendur: 20.000 Dómari: McKenzie |
Sedláček 24, 77, Vaník 31, Janda 46 | Vlamynck 41 |
25. júní 1919 | |||
Bandaríkin | 5-4 | Kanada | Stade Pershing, París |
26. júní 1919 | |||
Tékkóslóvakía | 8-2 | Bandaríkin | Stade Pershing, París |
Janda (2), Pilát (2), Vaník (2), Sedláček, Prošek |
26. júní 1919 | |||
Belgía | 5-2 | Kanada | Stade Pershing, París |
28. júní 1919 | |||
Tékkóslóvakía | 3-2 | Kanada | Stade Pershing, París |
Janda (2), Vaník |
28. júní 1919 | |||
Belgía | 7-0 | Bandaríkin | Stade Pershing, París |
Úrslitaleikur
[breyta | breyta frumkóða]Frakkar náðu tvívegis forystunni í úrslitaleiknum gegn Tékkóslóvakíu en töpuðu samt. Antonín Janda skoraði tvö síðustu mörkin þrátt fyrir að hafa öllum að óvörum byrjað leikinn í stöðu varnarmanna og varð þar með markakóngur keppninnar ásamt Frakkanum Paul Nicolas með sjö mörk. Janda, sem var sérkennilegur í útliti: smáfríður, nauðasköllóttur og með stórt hnattlaga höfuð, varð eftirlæti áhorfenda. Slík varð frægð hans að sjö árum síðar, þegar Sparta Prag var boðið í keppnisferð til Bandaríkjanna, var það gert að skilyrði fyrir boðinu að Janda myndi spila með þrátt fyrir að hann hafi um þær mundir að mestu verið hættur knattspyrnuiðkun.
29. júní 1919 | |||
Frakkland | 2-3 | Tékkóslóvakía | Stade Pershing, París Áhorfendur: 25.000 Dómari: McKenzie |
Deydier 12, Rénier 28 | Vanik 31, Janda 84, 90 |
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Inter-Allied Games“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 24. ágúst 2023.
- Philip Barker: Chronicling the 1919 Inter-Allied Games, a century on
- Inter-Allied Games