Þjóðfylkingin (Frakkland)
Þjóðfylkingin Rassemblement national | |
---|---|
![]() | |
Forseti | Jordan Bardella |
Varaforseti | Louis Aliot David Rachline Hélène Laporte Edwige Diaz Julien Sanchez Sébastien Chenu |
Þingflokksformaður | Marine Le Pen |
Stofnár | 5. október 1972 |
Stofnandi | Jean-Marie Le Pen |
Höfuðstöðvar | 114 bis rue Michel-Ange 75016, París |
Stjórnmálaleg hugmyndafræði |
Frönsk þjóðernishyggja, hægri-popúlismi |
Einkennislitur | Dökkblár |
Sæti á neðri þingdeild | ![]() |
Sæti á efri þingdeild | ![]() |
Sæti á Evrópuþinginu | ![]() |
Vefsíða | rassemblementnational |
Þjóðfylkingin (franska: Rassemblement national, skammstafað RN; áður þekkt sem Front national frá 1972 til 2018) er franskur stjórnmálaflokkur. Flokkurinn er staðsettur lengst til hægri í frönskum stjórnmálum og hugmyndafræði hans einkennist af þjóðernishyggju, gagnrýni á Evrópusambandið og andstöðu við komu innflytjenda til Frakklands.
Söguágrip
[breyta | breyta frumkóða]Þjóðfylkingin var stofnuð árið 1972 af Jean-Marie Le Pen, sem byggði flokkinn upp í andstöðu við fjölmenningu og fólksflutning, sér í lagi við aðflutning fólks frá múslimaríkjum. Flokkur Le Pen einkenndist jafnframt af andúð á innlendri elítu og af efnahagsstefnu í anda frjálshyggju.[1] Þjóðfylkingin var samruni ýmissa öfgahægrihreyfinga í frönskum stjórnmálum sem sameinuðust í upphafi aðallega vegna afstöðu þeirra til Alsírstríðsins, sér í lagi vegna óánægju þeirra með ákvörðun Charles de Gaulle forseta um að binda enda á stjórn Frakka í norðurhluta Afríku.[2] Meðal meðlima í flokknum á upphafsárum hans voru nýfasistar, konungssinnar og fólk sem hafði stutt Vichy-stjórnina á stríðsárunum.[3]
Þjóðfylkingin átti erfitt uppdráttar fyrstu árin vegna daðurs við fasisma og ásakana um Gyðingahatur innan flokksins.[2] Á níunda áratugnum tókst flokknum hins vegar að auka lögmæti sitt í augum franskra kjósenda með því að hreinsa marga nýnasista úr röðum sínum og laða til sín almennari fylgismenn. Flokkurinn náði í fyrsta sinn verulegum árangri í sveitarstjórnarskosningum árið 1983 og þáttaskil urðu í sögu hans þegar Jean-Marie Le Pen náði kjöri á Evrópuþingið árið 1988. Sama ár hlaut Le Pen 14 prósent atkvæða í forsetakosningum Frakklands.[4]
Þjóðfylkingin hefur frá upphafi verið andsnúin Evrópusambandinu og flokkurinn beitti sér bæði gegn upptöku evrunnar og inngöngu Frakklands í Schengen-samstarfið.[4] Á tíma kalda stríðsins lagði Þjóðfylkingin mikla áherslu á baráttu gegn meintum samsærum kommúnista, sem flokkurinn sagði að hefðu tekið sér bólfestu innan ýmissa alþjóðastofnana til þess að leggja grunn að nýrri heimsskipan. Með tímanum hefur orðræða Þjóðfylkingarinnar í auknum mæli beinst gegn íslamisma fremur en kommúnisma.[5]
Í forsetakosningum Frakklands árið 2002 lenti Jean-Marie Le Pen óvænt í öðru sæti í fyrri umferðinni og því var kosið á milli hans og sitjandi forsetans Jacques Chirac í þeirri seinni. Í seinni umferðinni sameinuðust andstæðingar Þjóðfylkingarinnar gegn Le Pen og því galt hann afhroð gegn Chirac og hlaut aðeins 17,8% greiddra atkvæða.[6]
Marine Le Pen, dóttir Jean-Marie, tók við stjórn Þjóðfylkingarinnar af föður sínum árið 2011. Hún hófst strax handa við að reyna að mýkja ímynd flokksins í augum fransks almennings og gefa honum breiðari skírskotun.[7] Árið 2015 lét Marine Le Pen reka föður sinn úr flokknum vegna umdeildra ummæla hans sem gengu út á að helförin hefði aðeins verið aukaatriði í seinni heimsstyrjöldinni.[8] Í stjórnartíð Marine Le Pen hefur Þjóðfylkingin hætt að tala fyrir útgöngu Frakklands úr Evrópusambandinu og talar þess í stað fyrir því að Frakkland beiti sér fyrir endurskipulagningu á ESB innan frá.[9] Marine Le Pen lét jafnframt árið 2018 breyta nafni flokksins úr Front national í Rassemblement national til þess að bæta ímynd hans.[10]
Þjóðfylkingin hefur átt æ meira fylgi að fagna á síðustu árum undir forystu Marine Le Pen. Marine Le Pen var frambjóðandi flokksins í forsetakosningum Frakklands árin 2012, 2017 og 2022 og komst í seinni umferð í síðari tveimur kosningunum. Í báðum þessum kosningum tapaði Le Pen fyrir Emmanuel Macron.[11]
Le Pen hefur hrósað Vladímír Pútín, forseta Rússlands, og flokkurinn hefur talað fyrir auknu samstarfi við Rússland. Le Pen studdi á sínum tíma innlimun Rússlands á Krímskaga og hvatti til þess að efnahagsþvingunum gegn Rússlandi í kjölfar hennar yrði hætt. Þau Pútín funduðu í Moskvu í aðdraganda forsetakosninga Frakklands árið 2017.[12]
Jordan Bardella tók við af Le Pen sem forseti Þjóðfylkingarinnar árið 2022, þar sem Le Pen vildi einbeita sér að forsetaframboði sínu, og deilir forystu flokksins með henni.[13] Flokkurinn lenti í fyrsta sæti í Evrópuþingskosningum ársins 2024, sem leiddi til þess að Emmanuel Macron forseti lét rjúfa þing og flýkka þingkosningum. Í fyrri umferð þingkosninganna, sem fóru fram þann 30. júní 2024, lenti Þjóðfylkingin aftur í fyrsta sæti, sem var í fyrsta sinn sem jaðarhægriflokkur hefur unnið sigur í þingkosningum í Frakklandi.[14] Þjóðfylkingin missti hins vegar flugið í seinni umferð þingkosninganna, sem haldin var þann 7. júlí, og lenti í þriðja sæti á eftir Nýju alþýðufylkingunni, kosningabandalagi vinstriflokka, og miðjubandalagi Macrons forseta.[15]
Gengi í kosningum
[breyta | breyta frumkóða]Þingkosningar
[breyta | breyta frumkóða]Kosningar | Leiðtogi | Fyrsta umferð | % | Önnur umferð | % | Þingsæti | +/– |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1973[16] | Jean-Marie Le Pen | 108.616 | 0,5% | — | — | 0 / 491
|
![]() |
1978[16] | 82.743 | 0,3% | — | — | 0 / 491
|
![]() | |
1981[16] | 44.414 | 0,2% | — | — | 0 / 491
|
![]() | |
1986[16] | 2.703.442 | 9,6% | — | — | 35 / 573
|
||
1988[16] | 2.359.528 | 9,6% | — | — | 1 / 577
|
||
1993[17] | 3.155.702 | 12,7% | 1.168.143 | 5,8% | 0 / 577
|
||
1997[17] | 3.791.063 | 14,9% | 1.435.186 | 5,7% | 1 / 577
|
||
2002[17] | 2.873.390 | 11,1% | 393.205 | 1,9% | 0 / 577
|
||
2007[17] | 1.116.136 | 4,3% | 17.107 | 0,1% | 0 / 577
|
![]() | |
2012 | Marine Le Pen | 3.528.373 | 13,6% | 842.684 | 3,7% | 2 / 577
|
|
2017 | 2.990.454 | 13,2% | 1.590.858 | 8,8% | 8 / 577
|
||
2022 | 4.248.626 | 18,7% | 3.589.465 | 17,3% | 89 / 577
|
||
2024 | Jordan Bardella | 10.647.914 | 33,2% | 10.110.079 | 37,1% | 142 / 577
|
Forsetakosningar
[breyta | breyta frumkóða]Kosningar | Frambjóðandi | Fyrsta umferð | Önnur umferð | Niðurstaða | ||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Atkvæði | % | Sæti | Atkvæði | % | Sæti | |||
1974 | Jean-Marie Le Pen | 190.921 | 0,75 | ![]() |
— | Tapaði | ||
1981 | Bauð ekki fram | |||||||
1988 | Jean-Marie Le Pen | 4.375.894 | 14,39 | ![]() |
— | Tapaði | ||
1995 | 4.570.838 | 15,00 | ![]() |
— | Tapaði | |||
2002 | 4.804.713 | 16,86 | ![]() |
5.525.032 | 17,70 | ![]() |
Tapaði | |
2007 | 3.834.530 | 10,44 | ![]() |
— | Tapaði | |||
2012 | Marine Le Pen | 6.421.426 | 17,90 | ![]() |
— | Tapaði | ||
2017 | 7.678.491 | 21,30 | ![]() |
10.638.475 | 33,90 | ![]() |
Tapaði | |
2022 | 8.133.828 | 23,15 | ![]() |
13.288.686 | 41,45 | ![]() |
Tapaði |
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Eiríkur Bergmann (2021). Þjóðarávarpið: Popúlísk þjóðernishyggja í hálfa öld. Reykjavík: JPV útgáfa. ISBN 978-9935-29-078-6.
- Shields, James (2007). The Extreme Right in France: From Pétain to Le Pen. Routledge. ISBN 978-0-415-37200-8.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Eiríkur Bergmann 2021, bls. 79.
- ↑ 2,0 2,1 Eiríkur Bergmann 2021, bls. 95.
- ↑ Dagur Þorleifsson (28. apríl 1989). „Þjóðfylking Le Pens“. Þjóðviljinn. bls. 13.
- ↑ 4,0 4,1 Eiríkur Bergmann 2021, bls. 96.
- ↑ Eiríkur Bergmann 2021, bls. 98.
- ↑ Eiríkur Bergmann 2021, bls. 171.
- ↑ Eiríkur Bergmann 2021, bls. 295.
- ↑ Pálmi Jónasson (16. mars 2017). „Sprengjutilræði, móðurmissir og föðurmorð“. RÚV. Sótt 1. júlí 2024.
- ↑ Eiríkur Bergmann 2021, bls. 296.
- ↑ „Le Pen vill nýtt nafn á flokkinn“. mbl.is. 11. mars 2018. Sótt 1. júlí 2024.
- ↑ Ólöf Ragnarsdóttir (24. apríl 2022). „Emmanuel Macron hafði betur gegn Marine Le Pen“. RÚV. Sótt 24. apríl 2022.
- ↑ „Marine Le Pen vill aukið samstarf við Rússa – Moskvuferð ekki til fjáröflunar“. Varðberg. 27. mars 2017. Sótt 1. júlí 2024.
- ↑ Jón Þór Stefánsson (16. júní 2024). „Hver er þessi 28 ára maður sem gæti orðið forsætisráðherra Frakka?“. Vísir. Sótt 1. júlí 2024.
- ↑ Sólrún Dögg Jósefsdóttir (30. júní 2024). „Sögulegur dagur fyrir frönsku þjóðina að baki“. Vísir. Sótt 1. júlí 2024.
- ↑ Ólafur Björn Sverrisson (7. júlí 2024). „Attal segir af sér og Melénchon vill stjórnarmyndunarumboð“. Vísir. Sótt 8. júlí 2024.
- ↑ 16,0 16,1 16,2 16,3 16,4 Shields 2007, bls. 319.
- ↑ 17,0 17,1 17,2 17,3 „France: Elections 1990–2010“. European Election Database. Afrit af uppruna á 24 febrúar 2017. Sótt 6. september 2011.