Fara í innihald

Jean-Marie Le Pen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jean-Marie Le Pen
Jean-Marie Le Pen 22. september 2007.
Fæddur20. júní 1928 (1928-06-20) (96 ára)
ÞjóðerniFranskur
MenntunUniversité Paris-Panthéon-Assas
FlokkurÞjóðfylkingin (1972–2016)
TrúKaþólskur
MakiPierrette Lallane (g. 1960; sk. 1987)
Jeanne-Marie Paschos ​(g. 1991)
Börn3, þ. á m. Marine Le Pen
Undirskrift

Jean-Marie Le Pen (fæddur 20. júní 1928) er franskur stjórnmálamaður og fyrrverandi leiðtogi frönsku Þjóðfylkingarinnar. Hann talar bretónsku að móðurmáli. Le Pen er menntaður sem lögfræðingur en var nokkurn tíma í hernum og tók þátt í stríðinu í Alsír þegar það land lýsti yfir sjálfstæði frá Frakklandi.

Le Pen var meðlimur í þjóðernishreyfingunni Ordre nouveau og tók árið 1972 þátt í stofnun Þjóðfylkingarinnar (FN) og varð formaður hennar. Í stjórnmálum stóð Le Pen lengst til hægri og gerði gagnrýni á innflytjendamál að aðaláherslu í kosningabaráttum sínum.[1] Le Pen kom Þjóðfylkingunni í fremstu röð á vettvangi franskra stjórnmála á níunda áratugnum.

Le Pen hefur fimm sinnum boðið sig fram til forseta Frakklands. Í fyrsta framboði sínu árið 1974 náði hann mjög litlu fylgi en í næstu framboðum sínum (árin 1988, 1995 og 2007) lenti hann þrisvar í fjórða sæti í fyrri umferð forsetakosninganna. Besti árangur Le Pen í forsetakosningum var árið 2002, en þar lenti hann öllum að óvörum í öðru sæti í fyrri umferð kosninganna og var því kosið á milli hans og sitjandi forsetans Jacques Chirac í seinni umferðinni.[2] Í seinni umferðinni galt Le Pen afhroð á móti Chirac og hlaut aðeins 17,8% greiddra atkvæða.[3]

Dóttir hans, Marine Le Pen, tók við af honum árið 2011 sem forseti Þjóðfylkingarinnar en Jean-Marine Le Pen hlaut þá titil heiðursforseta flokksins. Hann var rekinn úr flokknum árið 2015 vegna fullyrðinga um að helförin hefði aðeins verið aukaatriði í seinni heimsstyrjöldinni.[4]

Stjórnmálaferill Jean-Marie Le Pen hefur einkennst af umdeildum yfirlýsingum sem hafa leitt til ásakana á hendur honum um kynþáttafordóma og Gyðingahatur sérstaklega.

Le Pen sagði upp sæti sínu á Evrópuþinginu og hætti virkri þátttöku í stjórnmálum árið 2019. Þetta var eftir 34 ára setu á Evrópuþinginu og 63 árum eftir að Le Pen náði kjöri á franska þingið í fyrsta sinn. Í október 2018 gaf hann til kynna að hann myndi samþykkja að vera á kjörlista Þjóðfylkingarinnar á ný, en Marine Le Pen neitaði að samþykkja hann.

Árið 2019 skrifaði hann um Marine Le Pen: „Hún hefur ákveðna eiginleika fyrir pólitík: kjark, drifkraft, þrautsegju. En hún treystir sér ekki. Þetta skýrir galla hennar. Einræðishlið hennar. […] Hún þolir ekki andóf. […] Ég var eina stjórnarandstaðan í nýju Þjóðfylkingunni hennar. Þess vegna rak hún mig “. Hann gagnrýndi einnig dóttur sína fyrir að „opna flokkinn til vinstri“ og „örvæntingarfulla leit hans að djöflavæðingu á sama tíma og djöfullinn er að verða vinsæll“. Aftur á móti lýsti hann dótturdóttur sinni, Marion Maréchal, sem „einstaklega ljómandi konu“.[heimild vantar]

Í apríl 2024 var Jean Marie Le Pen settur „undir lögvernd“ að beiðni fjölskyldu sinnar.[heimild vantar]

  • Eiríkur Bergmann (2021). Þjóðarávarpið: Popúlísk þjóðernishyggja í hálfa öld. Reykjavík: JPV útgáfa. ISBN 978-9935-29-078-6.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Eiríkur Bergmann 2021, bls. 79.
  2. „Vill að Frakkland verði fyrir Frakka“. Morgunblaðið. 23. apríl 2002. bls. 26.
  3. Eiríkur Bergmann 2021, bls. 171.
  4. Pálmi Jónasson (16. mars 2017). „Sprengjutilræði, móðurmissir og föðurmorð“. RÚV. Sótt 1. júlí 2024.
  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.