Gyllingartímabilið
Gyllingartímabilið (enska: Gilded Age) er hugtak, upphaflega frá Mark Twain, sem sumir sagnfræðingar hafa notað yfir tímabil í sögu Bandaríkjanna sem nær frá lokum bandarísku endurreisnarinnar 1877 til upphafs framsóknartímabilsins 1896. Þetta tímabil einkenndist af hagvexti, einkum í norður- og vesturfylkjum Bandaríkjanna. Milljónir fluttust til Bandaríkjanna frá Evrópu á þessum tíma til að svara ört vaxandi eftirspurn eftir vinnuafli í iðnaði. Tímabilið dregur nafn sitt af því hvað auðsöfnun varð mikil og áberandi í bandarísku samfélagi og munurinn á aðstæðum hinna ofurríku og bláfátækra innflytjenda að sama skapi sláandi. Mark Twain notaði þessa líkingu til að leggja áherslu á að ekki var um gullöld að ræða, líkt og lofað hafði verið eftir þrælastríðið, heldur ódýra gyllingu á efnahagslega útþenslu.