Spirou et la Gorgone bleue
Spirou et la Gorgone bleue (Íslenska Svalur og bláa gorgónan) er sautjánda bókin í ritröðinni Sérstakt ævintýri um Sval... (franska Série Le Spirou de…) þar sem ýmsir listamenn fá að spreyta sig á að semja ævintýri um Sval og Val, sem þó teljast ekki hluti hinnar opinberu ritraðar. Bókin kom út árið 2023. Handritshöfundur sögunnar var Frakkinn Yann en Belginn Dany teiknaði. Bókin hefur enn ekki komið út á íslensku.
Síðla árs 2024 hætti Dupuis-forlagið sölu hinnar frönsku útgáfu bókarinnar í kjölfar útbreiddra færslna á samfélagsmiðlinum TikTok þar sem því var haldið fram að í henni væri að finna kynþátta- og kvenhatur.[1]
Söguþráður
[breyta | breyta frumkóða]Svalur og Valur snúa aftur til Evrópu eftir átján mánaða dvöl í Palombíu, þar sem þeir uppgötvuðu nýja dýrategund sem virðist fremur ófrýnileg og silaleg útgáfa af gormdýrinu. Fregnirnar af hinni nýju dýrategund falla algjörlega í skuggann af hvarfi ofurfyrirsætunnar Löru MacBurgy. Lara MacBurgy, sem réttu nafni heitir Coralie Blaukoff er andlit hamborgarakeðjunnar MacBurgy og unnusta milljarðamæringsins Simon Santo, eiganda hennar og einhvers alræmdasta umhverfissóða á jarðríki.
Í ljós kemur að hópur íturvaxinna umhverfishryðjuverkakvenna í aðskornum bláum latexbúningum hafa rænt Löru. Þær lúta stjórn hinnar dularfullu og grímuklæddu Bláu gorgónu, en nafnið og útlit hópsins vísa til gorgónanna í grískri goðafræði. Samtökin höfðu til þessa látið nægja sakleysislegri uppákomur, á borð við að ráðast inn á hamborgarastaði og spreyja slagorð gegn óhollum skyndibitum og náttúruspjöllum, við miklar vinsældir ungmenna á samfélagsmiðlum, en nú var aukin alvara hlaupin í leikinn. Í myndbandi frá Bláu gorgónunni er upplýst að lausnargjald Löru MacBurgy nemi milljarði Bandaríkjadala.
Hinn kaldrifjaði Simon Santo harðneitar að láta undan kröfum hryðjuverkakvenna en nýtir sér ránið á unnustu sinni til að selja fleiri hamborgara. Þeir Svalur og Valur fá hringingu frá vinkonu sinni, rannsóknarblaðamanninum Bitlu sem tekist hafði að slást í hóp með Bláu gorgónunum. Hún fræðir þá á að Sveppagreifinn sé hinn fjárhagslegi bakhjarl hópsins, en hann reynist hafa stórgrætt á sölu á kynörvandi lyfi fyrir karlmenn.
Útsendarar CIA hlera fund Bitlu og þeirra félaga, en stofnunin hyggst ráða niðurlögum hryðjuverkahópsins. Svalur og Valur eru þess fullvissir að Bláu gorgónurnar hyggist næst ræna Simon Santo og reyna að koma í veg fyrir það, en fulltrúar CIA mæta á svæðið á síðustu stundu og gefa þeim deyfilyf. Svalur og Valur vakna aftur til lífsins um borð í leynilegu flugmóðurskipi Bandaríkjahers sem leitar að hinum leyndu höfuðstöðvum Bláu gorgónanna. Þær reynast fela sig í kafbáti undir ógnarstórum fljótandi ruslahaug í hafinu, sem kallaður hefur verið Sjöunda heimsálfan.
Svalur, Valur og gullfallegur CIA-fulltrúi valda sprengingu í kafbátinum sem neyðir stúlkurnar í hryðjuverkahópnum upp á yfirborðið þar sem þær eru handsamaðar af Bandaríkjaher - allar nema forsprakkinn sjálfur: Bláa gorgónan. Svalur og Valur fara niður í sökkvandi kafbátinn til að bjarga Bitlu sem þar var eftir. Þeir finna hana og saman afráða þau að bjarga Löru MacBurgy, sem tekst - en í leiðinni uppgötva þau Sveppagreifann sem verið hafði í fangaklefa um borð. Þau sleppa uppúr kafbátinum og um borð í flugmóðurskipið skömmu áður en hann springur í tætlur, væntanlega með Bláu gorgónuna um borð.
Bandarísk stjórnvöld sýna félögunum þakklæti sitt með því að bjóða þeim í frí á sólarströnd, þar sem Sveppagreifinn leysir loks frá skjóðunni. Hann hafði með vísindatilraunum sínum nokkru fyrr þróað marglyttu sem nærðist á plastmengun. Tilraunir til að vekja athygli peningamanna á uppfinningunni höfðu engu skilað þar til Simon Santo kom til skjalanna, en í stað þess að nýta hana til að takast á við mengunarvanda heimsins kaus Santo að stela einkaleyfinu og lét nægja að markaðssetja marglyttuna sem saklaust gæludýr til að selja meira af hamborgurum sínum.
Í hefndarskyni ákvað Sveppagreifinn að kosta umhverfishryðjuverkahópinn til að kenna fyrirtækjum Santo lexíu. Þegar fregnir bárust af mannráninu var honum þó nóg boðið, hótaði að fletta ofan af hópnum en var fyrir vikið tekinn höndum. Það sem Sveppagreifinn vissi þó einn manna var að Lara MacBurger og Bláa gorgónan væru ein og sama manneskjan!
Vonir félaganna um að umhverfisfanturinn Simon Santo fengi makleg málagjöld fóru út um þúfur þegar honum tókst að slá sig til riddara sem mikinn málsvara náttúruverndar, undir slagorðinu „gerum náttúruna frábæra á ný!“, með því að kynna til sögunnar nýja og endurbætta plastétandi marglyttu - sem virtist þó aðeins leiða af sér hálfu verri umhverfisspjöll.
Fróðleiksmolar
[breyta | breyta frumkóða]- Donald Trump er augljós fyrirmynd Simon Santo bæði hvað varðar útlit og atferli.
- Dany er einn af þekktari og farsælli höfundum belgísku myndasögunnar. Verk hans hafa flest sterka kynferðislega undirtóna, með léttklæddum kvenkyns persónum. Óvenju mikið hold sést í bókinni miðað við það sem gerist og gengur í Svals & Vals-sögum.
- Sagan hefur sterkan samfélagslegan brodd þar sem tekist er á við ýmis álitamál, s.s. varðandi pólitískar baráttuaðferðir. Valur er fulltrúi íhaldssemi og karlrembu, en Svalur hefur samúð með því að grípa þurfi til róttækra aðgerða til að vernda náttúruna. Engar persónur sögunnar eru þó algóðar, heldur er hræsni þeirra allra afhjúpuð - jafnt yfirvalda, fjölmiðla og umhverfisverndarsinna.
- Spirou et la Gorgone bleue er fimmta bókin í hliðarsagnaflokki Svals & Vals sem Yann kemur að sem höfundur eða teiknari. Hann kom einnig að gerð einnar bókar í opinbera bókaflokknum, Rætur Z.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Le Monde: Une histoire de Spirou retirée de la vente après des accusations de racisme“ (franska). 1. nóvember 2024. Sótt 5. nóvember 2024.