Fara í innihald

Grettir Ásmundarson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Grettir Ásmundarson. Mynd úr 17. aldar handritinu AM426.

Grettir sterki Ásmundarson eða Grettir sterki er aðalpersóna Grettis sögu. Hann var mikill óeirðarmaður og skapstór. Í sögunni er honum svo lýst að hann hafi verið „ódæll í uppvexti sínum, fátalaður og óþýður, bellinn bæði í orðum og tiltektum ... fríður maður sýnum, breiðleitur og skammleitur, rauðhærður og næsta freknóttur, ekki bráðger meðan hann var á barnsaldri“.

Uppvöxtur Grettis[breyta | breyta frumkóða]

Foreldrar Grettis, Ásmundur Þorgrímsson hærulangur og Ásdís Bárðardóttir, bjuggu á Bjargi í Miðfirði og ólst hann þar upp. Milli hans og Ásdísar móður hans var mikið ástríki en samkomulag þeirra feðganna var ekki gott, enda var Grettir mjög ódæll og reif meðal annars bak föður síns með ullarkömbum þegar hann átti að nudda hann og drap og misþyrmdi dýrum sem hann var settur til að gæta. Eldri bróðir Grettis hét Atli og þóttu þeir mjög ólíkir þótt vel færi á með þeim, Atli var hægur og hógvær og öllum féll vel við hann. Systur Grettis hétu Þórdís og Rannveig en Illugi var langyngstur.

Grettir var 14 ára þegar hann drap fyrst mann. Nokkru síðar fór hann til Noregs og var meðal annars hjá Þorsteini drómundi, eldri hálfbróður sínum. Þar lenti hann í deilum og drap nokkra menn. Síðan kom hann heim, var á Bjargi og lenti fljótt í illdeilum við ýmsa sveitunga sína en var þó rómaður fyrir hreysti og fræknleika. Hann glímdi svo við drauginn Glám á Þórhallsstöðum í Forsæludal og hafði betur en Glámur lagði á hann bölvun og sagði að þaðan í frá mundi flest snúast honum til ógæfu og hann yrði útlagi.

Útlaginn Grettir[breyta | breyta frumkóða]

Skömmu síðar fór Grettir aftur til Noregs og varð þess þar valdandi fyrir slysni að kviknaði í húsi og margir menn brunnu inni. Þeir voru íslenskir og var Grettir dæmdur sekur skógarmaður þegar hann kom heim. Atli bróðir hans hafði skömmu áður verið drepinn og var banamaður hans Þorbjörn öxnamegin. Grettir drap Þorbjörn og son hans og lagðist síðan út. Næstu tuttugu var hann útlagi víða um land og lifði ýmist á ránum, veiðum eða aðstoð frænda og vina. Oft reyndu menn að fara að honum og drepa hann en það tókst aldrei. Víða má finna örnefni tengd Gretti eða sagnir um að hann hafi dvalið í hellisskútum og á öðrum stöðum sem kenndir eru við hann.

Grettir í Drangey[breyta | breyta frumkóða]

Drangey.

Grettir var mjög myrkfælinn eftir glímuna við Glám og átti erfitt með að vera einn. Hann fékk því Illuga yngsta bróður sinn, sem þá var fimmtán ára, til að vera með sér. Fóru þeir saman, ásamt þrælnum Glaumi, út í Drangey á Skagafirði og settust þar að. Skagfirðingum þótti illt að hafa þá í eynni og fengu Þorbjörn öngul til að vinna á Gretti en honum varð ekkert ágengt því mjög torvelt er að komast upp í eyna. Þeir voru þar nokkur ár og lifðu á bjargfugli og eggjum og sauðfé sem Skagfirðingar áttu í eynni. Sagan segir að eitt sinn hafi eldurinn slokknað hjá þeim. Þeir voru bátlausir og synti Grettir þá í land og sótti eld að Reykjum.

Að lokum fékk Þorbjörn öngull móður sína til að leggja álög á rótarhnyðju sem látin var reka að eynni en þegar Grettir ætlaði að höggva tréð í eldinn fór öxin í fót hans og var það mikið sár og kom sýking í það. Illugi vakti yfir honum en Þorbjörn og menn hans komust að þeim og voru þeir bræður felldir eftir frækilega vörn. Þorbjörn tók höfuð Grettis með sér, fór með það að Bjargi og sýndi Ásdísi móður hans. Hann ætlaði svo að hafa það með sér til Alþingis en hætti við, enda mæltist víg þeirra bræðra illa fyrir og þótti níðingsverk, þar sem Grettir var dauðsjúkur og fjölkynngi hafði verið beitt til að vinna á honum. Var Þorbjörn því dæmdur til að fara úr landi og koma ekki aftur og fékk ekki fé það sem lagt hafði verið til höfuðs Gretti.

Grettis hefnt[breyta | breyta frumkóða]

Þorbjörn fór til Noregs en taldi sér ekki vært þar þar sem hann vissi af Þorsteini drómundi, bróður Grettis, og fór því suður til Miklagarðs og gekk í lið Væringja. Þorsteinn elti hann þangað, gerðist einnig Væringi og banaði Þorbirni eftir að hafa heyrt hann hælast af vígi Grettis.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]