Fara í innihald

2. Mósebók

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Önnur Mósebók)

2. mósebókgrísku: ἔξοδος, Exodos; á hebresku: שמות Sh'mot ("brottförin"), á latínu: Liber Exodus) er önnur af fimm mósebókum. Mósebækur eru fyrsti hluti gamla testamentisins og nefnast saman Torah á hebresku. Bókin fjallar um för Ísraelsmanna frá Egyptalandi undir leiðsögn Móses.

Móses með steintöflurnar, málverk eftir José de Ribera, málað 1638

Í upphafi bókarinnar er sagt frá fæðingu Móses, sem fæddist þegar faraóinn í Egyptalandi hafði skipað að öll sveinbörn skyldu drepin. Samkvæmt Biblíunni dregur Móses nafn sitt af því að hann var „dreginn úr vatni“ af dóttur faraósins. Nútíma fræðimenn telja líklegra að nafnið sé dregið af egypsku orði. Rótin er hin sama og endingin á sérnafninu Ramses, sem merkir fæddur af sólguðinum Ra. Þannig þýðir Móses „fæddur“.

Drottinn skipar Móses að leiða Ísraelsmenn frá Egyptalandi en faraóinn heftir för þeirra. Drottinn refsar Egyptum með tíu plágum. Síðasta plágan dugði til að sannfæra faraóinn en þá var sérhver frumburður Egypta drepinn. Drottinn bað Ísraelsmenn að merkja híbýli sín svo að eyðandinn kæmi ekki þangað. Páskahefð gyðinga fagnar því að eyðandinn gekk fram hjá híbýlum Ísraelsmanna.

Á leiðinni til Kanaan-svæðis klauf Móses Rauðahafið. Nútímatúlkun fræðimanna er sú að hér sé ekki átt það sem við þekkjum sem Rauðhafið í dag en ekki er vitað fyrir víst hvaða haf eða vatn er um að ræða. Drottinn birtist Móse á Sínaífjalli og kynnir honum nýjan sáttmála sinn við Ísraelsmenn. Sér í lagi segir hann í löngu máli frá því hvernig skal útbúa tjaldbúðir Drottins. Þegar Móse kemur niður af fjallinu með steintöflur meitlaðar af Drottni sér hann fólkið tilbiðja gullkálf. Hann skipar hópi Levíta að drepa villutrúarfólkið og þrjú þúsund falla. Þetta atvik er eitt af mörgum í mósebókum þar sem Ísraelsmenn breyta gegn vilja guðs. Flest atvikin eru talin upp í 4. mósebók.

Mósesáttmálinn

[breyta | breyta frumkóða]

Mósesáttmálinn er þriðji sáttmálinn sem kemur fram í Mósebókum, eftir Nóasáttmálann og Feðraveldissáttmálann sem Drottinn gerði við Abraham. Mósesáttmálinn er frábrugðin hinum fyrri þar sem hann er tvíhliða. Hann leggur þungar skyldur á Ísraelsmenn með fjölmörgum reglum sem taldar eru upp í 3., 4. og 5. Mósebók. Á móti heitir Drottinn því að vernda Ísraelsmenn. Mikilvæg kenning um Mósesáttmálann var sett fram af Jon Levenson. Hann bendir á að Mósesáttmálinn er að formi til og efni svipaður samtíma sáttmálum sem sigurvegarar, sérstaklega Hittítar, gerðu við sigraðar þjóðir.

Vinsæl söguskoðun er að lýsingin á komu Ísraelsmanna til Egyptalands og brottför þeirra þaðan tengist veru Hyksos þjóðarinnar í Egyptalandi. Hyksos var af Semítískum uppruna eins og Ísraelsmenn. Þeir réðust á Egyptaland 1720 f. Kr. og settust þar að. Síðar var þeim bolað frá. Það er hugsanlegt að faraóinn sem var Ísraelsmönnum vinveittur í 2. Mósebók hafi verið Hyksos og að lýsingin af brottför Ísraelsmanna sé í raun lýsing á brotthvarfi Hyksos þjóðarinnar frá Egyptalandi.