Fara í innihald

Rush Limbaugh

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Rush Limbaugh
Rush Limbaugh árið 2019.
Fæddur
Rush Hudson Limbaugh III

12. janúar 1951
Dáinn17. febrúar 2021 (70 ára)
Palm Beach, Flórída, Bandaríkjunum
DánarorsökLungnakrabbamein
StörfÚtvarpsmaður, stjórnmálarýnir, rithöfundur
Vefsíðawww.rushlimbaugh.com/

Rush Hudson Limbaugh III (12. janúar 1951 – 17. febrúar 2021) var bandarískur, hægrisinnaður útvarpsmaður, stjórnmálarýnir og jafnframt áhrifavaldur meðal íhaldsmanna í bandarískum stjórnmálum. Limbaugh var harður gagnrýnandi á stefnur Demókrataflokksins og hafði í seinni tíð orðið andlit Repúblikanaflokksins. Hann stýrði vinsælasta umræðuþætti í bandarísku útvarpi, The Rush Limbaugh Show, en þátturinn hafði verið í loftinu síðan 1988.

Limbaugh er fæddur í Cape Girardeau í Missourifylki Bandaríkjanna. Hann tók sín fyrstu skref í útvarpi ungur að aldri en einungis 16 ára gamall fékk hann sitt fyrsta starf í útvarpi og kallaði sig þá Rusty Sharpe.[1][2] Faðir, föðurbróðir og afi Limbaugh voru allir lögfræðingar og áhrifamiklir í Missouri, því var vænst af Limbaugh að hann myndi mennta sig. Limbaugh sótti Ríkisháskóla Suð-austur Missouri í tvær annir en hætti síðan í námi. Að sögn móður hans hafði hann fallið í öllu þar sem að hann hafði ekki áhuga á neinu öðru en útvarpi.[1][3]

Ferill í útvarpi

[breyta | breyta frumkóða]

Á áttunda áratugnum vann Limbaugh hjá hinum ýmsu útvarpsstöðvum, fyrst í Pennsylvaníu og síðar í Kansas. Á þeim tíma var Limbaugh ekki spjallþáttarstjórnandi heldur einfaldlega plötusnúður og kom fram lengi vel undir nafninu Jeff Christie. Undir lok áratugarins sagði hann skilið við útvarp og tók við stöðu kynningarstjóra hjá hafnaboltaliðinu Kansas City Royals og var hann þar til fimm ára fram undir miðbik níunda áratugarins.

Árið 1984 snéri Limbaugh sér aftur að útvarpi og þremur árum síðar í Sacramento, árið 1987, áttu sér stað þáttaskil í ferli hans. Þá fór í gegn ógilding laga sem skikkaði útvarpsstöðvar, sem útvörpuðu umdeildum sjónarmiðum, til þess að veita andstæðingum þessara umdeildu sjónarmiða möguleika til andsvara á útvarpsstöðinni. Þegar þessi löggjöf hafði gengið tilbaka var Limbaugh fyrstur til þess að nýta sér það. Limbaugh, með hinum ýmsu ummælum sínum, vakti áhuga forseta ABC Radio í New York. Limbaugh fluttist til New York og fór hann í loftið stuttu eftir Landsþing demókrata 1988. Þar með varð til útvarpsþáttur Limbaugh, The Rush Limbaugh Show, og hefur New York verið heimili þáttarins allar götur síðan. Þættinum var úvarpað á AM bylgjum, en vert er að benda á að á þessum tíma voru útvarpsstöðvar farnar að færa sig yfir á FM bylgjur þar sem slíkt bauð upp á betri hljóðgæði. FM tæknin er dýrari en hljóðgæði eru betri, sérstaklega þegar hlustað er á tónlist. Munurinn á hljóðgæðum milli útsendingatæknanna tveggja er hinsvegar ekki jafn eftirtektarverður þegar einungis er útvarpað tali og þar sem að þátturinn hjá Limbaugh var einungis spjallþáttur var ákveðið að færa sig ekki yfir á FM bylgjur. Þetta hefur veitt fjölmörgum öðrum þáttarstjórnendum brautargengi á AM bylgjum og er þetta ein ástæðan fyrir því hve mikið af íhaldssömum spjallþáttastjórnendum útvarpa á AM bylgjum.

Áhrifavaldur í Bandarískum stjórnmálum

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1990 var þátturinn orðinn vinsælasti spjallþátturinn í bandarísku útvarpi. Þættinum óx enn ásmegin á næstu misserum samfara því að Persaflóastríðið átti sér stað, en Limbaugh studdi það heilshugar í þætti sínum og gerði óspart grín að friðarsinnum. Í kjölfar þess að Bill Clinton sigraði forsetakosningarnar 1992 í Bandaríkjunum varð Clinton síðan skotspónn Limbaugh. Gagnrýni Limbaugh á Clinton og Demókrataflokkinn í heild sinni er talið hafa haft áhrif á kosningarnar á miðju kjörtímabili, 1994. Í kosningunum náðu repúblikanar meirihluta í bæði fulltrúadeild og öldungadeild Bandaríkjaþings. Þingmenn repúblikana heiðruðu Limbaugh fyrir þátt hans í Repúblikanabyltingunni (e. Republican Revolution). Þar með var staða hans sem áhrifavaldur innan Repúblikanaflokksins staðfest í fyrsta sinn.

Ræða sem Limbaugh hélt CPAC, samkomu Bandarískra íhaldsmanna snemma árs 2009 olli umtalsverðu fjaðrafoki. Þann 1. mars 2009 sagði Rahm Emanuel, þáverandi starfsmannastjóri Hvíta hússins, aðspurður að Limbaugh væri forkólfur Repúblikanaflokksins. Michael Steele formaður flokksins svaraði sama dag að Limbaugh væri einfaldlega skemmtikraftur og þau orð sem að Limbaugh hafði látið falla í ræðu sinni hafi verið ljót orð æsingamanns.[4] Steele bað síðar Limbaugh afsökunar á þeim ummælum.[5]

Umdeild atvik

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2006 sakaði Limbaugh leikarann Michael J. Fox, sem þjáist af Parkinson sjúkdómi, um að reyna að ýkja sjúkdómseinkenni sín og velti upp þeim möguleika að Fox væri vísvitandi að sleppa lyfjaskömmtun til þess að sjúkdómseinkenni væru sem mest. Fox hafði þá nýlega komið fram í auglýsingu til þess að auke meðvitund um sjúkdóminn. Vefmyndavél í hljóðveri Limbaugh sýndi hvernig Limbaugh hristi sig og lék eftir Fox. Limbaugh svaraði þeim ásökunum um að hann hafði verið að hæðast að Fox á þann veg að svo hefði ekki verið, hann hefði einfaldlega verið að reyna að sýna þeim sem höfðu verið að fylgjast með myndefninu frá vefmyndavélinni hvernig Fox hafði hreyft sig. Fox neitaði því að hafa verið að ýkja sjúkdómseinkenni og benti jafnframt á að einkennin hafi verið sérlega slæm af því að hann var á of stórum lyfjaskammti þegar að auglýsingin var tekin.[6][7]

Í aðdraganda forsetakosninganna árið 2008 hvatti Limbaugh hlustendur sína til þess að skrá sig í demókrataflokkinn til þess að geta tekið þátt í kosningum um frambjóðanda flokksins til forseta Bandaríkjanna. Hvatti hann þá til að kjósa hvern þann sem væri með minnst fylgi í skoðanakönnunum, vonaðist hann þannig til þess að skapa ringulreið innan Demókrataflokksins. Sagði hann að draumastaðan væri að skapast myndi slík ringulreið og reiði að kæmi til mótmæla og almenns uppþots. [8]

Ummæli um Eyjafjallajökul

[breyta | breyta frumkóða]

Þann 16. apríl 2010 sagði Limbaugh að eldgosið í Eyjafjallajökli gæti verið svar Guðs við að heilbrigðisfrumvarp Barack Obama Bandaríkjaforseta hafði verið samþykkt í kosningu á Bandaríkjaþingi.[9]

Limbaugh hefur gefið út tvær bækur. Sú fyrri, The Way Things Ought to Be, kom út árið 1992 og sú seinni, See, I Told You So, árið 1993. Báðar fóru bækurnar á topp metsölulista The New York Times og sat The Way Things Ought to Be á toppnum í 24 vikur. [10]

  1. 1,0 1,1 Paul D. Colford. The Rush Limbaugh story: talent on loan from God: an unauthorized biography. New York. St. Martin’s Press, 1993. ISBN 0-312-09906-1.
  2. „Rush Limbaugh Gives Sean a Rare Interview“. Fox News Channel. 19. október 2005.
  3. „Rush is Always Right.“ USA Weekend, 24 – January 26, 1992, p. 7
  4. RNC chief Steele: Limbaugh is more a performer than GOP leader, CNN, March 2, 2009
  5. „A Few Words for Michael Steele“. The Rush Limbaugh Show, Transcript. 2. mars 2009. Afrit af upprunalegu geymt þann mars 20, 2009. Sótt 23. mars 2009.
  6. Election 2004 | Pa. Sen. Specter Focuses on Stem Cell Support To Attract Moderate Voters, Distances Himself From Bush in Re-Election Campaign Geymt 18 október 2009 í Wayback Machine Henry J. Kaiser Family Foundation
  7. Michael J. Fox Fires Back at Critics ABC News
  8. „Why It's Called Operation Chaos. Transcript. RushLimbaugh.com. 23. apríl 2008. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. desember 2008. Sótt 9. nóvember 2008.
  9. Terkel, Amanda (17. apríl 2010). „Limbaugh: Volcanic eruption in Iceland is God's reaction to health care's passage“. ThinkProgress. Sótt 22. nóvember 2010.
  10. Gregory, Ted (18. ágúst 1995). „Right and wrong; Rush Limbaugh critics want to set the facts straight, but it's not easy“. Chicago Tribune.