Fara í innihald

Raoul Wallenberg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Raoul Wallenberg
Wallenberg í júní árið 1944.
Fæddur4. ágúst 1912
Hvarf17. janúar 1945
Búdapest, Ungverjalandi
DáinnLýstur látinn af Sovétmönnum 17. júlí 1947 (34 ára)
ÞjóðerniSænskur
MenntunMichigan-háskóli
StörfViðskiptamaður, erindreki
Þekktur fyrirAð bjarga ungverskum Gyðingum í Helförinni

Raoul Gustaf Wallenberg (f. 4. ágúst 1912; horfinn árið 1945 og líklega dáinn 17. júlí 1947) var sænskur viðskiptamaður, erindreki og mannúðarvinur. Wallenberg var sérstakur sendifulltrúi Svía í Búdapest á tíma Helfararinnar í seinni heimsstyrjöldinni. Hann er frægur fyrir að hafa bjargað þúsundum ungverskra Gyðinga undan ofsóknum nasista með því að úthluta þeim sérstökum vegabréfum og veita þeim skýli í byggingum sænska sendiráðsins. Þegar her Sovétríkjanna hertók Búdapest undir lok stríðsins handtóku Sovétmenn Wallenberg og færðu hann í fangelsi. Aldrei hefur fyllilega verið upplýst um afdrif Wallenbergs en talið er að hann hafi látist í haldi Sovétmanna. Ríkisstjórn Sovétríkjanna tilkynnti síðar að Wallenberg hefði látist í Lúbjanka-fangelsinu í Moskvu þann 17. júlí 1947.

Raoul Wallenberg fæddist árið 1912. Faðir hans og Marcus Wallenberg, einn helsti iðnjöfur Svíþjóðar, voru bræðrasynir.[1] Faðir Wallenbergs var sjóliðsforingi í sænska herflotanum en hann lést þremur mánuðum áður en Raoul fæddist. Raoul Wallenberg tók stúdentspróf árið 1930 en dvaldi síðan í fjögur ár við háskólanám í Bandaríkjunum. Hann ferðaðist víðs vegar um Bandaríkin á námsárunum til að vinna fyrir sér. Eftir að hann lauk námi í byggingarlist við Michigan-háskóla sneri Wallenberg heim til Svíþjóðar og gerðist kaupmaður.[2] Wallenberg varð einn af stjórnendum sænsks fyrirtækis sem var kallað Miðevrópska verslunarfélagið. Á vegum þess ferðaðist hann mikið um Mið-Evrópu og varð sérlega kunnugur málefnum Ungverjalands.[3]

Störf í Búdapest

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1944 fór Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseti fram á það við Flóttamannaráð Bandaríkjanna að reynt yrði að hjálpa ofsóttum Gyðingum í Búdapest. Ungverjaland var í liði með Öxulveldunum í seinni heimsstyrjöldinni og því náði útrýmingarherferð nasista á Gyðingum til landsins. Hentugt þótti að Svíi yrði fenginn til starfsins og því var Wallenberg ráðinn sendiráðsritari í sænska sendiráðinu í Búdapest með það að markmiði að vera ofsóttum Gyðingum innan handar.[2]

Wallenberg mætti til starfa í Búdapest þann 9. júlí 1944. Þýskur her hafði þá sest að í borginni þar sem Hitler var farinn að vantreysta ungverskum stjórnvöldum eftir því sem gæfan var farin að snúast gegn Þjóðverjum í stríðinu. Þegar Þjóðverjar komu til borgarinnar er talið að um 400.000 Gyðingar hafi verið í borginni en þegar Wallenberg kom þangað voru aðeins um 120.000 eftir vegna nauðungarflutninga á þeim í útrýmingarbúðir í Póllandi.[3]

Sem sendiráðsritari í Búdapest lét Wallenberg prenta um 5.000 vegabréf sem heimiluðu handhöfum þeirra að flytjast til Svíþjóðar og settu þá undir verndarvæng sænskra stjórnvalda þar til þeir gætu komist frá Ungverjalandi. Wallenberg fékk ungversk stjórnvöld til að virða vegabréfin og réð Gyðinga til ýmissa hjálparstarfa á vegum sendiráðsins. Hann fékk jafnframt 32 íbúðarhús lánuð og flutti þangað Gyðingana sem höfðu fengið vegabréfum úthlutað. Sænskum fánum var flaggað við íbúðahúsin og Wallenberg og félagar hans stóðu verði við innganga þeirra.[4]

Wallenberg heimsótti jafnframt fangabúðir Gyðinga og sagðist vera þar til að kanna hvort sænskir ríkisborgarar hefðu lent þar fyrir mistök. Á meðan hann var þar laumaði hann sænskum vegabréfum til fanganna til þess að veita þeim friðhelgi. Sagt er að Wallenberg hafi jafnvel farið inn í lestarvagna sem voru að flytja Gyðinga frá Búdapest til Auschwitz til að lauma sænskum vegabréfum í vasa fólks. Talið er að með aðgerðum sínum hafi Wallenberg bjargað lífum tugþúsunda Gyðinga.[5] Undir lok styrjaldarinnar, þegar flestum Þjóðverjum var orðið ljóst að þeir myndu tapa, hótaði Wallenberg hershöfðingjanum Gerhard Schmidhuber og sagðist munu persónulega sjá til þess að hann yrði dæmdur fyrir stríðsglæpi ef hann stöðvaði ekki aftöku 70.000 Gyðinga sem taka átti af lífi í fangabúðum nasista.[6]

Athafnir Wallenbergs reittu Adolf Eichmann, sem átti að sjá um útrýmingu Gyðinga í Ungverjalandi, mjög til reiði. Bíll Wallenbergs var eyðilagður í árekstri í desember 1944 en Wallenberg var ekki í honum. Eichmann sendi honum í kjölfarið orðsendingu um að ekki yrði látið þar við sitja.[7]

Hvarf og dauði Wallenbergs

[breyta | breyta frumkóða]
Minnismerki um Wallenberg á Cumberland-torgi í London.

Her Sovétríkjanna kom til Búdapest um áramótin 1944-45. Wallenberg gaf sig fram við herflokk Sovétmanna þann 13. janúar 1945 nálægt einu af öryggishúsunum sem hann hafði sett á fót.[6] Þann 17. janúar fóru sovéskir liðsforingjar úr leyniþjónustunni NKVD með Wallenberg frá Búdapest. Wallenberg sagðist telja að leiðinni væri haldið til Debrecen á fund sovéska marskálksins Rodíons Malínovskíj en sagðist ekki vera viss hvort hann væri „gestur eða fangi Rússanna.“[7] Eftir að Wallenberg var fluttur burt tóku Sovétmenn flest starfsfólk sendiráðsins í gæsluvarðhald og héldu yfir því yfirheyrslur um starfsemi Wallenbergs.[8]

Wallenberg kom aldrei til Debrecen og aldrei heyrðist frá honum framar. Sovétmenn gáfu í fyrstu misvísandi skýringar um hvað hefði orðið um Wallenberg og létu í veðri vaka að ungverskir nasistar hefðu rænt honum á leiðinni til Debrecen. Undir lok stríðsins og árin eftir það bárust sænskum stjórnvöldum hins vegar eiðsvarnir framburðir um að Wallenberg hefði sést sem fangi í Lúbjanka-fangelsinu í Moskvu.[9]

Árið 1957 gerði sovéska stjórnin opinber leyniskjöl sem staðfestu að Wallenberg hefði verið færður í fangelsi í Moskvu. Í skjölunum var hins vegar staðhæft að Wallenberg hefði látist úr hjartaslagi í fangelsinu þann 17. júlí árið 1947. Aleksandra Kollontaj, sendiherra Sovétmanna í Stokkhólmi, hafði þegar kunngert Svíum að Wallenberg væri undir „rússneskri vernd“ árið 1945.[10]

Þrátt fyrir tilkynninguna um að Wallenberg hefði látist árið 1947 hafa lengi verið uppi efasemdir og spurningar um örlög hans. Það var ekki fyrr en árið 2016 sem Wallenberg var formlega lýstur látinn af sænskum stjórnvöldum. Áður en það var gert gaf sænska skatteftirlitið út auglýsingu þar sem Wallenberg var beðinn um að gefa sig fram. Þar sem engar nýjar upplýsingar bárust var Wallenberg lýstur látinn 31. júlí 1952.[11]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Anna Bjarnadóttir (8. apríl 1979). „Raoul Wallenberg“. Morgunblaðið. bls. 34-39.
  2. Stökkva upp til: 2,0 2,1 Jón H. Aðalsteinsson (27. febrúar 1957). „Lézt Wallenberg í Lubjanka eða er hann fangi í Síberíu?“. Morgunblaðið. bls. 9.
  3. Stökkva upp til: 3,0 3,1 „Hetjan týnda“. Dagblaðið Vísir. 29. nóvember 1986. bls. 52-53.
  4. „30.000 Gyðingar eiga Wallenberg líf sitt að launa“. Heimilistíminn. 1. nóvember 1979. bls. 6-7.
  5. Guðrún Hálfdánardóttir (24. mars 2019). „„Minnumst helfararinnar". mbl.is. Sótt 4. júní 2022.
  6. Stökkva upp til: 6,0 6,1 Kati Marton (17. janúar 1981). „Leyndardómurinn um Wallenberg“. Morgunblaðið. bls. 14-15.
  7. Stökkva upp til: 7,0 7,1 Judith Listowel (23. ágúst 1981). „Leyndardómurinn um Raoul Wallenberg“. Morgunblaðið. bls. 22-23.
  8. Anders Hasselbohm (13. september 1981). „Sovétmenn settu njósnara til höfuðs Wallenberg“. Morgunblaðið. bls. 17.
  9. Kati Marton (18. janúar 1981). „Leyndardómurinn um Wallenberg“. Morgunblaðið. bls. 22-23.
  10. „Svíarnir fórnuðu Wallenberg“. Vísir. 8. febrúar 1980. bls. 17.
  11. Atli Ísleifsson (31. október 2016). „Raoul Wallenberg loks lýstur látinn í Svíþjóð“. Vísir. Sótt 4. júní 2022.