Albert Dock

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Albert Dock með Royal Liver Building í baksýn

Albert Dock er heiti á hafnlægi og pakkhúsum í ensku borginni Liverpool. Pakkhúsin eru á heimsminjaskrá UNESCO og eru þau jafnframt stærsta samstæða friðaðra húsa í Bretlandi.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf[breyta | breyta frumkóða]

Athafnamaðurinn Jesse Hartley

Saga hafnlægisins nær aftur til ársins 1837 en þá fór athafnamaðurinn Jesse Hertley að gera áætlanir um að reisa samstæðu hafnlægis og pakkhúsa. Hugmyndin var sú að skipin leggðust að bryggju og vörur úr þeim væri hægt að setja beint í húsin, án þess að flytja þurfi þær um lengri veg. Hugmyndin þótti svo framúrstefnuleg að framkvæmdir við hana hófust ekki fyrr en 1841. Þá voru hundruðir verkamanna fengnir til að grafa fyrir skipalæginu, eftir að nokkur minni hús voru látin víkja. Húsin voru aðeins gerð úr efnum sem ekki voru eldfim, enda eldhætta ávallt mikil í pakkhúsum. Þau voru gerð úr málmsteypu, tígulsteinum, sandsteini og graníti. Þetta voru fyrstu pakkhúsin í Englandi sem þannig voru reist. Höfnin var opnuð 1845, en þá lagðist fyrsta skipið að. Pakkhúsin voru þá enn í byggingu. Þau urðu fimm talsins, allt tröllauknar byggingar sem röðuðu sér umhverfis hafnlægið. Það var Albert, eiginmaður Viktoríu drottningar, sem opnaði samstæðuna formlega 1846 og heitir hún því eftir honum (Albert Dock). Þetta var einnig í fyrsta sinn sem opinber konungsheimsókn fór fram í Liverpool. Dagur þessi var meiriháttar hátíðisdagur í borginni. Samstæðan var þó ekki fullkláruð fyrr en ári síðar. 1848 voru vökvakranar teknir í notkun á bryggjunni, þeir fyrstu í heimi. Á næstu áratugum var nokkrum húsum bætt við, svo sem hús fyrir hafnarstjórann. Á þessum tíma voru gríðarlega miklar siglingar til og frá Liverpool. Pakkhúsin voru mikið notuð, ekki síst fyrir viðkvæmar vörur, svo sem áfengi, baðmull, te, silki, tóbak, fílabein og sykur.

Hnignun[breyta | breyta frumkóða]

Þrátt fyrir mikil umsvif fyrstu tvo áratugi, fór að halla undan fæti fyrir Albert Dock. Þegar leið á öldina fóru færri skip að venja komur sínar í hafnlægið. Ástæðan var aðallega breytingar á skipum. Seglskipin breyttust yfir í gufuskip, en þau voru oft búin eigin krönum. Gufuskipin urðu líka stærri en seglskipin og því komust þau ekki eins auðveldlega inn í hið þrönga hafnlægi í Albert Dock. Viðskiptin minnkuðu því talsvert, en farþegaskip til Ameríku sigldu enn þaðan. Margir Íslendingar sem fluttu til Vesturheims á 19. öld hafa því staðið á bryggjunni og gengið um borð í skip. Albert Dock var þó áfram í notkun út öldina. 1899 var hluti af nyrðri húsunum breytt í kælihús fyrir viðkvæm matvæli. Í upphafi 20. aldar minnkuðu umsvifin enn. Þegar komið var frá á þriðja áratuginn voru skip hætt að nota hafnlægið, en pakkhúsin voru þó enn í notkun.

Styrjöld og eftirstríðsárin[breyta | breyta frumkóða]

Víðmynd af Albert Dock

Þegar heimstyrjöldin síðari hófst 1939 tók breski herinn Albert Dock yfir. Hafnlægið var notað fyrir kafbáta og minni herskip, og sum pakkhúsin fyrir hergögn. Þjóðverjar gerðu miklar loftárásir á Liverpool og við það eyðilögðust nokkur herskip og nokkur húsanna, sérstaklega í árásunum í maí 1941. Í stríðslok var 15% flatarmáls húsanna skemmdur eftir sprengjur. Þegar herinn yfirgaf Liverpool voru framtíðarhorfur Albert Dock dökkar. Eigendurnir ákváðu að láta ekki gera við pakkhúsin enda fóru nýjar hafnir að taka við. Samt sem áður var ákveðið að friða húsin 1952. En skuldir söfnuðust upp og íhuguðu eigendur að rífa samstæðuna niður og reisa nútímaleg hús á reitnum. Samningar við fyrirtækið Oldham Estates um að reisa háhýsi og verslunarhús runnu þó að lokum út í sandinn á áttunda áratugnum. 1972 var Albert Dock endanlega lokað, enda blasti gjaldþrot við. Næstu árin voru uppi ýmsar áætlanir um nýtingu svæðisins, svo sem landfylling, háskóli og annað. En ekkert af þessu varð að veruleika.

Ný uppbygging[breyta | breyta frumkóða]

Albert Dock endurskapað

1981 tók nýtt félag við Albert Dock, MDC (Merseyside Development Corporation). Fljótlega hófst það handa við að laga skipalægið, skipta um sjávarlokur og endurnýja göngubrýr. Húsin sjálf voru í góðu ásigkomulagi en laga þurfti það sem skemmdist í stríðinu. 1984 fóru tveir stórviðburðir fram við Mersey: Seglskipasýning og alþjóðleg garðasýning. 3,5 milljónir manna sóttu viðburðina heim og skoðuðu margir þeirra Albert Dock. Þetta var slík hvatning fyrir MDC að ákveðið var að lappa upp á pakkhúsin. 1986 var fyrsta húsið tekið í notkun á ný sem sjóminjasafn. Í öðrum húsum var verslunum komið fyrir, skrifstofuaðstöðu og íbúðum. Fyrstu íbúðirnar voru fullkláraðar 1988 og ruku út á mettíma. Albert Dock var formlega opnuð á ný 1988 af Karli Bretaprins, afkomanda Alberts sem opnaði Albert Dock 142 árum áður. Samtímis var Tate-safnið opnað á staðnum. 1990 opnaði Bítlasafn sem reyndist gríðarlega vinsælt. Síðan þá hafa fleiri fyrirtæki og söfn opnað í Albert Dock, svo sem þrælasafn, hótel. 2003 var síðasta auða svæðið í pakkhúsunum leigt út sem hótel, þannig að pakkhúsin eru fullnýtt. Albert Dock er einn allra vinsælasti ferðamannastaður í Liverpool í dag og mest sótti fjölnota ferðamannastaður Bretlands utan London-svæðisins. Árlega sækja fjórar milljónir manna staðinn heim. Húsin og höfnin eru friðuð og eru jafnframt á heimsminjaskrá UNESCO.

Söfn[breyta | breyta frumkóða]

Sjóminjasafnið[breyta | breyta frumkóða]

Sjóminjasafnið (Merseyside Maritime Museum) var opnað 1980 og stækkað 1986. Í safninu gefur að líta á siglingasögu Liverpool í gegnum tíðina og mikilvægi hafnarinnar fyrir landið og umheiminn. Þar er einnig greint frá þrælasölunni, vesturferðir Evrópumanna, kaupskipaflotann og farþegaskipið Titanic sem skráð var í Liverpool.

Bítlasafnið[breyta | breyta frumkóða]

Inngangur að Bítlasafninu í einu pakkhúsanna

Bítlasafnið (The Beatles Story) opnaði 1990 og fjallar um Bítlana. Meðlimir hljómsveitarinnar eru allir fæddir í Liverpool og hófu feril sinn í borginni. Meðal þess sem hægt er að sjá er fyrsti gítar George Harrisons, áður óútgefnar ljósmyndir og eftirlíking af Cavern Club, tónlistarklúbbnum þar sem Bítlanir spiluðu í þrjú ár. Gestir fá heyrnartól sem útskýrir ýmislegt í safninu, en röddinn sem heyrist tilheyrir Júlíu, systur John Lennons. Bítlasafnið er fyrsta safnið í heimi sem eingöngu helgar sig Bítlunum.

Tate-safnið[breyta | breyta frumkóða]

Tate-safnið (Tate Liverpool) er útibú frá Tate Modern í London. Það opnaði í Albert Dock 1988 og var þá stærsta safn nýlistasafnið í Bretlandi utan London. Að öðru leyti er í safninu listaverk frá Bretlandi allt frá árinu 1500 til dagsins í dag. Bæði er hér um fastar sýningar að ræða og farandsýningar. 1998 var safnið stækkað og 2007 var andyrið endurbætt. Síðan þá fara þar fram gjörningar (live events).

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Linkar[breyta | breyta frumkóða]