Styrja (tegund)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Styrja
Acipenser sturio Linnaeus
Acipenser sturio Linnaeus
Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Geisluggar (Actinopterygii)
Undirflokkur: Brjóskgljáfiskar (Chondrostei)
Ættbálkur: Styrjur (Acispenseriformes)
Ætt: Styrjuætt (Acipenseridae)
Ættkvísl: Styrja (Acipenser)
Tegund:
Styrja (Acipenser sturio)

Tvínefni
Acipenser sturio
Linnaeus, 1758

Styrja (fræðiheiti: Acipenser sturio Linnaeus) er fiskur af ættkvísl styrja.

Lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Styrjan er stór fiskur; tíðast er hún 1-2 m, en 3 m langir eða enn lengri fiskar fást stundum, jafnvel 6 m og við Hamborg veiddist árið 1883 styrja, sem var 415,5 kg; annars vegur hún undir eða kringum 100 kg. Hún er all-einkennileg að útliti, nokkuð jafnbola og rennileg, fimmstrend. Höfuðið er langt, jafnmjókkandi fram í mjóa, hálfsívala trjónu, sem neðan á sér ber 4 all-langa skeggþræði í þverröð. Munnurinn er lítill, hálfmánalagaður, þegar hann er lokaður, en getur skotið "vörunum" út, svo að úr þeim verður stuttur stútur, með skörðóttum, mjúkum röndum. Augun eru smá og góðan kipp fyrir framan munninn. Á brynplötum höfuðsins eru ýmsir lágir hryggir eða stjörnugárar út frá miðri plötu. Tálknaopin eru mjög við. Bolurinn er mjög langur, tvöfalt lengri en höfuðið, stirtlan mun styttri og beygist upp á við og út í efra horn sporðsins. Bakuggi og raufaruggi eru stuttir, og byrjar raufarugginn yfir raufinni. Sporðurinn er vel þroskaður skásporður, með hvössum hornum. Eyruggarrnir eru fast frammi við höfuð, kviðuggarnir rétt fyrir framan raufina. Bakplöturnar eru 9-13 að tölu í röð frá höfði að bakugga; hliðarplöturnar eru 24-40 í hverri röð og ná alla leið að sporði; kviðplöturnar eru 8-14 í röð hvorum megin, milli eyrugga og kviðugga. Yfirleitt eru allar þessar plötur líkar að útliti, með lágum toppi og gárum út frá honum í allar áttir (geislagáróttar); beinörðurnar milli plöturaðanna hafa tiðast svipað yfirborð og plöturnar. Liturinn er blágrár eða grænleitur að ofan, ljósgrár á hliðum og hvítur á kviði[1].

Bakuggi er með 30-44 uggageislum, raufaruggi er með 23-31 geislum. Sporðuggi er með 26-35 geislum á bolliði og 80-125 geislum á stirtluliði. Það eru 36-45 uggageislar á eyrugga og 26-34 geislar á kviðugga[1].

Heimkynni[breyta | breyta frumkóða]

Heimkynni styrjunnar voru mjög víðáttumikil. Aðalheimkynni hennar við Evrópu voru Miðjarðarhaf, að Adríahafi meðtöldu og fljót þau, en í Svartahafi var hún ekki; við Vesturströnd Frakklands og í fljótum þess og fljótum sem falla í Norðursjó að sunnan, var hún tíð, og fremur sjaldséð við Bretlandseyjar. Í sunnanverðu Eystrasalti var hún tíð og í fljótum þess, allt norður í Helsingjabotn og út í Kattegat. Við Noregsstrendur varð hennar tíðast vart milli Stafangursfjarðar og Þrándheimsfjarðar, en sést þó allt austur fyrir Nordkapp[1].

Nú eru heimkynnin styrjunnar aðallega í Miðjarðarhafi og Svartahafi og er hún orðin sjaldgæf þar líka. Hún er að nokkru leiti ennþá í Biskajaflóa, í Norðursjó og Eysrarsalti, umhverfis Bretlandseyjar og við Noreg. Hún hrygndi áður fyrr í ánum Saxelfi og Rín í Þýskalandi og Tempsá í Englandi. Aðalstyrjustofnanir voru í ánum Guadalquivir á Spáni, Garonne í Frakklandi og Ladogavatni í Rússlandi. Styrjan hefur viða flæmst burt, meðal annars vegna mengunar í ám[2].

Þó að ekki sé ólíklegt, að styrjan hefur komst áður við Ísland af og til, þá hefir hún þó ekki sést nema örfáum sinnum[1][2].

Lífshættir[breyta | breyta frumkóða]

Styrjan hagar sér líkt og laxinn; hún gengur upp í ár til þess að hrygna, en leitar sér einkum fæðu í sjónum. Hún nærist í ormum, krabbadýrum, lindýrum, skordýrum og ýmsum rotandi efnum; einstaka sinnum tekur hún fiska, einkum sandsíli, og eftir þessu að dæmi lifir hún við botninn og það á nokkurra tuga metra dýpi. Annars er lítið kunnugt um hætti hennar í sjónum; en víst er það, að hún flakkar víða með ströndum og virðist stundum fara langt út frá löndum, eins og þegar hún kemst alla leið til Íslands.

Þegar styrjan er orðin 1-1,5 m löng, í mars-apríl til júni-ágúst fer hún að ganga inn í lón og árósa að hrygna. Hængar verða kynþroska 7-9 ára og 110-150 cm langir, en hrygnur 8-10 ára og 120-180 cm langar. Hún gengur oft langt upp í fljótin, en velur sér þó tíðast gotstöðvar neðarlega í þeim, á hörðum botni, einkum í fljótum, sem kvíslast út í lón með sjóblönduðu vatni. Eggjafjöldinn er afar mikill, 800-2400 þús., og ber því meira á þeim, sem eru líka all-stór, 2 mm í hrogninu og nærri 3 mm í vatninu. Þau festast við botninn og eru mjög eftirsótt að öðrum fiskum, t.d. af álnum, sem hefir jafnvel verið staðinn að því að smjúga inn í eggjagöng hrygnunnar, til þess að ná í ógotin egg í sjálfu eggjakerfinu. Eftir hrygningu hverfa fullorðnu fiskarnir til sjávar.

Eggin klekjast á 3-4 dögum. Seiðin eru um 1 cm, nýklakin, og eftir mánaðartíma eru þau orðin 2 cm og leita að líkindum yfirleitt fljótt til sjávar, þó að sum dvelji nokkuð lengi í fljótunum. Seiðin vaxa mjög fljótt og séu orðin um 40 cm, þegar þau eru ársgömul, en í árnar gengur hinn ungi fiskur ekki, hann heldur sig í sjó næstu 7-14 árin, fyrr en hann fer að hrygna[1][2].

Nytsemi[breyta | breyta frumkóða]

Styrjan var mjög nytsamur fiskur og styrjuveiðar höfðu þvi verið stundaðar mikið, þar sem svo hefði til hagað, bæði í Evrópu og Ameríku, en nú er hún orðin víða mjög sjaldgæf, sökum of mikillar veiði og mengunnar ána. Menn höfðu reynt, bæði í Þýskalandi og Ameríku, að klekja styrjuhrognum, en það er ýmsum erfiðleikum bundið, sem hafði gert árangurinn lítinn.

Styrjan var mest borðuð reykt; svo var gert kavíar úr hrognunum; til þess voru þau pressuð í gegnum sérstakar síur og losuð við æðar og himnur, og svo söltuð. Úr insta lagi sundmagans var verkað gelatín, sem var kallað í gamla daga "húsblas" (úr þýska orðinu Hausenblase, sem merkir sundmaga (Blase) úr styrjutegund, sem er á þýsku nefnd Hausen - Huso huso). Unnið var ódýrt lím úr roðinu og lýsi úr lifur[1].

Nú er bannað að veiða styrju í mörgum löndum Evrópu út að því að hún er í mikilli útrýmingarhættu.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 Bjarni Sæmundsson (1926). Íslensk dýr I. Fiskarnir (Pisces Islandiæ). Reykjavík: Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar. bls. 445-448.
  2. 2,0 2,1 2,2 Gunnar Jónsson; Jónbjörn Pálsson (2013). Íslenskir fiskar. Reykjavík: Mál og menning. bls. 114-115. ISBN 978-9979-3-3369-2.