Fara í innihald

Verkshæð

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Verkshæð er í höfundarétti lágmarksskilyrði sem þarf að uppfylla til að tiltekið verk njóti verndar. Almennt er gerð krafa um að verkið sé sjálfstæð og frumleg sköpun höfundar. Í verkinu þarf því að felast nýnæmi, að minnsta kosti að formi. Ekki er gerð krafa um gæði eða sérstakt gildi verksins, en þó getur innihald þess haft áhrif þannig að efni verksins þurfi að vera umtalsvert til að það njóti verndar.

Í höfundalögum margra landa er engu að síður fjallað um verk sem ekki uppfylla frumleikaskilyrðið og þeim veitt vernd (yfirleitt í mun skemmri tíma). Þetta getur átt við um fréttir og fréttaljósmyndir, safnverk og gagnagrunna sem eru afrakstur „verulegrar fjárfestingar“. Hér gilda því rökin um „sveita síns andlits“ sem skilyrði fyrir vernd.