Viktoríutímabilið
Viktoríutímabilið var tímabil í sögu Bretlands sem náði frá júní 1837 til janúar 1901 þegar Viktoría Bretadrottning réð ríkjum í Bretlandi.[1] Viktoríutímabilið tók við af Georgstímabilinu og þegar því lauk tók Játvarðstímabilið við. Á þessum tíma var mikill uppgangur í bresku samfélagi. Menntuð millistétt gat myndast vegna breska heimveldsins og iðnvæðingar á Bretlandi. Íbúafjöldi Englands tvöfaldaðist og fór úr 16,8 milljónum árið 1851 í 30,5 milljónir árið 1901,[2] meðan íbúafjöldi Írlands fór úr 8,2 milljónum árið 1841 í 4,5 milljónir árið 1901.[3]
Á þessum tíma urðu miklar breytingar á bresku samfélagi. Velmegun jókst þegar heimsveldið stækkaði og miklar framfarir urðu í tækni og vísindum. Þéttbýlisvæðing og samgöngubylting einkenndu tímabilið. Læsi varð almennt og árið 1870 voru fyrstu fræðslulögin samþykkt sem gerðu menntun barna að skyldu. Barnaþrælkun og viðvarandi vannæring meðal lágstéttanna voru samt stórt vandamál og vegna stefnu um lágmarksafskipti ríkisvaldsins gengu samfélagsumbætur hægt fyrir sig. Fátækrahverfi og útbreiðsla smitsjúkdóma voru ein afleiðing af þéttbýlismyndun. Vegna þessara miklu samfélagsbreytinga er tímabilinu stundum skipt í þrennt: árviktoríutímabilið frá 1837 til 1850, miðviktoríutímabilið frá 1851 til 1879, og síðviktoríutímabilið frá 1880 til 1901.[4] Síðasti hluti tímabilsins fer að hluta til saman við tímabilið sem var nefnt Belle Époque á meginlandi Evrópu og Gyllingartímabilið í sögu Bandaríkjanna.
Eftir sigur í Napóleonsstyrjöldunum var breska heimsveldið öflugasta og stærsta heimsveldið og við tók langt friðartímabil sem kennt er við breskan frið eða Pax Britannica. Á þessum tíma hafði Bretland nær óskorað vald yfir úthöfum heimsins. Bretland átti þó oft í átökum við minni ríki og tók líka þátt í kapphlaupinu um Afríku og Stórleiknum í Mið-Asíu. Meðal helstu átaka Breta á Viktoríutímanum voru Krímstríðið, uppreisnin á Indlandi, Súlústríðið og Búastríðin.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir (2009). „Hvenær var Viktoríutímabilið og hvað gerðist þá?“. Vísindavefurinn.
- ↑ The UK population: past, present and future, statistics.gov.uk
- ↑ „Ireland - Population Summary“.
- ↑ Sadleir, M. (1945). Trollope, a commentary. Constable.