Thomas Reid
Vestræn heimspeki Heimspeki 18. aldar | |
---|---|
Nafn: | Thomas Reid |
Fæddur: | 26. apríl 1710 (Strachan í Kincardineshire á Skotlandi) |
Látinn: | 7. október 1796 (86 ára) (í Glasgow á Skotlandi) |
Skóli/hefð: | Hin skoska heimspeki heilbrigðrar skynsemi, Skoska upplýsingin |
Helstu ritverk: | An Inquiry Into the Human Mind on the Principles of Common Sense; Essays on the Intellectual Powers of Man; Essays on the Active Powers of Man |
Helstu viðfangsefni: | frumspeki, þekkingarfræði, hugspeki, siðfræði |
Markverðar hugmyndir: | heilbrigð skynsemi sem undirstaða heimspekinnar, ómiðluð hluthyggja |
Áhrifavaldar: | David Hume, Tómas frá Akvínó, Cíceró, George Berkeley |
Hafði áhrif á: | Victor Cousin, C.S. Peirce, G.E. Moore, William Alston, Alvin Plantinga |
Thomas Reid (26. apríl 1710 – 7. október 1796) var skoskur heimspekingur og einn af upphafsmönnum hinnar skosku heimspeki heilbrigðrar skynsemi og einn mikilvægasti hugsuður skosku upplýsingarinnar. Hann brautskráðist frá Aberdeen-háskóla. Hann fékk prófessorsstöðu á King's College í Aberdeen árið 1752, þar sem hann samdi An Inquiry Into the Human Mind on the Principles of Common Sense (1764). Stuttu síðar var honum boðin prófessorsstaða við Glasgow-háskóla þar sem hann leysti af hólmi Adam Smith. Hann sagði stöðunni lausri árið 1781.
Á sínum tíma og allt fram á 19. öld var Reid talinn mikilvægari hugsuður en Hume. Hann var málsvari ómiðlaðrar hluthyggju og var rammur andstæðingur kenningar Johns Locke um hugmyndir og hulu skynjunar, og Renés Descartes, og flestra nýaldarheimspekinga sem fylgdu í kjölfar þeirra. Hann var mikill aðdáandi Humes, sem hann bað um að lesa yfir fyrstu drög að riti sínu An Inquiry Into the Human Mind on the Principles of Common Sense.
Heimspeki
[breyta | breyta frumkóða]Reid taldi að heilbrigð skynsemi (í sérstökum heimspekilegum skilningi) væri, eða ætti að minnsta kosti að vera, grunnurinn að allri ástundun heimspekinnar. Hann var ósammála Hume og Berkeley, sem töldu að fólk upplifði ekki efnisheiminn eða hugann annaðhvort með skynreynslu eða sem hugmyndir. Reid hélt því fram að heilbrigð skynsemi segði okkur að efnisheimurinn og hugurinn séu til.
Þekkingarfræði Reids hafði mikil áhrif á siðfræði hans. Hann áleit þekkingarfræðina vera eins konar inngang að hagnýttri siðfræði: Þegar við höfum fengið staðfestingu á hversdagslegum skoðunum okkar í heimspekinni, þá þurfum við einungis að haga okkur samkvæmt þeim af því að við vitum hvað er rétt. Siðfræði hans minnir á stóuspeki (einkum rómversku höfundanna) og túlkun skólaspekinnar, Tómasar frá Akvínó og kristninnar á henni. Reid vitnar oft í Cíceró, þaðan sem hann fékk hugtakið sensus communis.
Arfleifð
[breyta | breyta frumkóða]Orðspor Reids dalaði eftir árásir Immanuels Kant og Johns Stuarts Mill á hina skosku heimspeki heilbrigðrar skynsemi en heimspeki hans var áfram kennd í skólum í Norður-Ameríku á 19. öld og hafði mikil áhrif á franska heimspekinginn Victor Cousin. Reid hafði mikil áhrif á bandaríska heimspekinginn C.S. Peirce, sem líkt og Reid mat mikils þátt heilbrigðrar skynsemi í ástundun heimspekinnar. Peirce taldi að ekki væri hægt að komast nær sannleikanum en með samkomulagi milljóna manna um að einhverju sé háttað einhvern veginn. Reid fór að verða mikils metinn á ný þegar heimspeki heilbrigðrar skynsemi var endurvakin sem heimspekileg aðferðafræði og mælikvarði af G.E. Moore snemma á 20. öld.
Helstu ritverk Reids
[breyta | breyta frumkóða]- An Inquiry Into the Human Mind on the Principles of Common Sense (1764)
- Essays on the Intellectual Powers of Man (1785)
- Essays on the Active Powers of Man (1788)