Zimmermann-símskeytið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Zimmermann-símskeytið eins og það barst til þýska sendiherrans í Washington.

Zimmermann-símskeytið kölluðust leynileg samskipti á milli utanríkisráðuneyta Þýskalands og Mexíkó í janúar árið 1917. Símskeytið stakk upp á hernaðarbandalagi Mexíkó og Þýska keisaraveldisins ef Bandaríkin kynnu að ganga inn í fyrri heimsstyrjöldina í liði með Bandamönnum gegn Þjóðverjum. Samkvæmt uppástungunni áttu Mexíkanar að endurheimta Texas, Arizona og Nýju Mexíkó, sem Bandaríkin höfðu haft af þeim í stríði ríkjanna árin 1846-1848. Breska leyniþjónustan komst yfir skilaboðin og leysti úr dulmálinu áður en þau bárust til Mexíkó. Þegar skilaboðin voru birt almenningi reiddust Bandaríkjamenn mjög, sérstaklega eftir að þýski utanríkisráðherrann Arthur Zimmermann viðurkenndi opinberlega að skilaboðin væru ófölsuð þann 3. mars. Skilaboðin urðu ein ástæða Bandaríkjamanna fyrir því að lýsa yfir stríði á hendur Þjóðverjum í apríl sama ár.[1] Ráðning dulmálsins var talinn mesti sigur breskra njósnara í fyrri heimsstyrjöldinni og eitt fyrsta skiptið sem heimsatburðir urðu fyrir áhrifum frá njósnum.[2]

Efni[breyta | breyta frumkóða]

Arthur Zimmermann

Skilaboðin voru í dulkóðuðu símskeyti frá Arthur Zimmermann, utanríkisráðherra þýska keisaraveldisins þann 19. janúar 1917. Skilaboðin voru til þýska sendiherrans í Mexíkó, Heinrich von Eckhardt. Zimmermann sendi skilaboðin í aðdraganda óhefts kafbátahernaðar sem hefja átti þann 1. febrúar og Þjóðverjar bjuggust við að myndi líklega leiða til stríðs við Bandaríkin. Skilaboðin skipuðu Eckardt að ef Bandaríkin virtust líkleg til að ganga inn í styrjöldina ætti hann að gera mexíkósku ríkisstjórninni tilboð um hernaðarbandalag og fjárstyrk frá Þýskalandi.

Skilaboðin voru á þessa vegu:

Þann fyrsta febrúar munum við hefja óheftan kafbátahernað. Við munum þó reyna eftir bestu getu að halda Bandaríkjunum hlutlausum. Ef þetta tekst ekki gerum við Mexíkó eftirfarandi tilboð um bandalag: Að við berjumst saman og semjum um frið saman, með rausnarlegum fjárstyrk og samþykki okkar á því að Mexíkó leggi á ný undir sig glötuð landsvæði í Texas, Nýju Mexíkó og Arizona. Frekari samningaviðræður eru undir þér komnar. Láttu forsetann vita með fullri leynd um leið og stríð við Bandaríkin er óumflýjanlegt og bættu við tillögu um að hann, að eigin frumkvæði, ætti að bjóða Japan bandalag og gerast milliliður okkar við Japani. Vektu vinsamlegast athygli forsetans á því að óvæginn kafbátahernaður okkar mun hugsanlega neyða England til að semja um frið eftir nokkra mánuði.
 

Undirritað, ZIMMERMANN

Svar Mexíkana[breyta | breyta frumkóða]

Zimmermann-símskeytið var einn liður í tilraun Þjóðverja til að trufla flutning birgða og annars stríðsvarnings frá Bandaríkjunum til Bandamanna.[3] Með því að fá Mexíkana til að lýsa stríði á hendur Bandaríkjunum vonuðust Þjóðverjar til þess að hægja á útflutningi bandarískra vopna og hermanna.[4] Miðstjórn þýska hersins taldi að þeir gætu sigrað Breta og Frakka á vesturvígstöðvunum og þjarmað að Bretlandi með kafbátahernaði sínum áður en Bandaríkjaher yrði reiðubúinn til að koma Bandamönnum til hjálpar. Sigrar Þjóðverja á austurvígstöðvunum sannfærðu þá um að þeir gætu sent fjölda hermanna til vesturvígstöðvanna án þess að tapa á því.

Venustiano Carranza forseti Mexíkó skipaði nefnd hershöfðingja til að meta möguleikann á því að endurheimta fyrrverandi landsvæði Mexíkó frá Bandaríkjunum líkt og Þjóðverjar stungu upp á.[5] Hershöfðingjarnir komust að þeirri niðurstöðu að slík tilraun væri hvorki gerleg né jafnvel æskileg með eftirfarandi rökum:

 • Bandaríkin byggju yfir miklu sterkari herafla en Mexíkó. Mexíkó gæti ekki unnið stríð gegn Bandaríkjunum.
 • Ekki væri hægt að reiða sig á tilboð Þjóðverja um „rausnarlegan fjárstyrk“. Þýska ríkisstjórnin hafði þá þegar sagt Carranza í júní 1916 að hún gæti ekki látið af hendi gull til að stofna sjálfstæðan mexíkóskan banka.[6] Jafnvel þótt fjárstyrkurinn bærist yrði Mexíkó vafalaust að kaupa vopn og aðrar birgðir frá Argentínu, Brasilíu og Síle, sem myndi skaða sambönd ríkjanna.
 • Jafnvel þótt Mexíkó tækist einhvern veginn að sigra Bandaríkjamenn og endurheimta landsvæðin yrði afar erfitt fyrir Mexíkana að hafa hemil á stórum og vel vopnuðum enskumælandi íbúafjölda svæðisins.
 • Önnur milliríkjasambönd voru í húfi. Argentína, Brasilía og Síle höfðu skipulagt friðarsamkomu við Niagarafossa árið 1914 til að koma í veg fyrir stríð milli Bandaríkjanna og Mexíkó í kjölfar hernáms Bandaríkjamanna í Veracruz. Stríð á milli Mexíkó og Bandaríkjanna myndu skaða samband þeirra við þessar þjóðir.

Bandaríkjamenn viðurkenndu formlega ríkisstjórn Carranza þann 31. ágúst 1917 vegna Zimmermann-símskeytisins til þess að halda Mexíkönum hlutlausum í styrjöldinni.[7][8] Eftir innrás Bandaríkjamanna í Veracruz árið 1914 var ómögulegt að fá Mexíkana til að taka þátt í neinu hernaðarbrölti Bandaríkjanna[9] og því ekki hægt að vonast eftir öðru betra en að Mexíkó yrði áfram hlutlaust, jafnvel þótt Mexíkanar leyfðu þýskum fyrirtækjum áfram að starfa í landinu.[10]

Viðbrögð Bandaríkjamanna[breyta | breyta frumkóða]

Samband Bandaríkjamanna við bæði Þjóðverja og Mexíkana var þegar stirt þegar símskeytið var opinberað. Auk þess var mörgum Mexíkönum í nöp við Bandaríkin[11], þar sem bandaríski hershöfðinginn John J. Pershing hafði lengi verið í herleiðangri í Mexíkó til að handsama byltingarmanninn Pancho Villa og hafði nokkrum sinnum lent í skærum við Mexíkana. Þegar fréttir af símskeytinu bárust út urðu samskipti ríkjanna enn kaldari.

Bretahatur var þó einnig algengt í Bandaríkjunum, sérstaklega meðal þýsk- og írskættaðra Bandaríkjamanna. Margir Bandaríkjamenn vildu fyrir alla muni forðast að blanda sér í átökin í Evrópu. Þar sem almenningi hafði í upphafi verið (ranglega) sagt að símskeytinu hefði verið stolið í dulráðinni útgáfu frá Mexíkó héldu margir í upphafi að skilaboðin væru fölsun bresku leyniþjónustunnar. Þýskir og mexíkóskir erindrekar ýttu undir þessa túlkun á atburðinum auk þess sem sumir bandarískir fjölmiðlar, sérstaklega þeir sem tilheyrðu William Randolph Hearst, aðhylltust hana. Ríkisstjórn Woodrows Wilson lenti hér á milli steins og sleggju. Bretar höfðu fært sönnur fyrir því að símskeytið væri ósvikið en Wilson gat ekki deilt sönnunargögnunum með bandarískum almenningi án þess að grafa undan bresku leyniþjónustunni.

Að endingu gerði Arthur Zimmermann sjálfur út um allan vafa um staðreyndir málsins. Á blaðamannafundi þann 3. mars 1917 sagði hann bandarískum blaðamanni: „Ég get ekki neitað því. Það er satt.“ Þann 29. mars 1917 flutti Zimmermann síðan ræðu á þýska ríkisþinginu þar sem hann viðurkenndi að símskeytið væri ósvikið.[12] Zimmermann vonaði að Bandaríkjamenn skildu að tilboðið um stríðsstyrk til Mexíkó væri aðeins ætlað til varnar gegn Bandaríkjunum ef þau ákvæðu af fyrra bragði að berjast gegn Þjóðverjum.

Þann 1. febrúar 1917 byrjuðu Þjóðverjar óheftan kafbátahernað gegn öllum skipum á Atlantshafinu undir bandaríska fánanum; bæði ferðamanna- og kaupskipum. Tveimur skipum var sökkt í febrúar og flest bandarísk kaupskipafyrirtæki hættu að sigla yfir Atlantshafið. Almenningsálit kallaði eftir aðgerðum. Wilson hafði þá neitað að lána kaupskipum vopn og herfylgd bandaríska sjóhersins en skipti um skoðum eftir birtingu Zimmermann-símskeytisins. Forsetinn fór með frumvarp fyrir því að bandarísk skip á leið yfir Atlantshafið fengju herfylgd en kom því ekki í gegnum bandaríska þingið.[13]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Andrew, Christopher. For The President's Eyes Only. 1996. Harper Collins. Bls. 42.
 2. „The telegram that brought America into the First World War“. BBC History Magazine. 17. janúar 2017. Sótt 17. janúar 2017.
 3. Tuchman, Barbara W. The Zimmermann Telegram. 1958. Bls. 63, 73–4
 4. Katz, Friedrich. The Secret War in Mexico: Europe, the United States, and the Mexican Revolution. 1981. Bls. 328–29.
 5. Katz, bls. 364
 6. William Beezley, Michael Meyer (2010) The Oxford History of Mexico, p. 476, Oxford University Press, UK.
 7. Thomas Paterson, J. Garry Clifford, Robert Brigham, Michael Donoghue, Kenneth Hagan (2010) American Foreign Relations, Volume 1: To 1920, p. 265, Cengage Learning, USA.
 8. Thomas Paterson, John Garry Clifford, Kenneth J. Hagan (1999) American Foreign Relations: A History since 1895, p. 51, Houghton Mifflin College Division, USA.
 9. Lee Stacy (2002) Mexico and the United States, Volume 3, p. 869, Marshall Cavendish, USA.
 10. Jürgen Buchenau (2004) Tools of Progress: A German Merchant Family in Mexico City, 1865–present, p. 82, UNM Press, USA.
 11. Link, Arthur S. (1965). Wilson: Campaigns for Progressivism and Peace: 1916–1917.
 12. Meyer, p. 76.
 13. Richard W Leopold, The Growth of American Foreign Policy: A History (1962) pp 330–31