Umritun grískra og latneskra nafna á íslensku
Umritun grískra og latneskra nafna á íslensku er aðferð við að rita grískan og latneskan texta með íslenskum bókstöfum. Gríska er skrifuð með öðru stafrófi og öðru letri og því er þörf á umritun grískra nafna er þau eru rituð á íslensku. Mörgum þykir einnig ritháttur latneskra nafna óþjáll og vilja gjarnan laga nöfnin að íslensku. Þetta er vandasamt einkum vegna þess að meðferð fornra nafna verður óreiðukennd og ruglingsleg ef ekki er fylgt eftir neinni reglu við umritun nafna.
Almenna reglan
[breyta | breyta frumkóða]Almenna reglan sem íslenskir fornfræðingar og íslenskufræðingar hafa komið sér saman um[1] varðandi meðferð fornra nafna er sú að æskilegt sé að halda rithætti á nöfnum fornmanna (eins og annarra) eins nálægt þeirra eigin rithætti og kostur er. Þetta þýðir að fylgja skal eftir tiltölulega einföldum reglum um umritun grískra stafa til þess að hægt sé að rita grísk nöfn eins og þau eru skrifuð á grísku með íslensku stafrófi, og rita skal latnesk nöfn eins og þau eru rituð á latínu.
Í erlendum málum, svo sem ensku, frönsku, þýsku og ítölsku sem og í norðurlandamálunum, norsku, sænsku og dönsku og fleiri málum hafa myndast hefðir og venjur um meðferð einstakra nafna. Nöfnin eru oft stytt eða þeim breytt til að laga þau að hverju máli fyrir sig. Vandinn við þessa aðferð er einkum sá að ekki er hægt að fylgja neinni einfaldri reglu um þessar nafnabreytingar. Ekki er mælt með þessari aðferð á íslensku.
Grísk nöfn
[breyta | breyta frumkóða]Grískir stafkrókar
[breyta | breyta frumkóða]Í umritun grískra stafa gilda eftirfarandi reglur
- Alfa = a.
- Beta = b.
- Gamma = g - Athuga: tvö gamma = ng, gamma og kappa eða gamma og kí = nk og gamma og xí = nx.
- Delta = d.
- E psílon = e.
- Zeta = z.
- Eta = e.
- Þeta = þ eða t - Ávallt er ritað þ í upphafi orða en ýmist þ eða t inni í orðum.
- Jóta = i, í eða j - Oftast er ritað í á undan sérhljóða en annars i nema e.t.v. í áhersluatkvæðum; j er ritað í undantekningartilfellum, einkum í upphafi orða.
- Kappa = k.
- Lambda = l.
- Mí = m.
- Ní = n.
- Xí = x.
- Omíkron = o eða ó - Mælt er með því að rita o fremur en ó nema e.t.v. í áhersluatkvæðum.
- Pí = p.
- Hró = r - Ef áblástur er á hróinu í grískunni er það ýmist ritað eða ekki á íslensku og ýmist á undan eða eftir r, þ.e. hr eða rh.
- Sigma = s.
- Tá = t.
- Y psílon = y eða ý - Mælt er með því að rita y fremur en ý nema e.t.v. í áhersluatkvæðum. Stundum hefur y psílon verið umritað i eða í en ekki er mælt með því.
- Fí = f.
- Kí = k eða kk - Í upphafi orða er ritað k en kk á milli tveggja samhljóða inni í orðum, annars k.
- Psí = ps.
- Ómega = o eða ó - Mælt er með því að rita o fremur en ó nema e.t.v. í áhersluatkvæðum.
Tvíhljóðar:
- Alfa og jóta = æ eða aj - Rita skal aj á undan sérhljóðum nema i annars skal rita æ.
- Alfa og y psílon = á.
- E psílon og jóta = ei.
- Omíkron og jóta = oj eða ö - Rita skal oj nema þar sem föst venja er að rita ö.
- Omíkron og y psílon = ú.
- E psílon og y psílon = ev.
- Eta og y psílon = ev.
- Y psílon og jóta = ýj.
Athugasemdir um meðferð grískra nafna
[breyta | breyta frumkóða]Þegar Rómverjar rituðu grísk nöfn með sínu letri löguðu þeir nöfnin að latínu. Þannig hafa grísk nöfn síðan borist inn í ensku. Platon varð t.a.m. Plato á latínu og heitir það enn á ensku og ýmsum öðrum málum og á sama hátt varð Epikúros að Epicurus á latínu og heitir það enn á ensku og ýmsum öðrum málum. Á íslensku skal hins vegar rita Platon og Epikúros samkvæmt reglum um umritun grískra stafa. Í öðrum tilfellum hefur enskan þegið í arf nafnabreytingar frá öðrum málum, svo sem frönsku og þýsku. Þannig er t.d. talað um skáldið Hesiod á ensku (Hesiodus á latínu) en Hesíodos á íslensku.
Undantekningar eru frá reglunum á íslensku eins og í öðrum málum. Skapast hefur föst venja um ritun nokkurra nafna, t.d. Hómer og Esóp (sem með réttu ættu að heita Hómeros og Æsópos á íslensku). Rétt er að hafa í huga að þetta eru undantekningar en ekki reglan. Ef eins væri farið með önnur grísk nöfn ætti skáldið Æskýlos t.d. að heita Eskýl á íslensku. Ekki er mælt með nafnabreytingum af þessu tagi enda þótt lítið sé hægt að gera þegar hefðin hefur náð tökum á nafni eins og t.d. nafni Hómers.
Að lokum er rétt að geta þess að fyrir endinguna -eus í grísku (t.d. Perseus, Þeseus, Zeus) hefur verið notuð endingin -eifur á íslensku (sbr. Perseifur, Þeseifur og Seifur).
Latnesk nöfn
[breyta | breyta frumkóða]Ekki þarf að umrita latnesk nöfn líkt og grísk nöfn. Auðvelt er að fylgja meginreglunni og rita latnesk nöfn á íslensku eins og þau eru rituð á frummálinu. Stundum fer vel á því að hafa broddstafi í áhersluatkvæðum en mælt er með því að hafa fjölda broddstafa í lágmarki.
Undantekningin frá reglunni um meðferð latneskra nafna er tvíhljóðinn au sem er oft umritaður á á íslensku. sbr. Ágústus, Ágústínus og Markús Árelíus. Þá er ae í latínu stundum ritað æ á íslensku.
Nokkur tilhneiging ríkir til þess að rita k eða s á íslensku í stað c á latínu, t.d. Kató, Kalígúla og Seneka í stað Cató, Calígúla og Seneca og Sesar og jafnvel Síseró í stað Caesar og Cíceró. Þetta skal forðast, enda er engin þörf á breytingu þar sem alsiða er að rita erlend (nútíma) nöfn á íslensku með c (t.d. er ritað Bill Clinton en ekki Bill Klinton).
Fastar venjur hafa myndast um ritun nokkurra latneskra nafna líkt og grískra nafna. Þannig heitir skáldið Vergilíus Virgill á íslensku og Eneas í Eneasarkviðu Virgils heitir ekki Æneas eins og hann ætti að heita samkvæmt reglunni. Ekki er mælt með frekari breytingum í þessa átt. Þótt einhver hafi heyrt getið um skáldin Hóras og Óvíd eru þau samt sem áður nægilega óþekkt til þess að fullyrða megi að ekki sé föst venja að nota styttar útgáfur nafna þeirra. Deila má um hvort föst venja sé að rita Sesar en Cíceró er útgefinn höfundur á íslensku og líklegt þykir að þegar Caesar verður þýddur verði nafn hans ekki ritað Sesar úr því að nafni Cícerós var ekki breytt. Auk þess er nú þegar víða ritað Caesar á íslensku og því æskilegra að halda þeim rithætti.
Sum latnesk nöfn, líkt og grísk nöfn, eru endingarlaus í ensku og öðrum málum, t.d. Sallust, Ovid og mörg fleiri. Þessi nöfn hafa eigi að síður upprunalega endingu sína á íslensku, þ.e. Sallústíus og Óvidíus.
Nokkrar þumalfingursreglur
[breyta | breyta frumkóða]- Grísk nöfn sem enda á -o í latínu (og þar með á ensku), svo sem Plato og Zeno, enda á -on (eða ón) í grísku (og þar með á íslensku), þ.e. Platon og Zenon; Latnesk nöfn sem enda á -o enda hins vegar einnig á -o (eða ó) í íslensku, t.d. Cató.
- Grísk nöfn sem enda á -um í latínu (og þar með á ensku), svo sem Byzantium og Pergamum, enda á -on í grísku (og þar með á íslensku), þ.e. Býzantíon og Pergamon.
- Grísk nöfn sem enda á -us í latínu (og þar með á ensku), svo sem Lucianus, Herakleitus og Theophrastus, enda á -os í grísku (og þar með á íslensku), þ.e. Lúkíanos, Herakleitos og Þeófrastos; Latnesk nöfn sem enda á -us enda hins vegar einnig á -us á íslensku, t.d. Trajanus og Hadríanus.
- Grísk nöfn sem enda á -eus í latínu (og þar með á ensku), svo sem Perseus, Theseus, Zeus, Prometheus og Epimetheus, enda á -eifur á íslensku, þ.e. Perseifur, Þeseifur, Seifur, Prómeþeifur og Epimeþeifur.
- Grísk nöfn sem enda á -ander í latínu (og þar með á ensku), svo sem Anaximander og Menander, enda á -andros í grísku (og þar með á íslensku), þ.e. Anaxímandros og Menandros.
- Grísk kvenmannsnöfn sem enda á -e í grísku enda gjarnan á -a í íslensku, svo sem Helena.
- Grísk orð sem eru rituð með -ch- í latínu (og þar með á ensku) eru rituð með stafnum kí á grísku. Um umritun kí á íslensku, sjá kafla um gríska stafkróka hér að ofan.
- Grísk orð sem eru rituð með -ph- í latínu (og þar með á ensku) eru rituð með stafnum fí á grísku. Um umritun fí á íslensku, sjá kafla um gríska stafkróka hér að ofan.
- Grísk orð sem eru rituð með -th- í latínu (og þar með á ensku) eru rituð með stafnum þeta á grísku. Um umritun þetu á íslensku, sjá kafla um gríska stafkróka hér að ofan.
- Latnesk karlmannsnöfn sem enda á -a beygjast eins og karlmannsnafnið Sturla á íslensku. Dæmi: Súlla, en hermenn Súllu (ef.), Catilína (nf.), en samsæri Catilínu (ef.), Seneca (nf.), en ritverk Senecu (ef.)
Ekki er alltaf ljóst hvort menn eigi að teljast Grikkir eða Rómverjar. Rómverska heimsveldið náði yfir gríðarlega stórt svæði og innan þess bjuggu og störfuðu menn af ýmsum þjóðernum og sem töluðu ýmis mál önnur en grísku eða latínu. Um forna rithöfunda skal fylgja þeirri reglu að hafi viðkomandi ritað á grísku, þá er farið með nafn hans eins og grískt nafn, en hafi viðkomandi ritað á latínu skal fara með nafnið sem latneskt nafn. Lúkíanos var til að mynda Sýrlendingur sem ritaði á grísku og því er farið með nafn hans eins og nafn Grikkja. Sagnaritarinn Pólýbíos ritaði um sögu Rómar en á grísku og því er farið með nafn hans líkt og grísk nöfn. Undantekningin frá þessari reglu er Markús Árelíus sem heldur latneskum einkennum nafns síns þrátt fyrir að hafa skrifað á grísku.
Neðanmálsgreinar
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Sjá Jón Sveinbjörnsson, Kristján Árnason, Svavar Hrafn Svavarsson, Veturliða Óskarsson og Þorstein Þorsteinsson, „Leiðbeinandi reglur um umritun úr gríska stafrófinu“, í Málfregnum 14 (1997): 2-7.