Þorvaldur Guðmundsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þorvaldur Guðmundsson (9. desember 1911 - 10. janúar 1998) var íslenskur athafnamaður kenndur við fyrirtæki sitt Síld og fisk.

Þorvaldur fæddist í Holti undir Eyjafjöllum og foreldrar hans voru Katrín Jónasdóttir og Guðmundur Þ. Sveinbjörnsson. Þorvaldur stundaði nám í Verzlunarskóla Íslands og nám í niðursuðufræði í Danmörku og Þýskalandi. Hann starfaði í verslunum Sláturfélags Suðurlands, vann að stofnun Rækjuverksmiðju Ísafjarðar og var forstjóri niðursuðuverksmiðju SÍF. Þorvaldur stofnaði fyrirtækið Síld og fisk árið 1944 og rak um tíma fjórar verslunir í Reykjavík. Hann reisti svínabú á Minni-Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd árið 1954. Hann rak veitingahúsið Lídó og sá um veitingarekstur í Þjóðleikhúskjallaranum, var hótelstjóri á Hótel Sögu og Hótel Loftleiðum og reisti Hótel Holt ásamt konu sinni Ingibjörgu Guðmundsdóttur lyfjafræðingi.

Hann var formaður Verslunarráðs Íslands, sat í stjórn Kaupmannasamtaka Íslands, Sambands veitinga- og gistihúsaeigenda, Vinnuveitendasambandsins og var fyrsti formaður Meistarafélags kjötiðnaðarmanna.

Þorvaldur safnaði listaverkum og átti eitt stærsta listaverkasafn í einkaeign á Íslandi. Hann var um árabil sá einstaklingur sem greiddi hæstu skatta hér á landi og var því nefndur skattakóngur Íslands.

Þorvaldur var sæmdur riddarakrossi og stórriddarakrossi Hinnar íslensku Fálkaorðu, riddarakrossi Dannebrogorðunnar og riddarakrossi finnsku hvítu rósarinnar og finnska ljónsins.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]