Fara í innihald

Romelu Lukaku

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Romelu Lukaku
Upplýsingar
Fullt nafn Romelu Menama Lukaku Bolingoli
Fæðingardagur 13. maí 1993 (1993-05-13) (31 árs)
Fæðingarstaður    Antwerpen, Belgía
Hæð 1,90m
Leikstaða Framherji
Núverandi lið
Núverandi lið Inter Milan
Yngriflokkaferill
1999-2003
2003-2004
2004-2006
2006-2009
Rupel Boom
KFC Wintam
Lierse SK
RSC Anderlecht
Meistaraflokksferill1
Ár Lið Leikir (mörk)
2009-2011 RSC Anderlecht 73 (33)
2011-2014 Chelsea FC 10 (0)
2012-2013 West Bromwich Albion (lán) 35 (17)
2013-2014 Everton (lán) 31 (15)
2014-2017 Everton 110 (53)
2017-2019 Manchester United 66 (28)
2019-2021 Internazionale 69 (44)
2021- Chelsea FC 26 (8)
2022-2023 ->Internazionale (lán) 11 (2)
2023- AS Roma (lán) 0 (0)
Landsliðsferill
2008
2011
2009
2010-
Belgía U15
Belgía U18
Belgía U21
Belgía
4 (1)
1 (0)
5 (1)
101 (68)

1 Leikir með meistaraflokkum og mörk
talið í aðaldeild liðsins.

Lukaku að hita upp fyrir vináttuleik gegn Roma árið 2013.

Romelu Menama Lukaku Bolingoli (fæddur 13. maí 1993) er belgískur knattspyrnumaður sem spilar með AS Roma í láni frá Chelsea og belgíska landsliðinu. Hann hefur skorað um 360 mörk í öllum keppnum.

Ferill[breyta | breyta frumkóða]

Anderlecht[breyta | breyta frumkóða]

Lukaku spilaði sinn fyrsta leik fyrir aðallið Anderlecht 24. maí 2009 í leik gegn Standard Liège þegar hann kom inn á sem varamaður á 69. mínútu. Anderlecht tapaði leiknum 1-0. Hann skoraði sitt fyrsta mark fyrir Anderlecht gegn Zulte Waregem á 89. mínútu eftir að hafa komið inn á á 69. mínútu.

Chelsea[breyta | breyta frumkóða]

Í ágúst árið 2011 skrifaði Lukaku undir samning við Chelsea. Hann fékk treyju númer 18 og samningurinn var til fimm ára. Hann spilaði sinn fyrsta leik í 3-1 sigri gegn Norwich City, þegar hann kom inn á sem varamaður á 83. mínútu fyrir Fernando Torres. Lukaku var í fyrsta sinn í byrjunarliði Chelsea í deildarbikarleik gegn Fulham. Chelsea vann leikinn í vítaspyrnukeppni. Lukaku spilaði hins vegar aðallega í varaliði Chelsea á þessu tímabili, en þann 13. maí 2012 var hann í fyrsta skiptið í byrjunarliði Chelsea í deildinni þegar liðið tók á móti Blackburn Rovers. Lukaku var valinn maður leiksins og átti m.a. stoðsendingu á John Terry sem skoraði fyrsta mark Chelsea. Lukaku var hins vegar óánægður með hversu lítið hann fékk að spila á tímabilinu og eftir að Chelsea vann Meistaradeildina vildi hann ekki halda á bikarnum því honum leið ekki eins og sigurvegara. Þann 9. ágúst 2021 er Lukaku kynntur aftur til félagsins 10 árum eftir að hafa skrifað fyrst undir samning við félagið.

Lán til West Bromwich Albion[breyta | breyta frumkóða]

Lukaku að spila fyrir West Bromwich Albion árið 2012

Þann 10. ágúst 2012 fór Lukaku á lán West Bromwich Albion. Hann skoraði sitt fyrsta mark í deildinni átta dögum seinna, eftir að hafa komið inn á sem varamaður á 77. mínútu í 3-0 sigri á Liverpool. Hann spilaði sinn fyrsta heila leik gegn Reading þar sem hann skoraði eina mark leiksins. Þann 24. nóvember kom Lukaku inn á þegar 20 mínútur voru eftir af leik gegn Sunderland. Í þeim leik skoraði hann úr víti og átti stoðsendingu á Marc-Antoine Fortuné, en WBA vann leikinn 4-2. Þann 12. janúar skoraði hann tvisvar og kom West Bromwich Albion í 0-2 forystu gegn Reading sem komu til baka og unnu leikinn 3-2. Orðrómar fóru að ganga um það að Lukaku vildi vera hjá West Brom næsta tímabil líka en hann staðfest það hins vegar í viðtali við blaðamenn að hann vildi verða goðsögn hjá Chelsea. Lukaku kom inn á af varamennabekknum í leik gegn Liverpool þann 11. febrúar og skoraði sitt 10. mark í deildinni. Þá skoraði hann tvö mörk í heimasigri WBA gegn Sunderland, en leikurinn fór 2-1. Í leik gegn Swansea City þann 9. mars skoraði Lukaku jöfnunarmark í leik sem WBA vann. Þann 19. maí kom hann inn á sem varamaður í hálfleik gegn Manchester United og skoraði þrennu í 5-5 jafntefli. Þetta reyndist vera síðasti leikur Sir Alex Ferguson sem stjóri Manchester United. Þrátt fyrir að hafa verið lánaður frá Chelsea skoraði hann fleiri mörk nokkur annar leikmaður Chelsea í deildinni þetta tímabilið. Þá var hann 6. hæsti markaskorari tímabilsins 2012-13 með 17 mörk.

Everton[breyta | breyta frumkóða]

Lán 2013-2014[breyta | breyta frumkóða]

Lukaku virtist útiloka að fara aftur á láni næsta tímabil og spilaði tvo deildarleiki með Chelsea í byrjun tímabilsins 2013-14. Hann kom einnig inn á sem varamaður 2013 UEFA Super Cup, þar sem hann klúðraði síðustu vítaspyrnu Chelsea sem gerði það að verkum að Bayern München sigraði. Á síðasta degi félagsskiptagluggans fór hann á láni til Everton. Hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir Everton gegn West Ham 21. september 2013 þar sem hann skoraði sigurmark Everton í leik sem endaði 3-2. Þá skoraði hann tvisvar í sínum fyrsta leik á Goodison Park, heimavelli Everton, þegar þeir unnu 3-2 gegn Newcastle. Í næsta leik skoraði hann fyrsta mark leiksins gegn Manchester City en sá leikur endaði 3-1 fyrir Manchester City. Hann hélt áfram á góðu róli og skoraði í 2-0 sigri gegn Aston Villa og tvisvar gegn Liverpool FC í leik sem endaði 3-3. Þann 1. mars skoraði hann síðan eina mark leiksins í leik gegn West Ham.

2014-2017[breyta | breyta frumkóða]

Lukaku varð fastamaður í Everton tímabilið 2014-2015. Í nóvember skoraði hann tvisvar gegn Aston Villa og var fimmti leikmaður úrvalsdeildarinnar undir 23 ára aldri til að skora meira en 50 mörk. Í desember varð hann fyrsti leikmaður Everton til að skora mark í 6 leikjum í röð í úrvalsdeildinni og sá fyrsti síðan 1954 hjá félaginu til að skora í 8 leikjum í röð.

Tímabilið 2016-2017 skoraði Lukaku í einum leik þrennu á 11 mínútum og 37 sekúndum. Einnig skoraði hann fernu í 6-3 sigri gegn Bournemouth. Hann var valinn í lið ársins og hafði skorað yfir 20 mörk á þremur tímabilum með Everton. Í mars 2017 hafnaði Lukaku nýjum samningi við félagið.

Manchester United[breyta | breyta frumkóða]

Lukaku gekk til liðs við Manchester United í júlí 2017 og skrifaði undir 5 ára samning fyrir a.m.k. 75 milljón punda. Það var degi eftir að Wayne Rooney yfirgaf félagið og fór til Everton. Lukaku skoraði í fyrsta leik sínum, æfingaleik gegn Real Madrid, í 2-1 tapi. Í fyrsta úrvalsdeildarleik sínum tímabilið 2017-2018 skoraði hann tvö mörk gegn West Ham. Lukaku skoraði meira en 20 mörk á tímabilinu fjórða tímabilið í röð. Hann náði einnig þeim áfanga að skora 100 mörk í ensku úrvalsdeildinni í byrjun árs 2018. Sumarið 2019 var ákveðið að selja Lukaku til Internazionale.

Internazionale[breyta | breyta frumkóða]

Lukaku hélt til Inter Milan sumarið 2019. Honum gekk mjög vel að skora hjá félaginu. Hann vann Serie A titil með Inter tímabilið 2020-2021. Félagið neyddist til þess að selja hann síðla sumars 2021 vegna fjárhagsvandræða félagsins, stuttu eftir að framkvæmdastjóri Inter sagði að hann væri ósnertanlegur það sumar.

Chelsea[breyta | breyta frumkóða]

Lukaku hélt til Chelsea, 10 árum eftir að hann skildi við félagið. Hann varð dýrasti leikmaður heims þegar tillit var tekið til þess heildarverðs sem hann hafði verið seldur á. Lukaku skoraði í sínum fyrsta leik gegn Arsenal í endurkomunni. Lukaku missti sæti sitt í byrjunarliðinu þegar leið á tímabilið eftir deilur við Thomas Tuchel knattspyrnustjóra. Hann fór aftur til Inter í Mílanó á láni sumarið 2022.

Belgíska landsliðið[breyta | breyta frumkóða]

Lukaku og Jan Vertonghen.

Lukaku var í U-21 liði Belgíu og skoraði þar í sínum fyrsta leik gegn Slóveníu. Þann 24. febrúar var hann kallaður í aðallið Belgíu fyrir vináttuleik gegn Króatíu. Þann 17. nóvember 2010 skoraði hann sín fyrstu tvö mörk fyrir belgíska landsliðið í vináttuleik gegn Rússlandi.

Þá skoraði hann einnig í vináttuleik gegn Hollandi sem endaði 4-2 fyrir Belgíu. Þann 11. október 2013 skoraði Lukaku tvö mörk er Belgía vann Króatíu 2-1 og tryggðu sér þar með þátttökurétt á Heimsmeistaramótinu í Brasilíu 2014.

Lukaku er markahæsti landsliðsmaður Belga.


  Þessi knattspyrnugrein sem tengist æviágripi og Belgíu er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.