Pálskirkjan í Frankfurt

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Pálskirkjan

Pálskirkjan í er lútersk kirkja í þýsku borginni Frankfurt am Main. Hún er þekktust fyrir að vera vettvangur fyrir þjóðfundinn mikla 1848, sem var vísir að lýðræði í Þýskalandi. Kirkjan er þjóðargersemi í dag.

Saga Pálskirkjunnar[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirrennarinn[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirrennari Pálskirkjunnar er hin svokallaða Barfüsserkirche (Berfótakirkja) sem tengdist samnefndu klaustri. Klaustrið og kirkjan eru frá 13. öld. Í siðaskiptunum 1530 varð kirkjan lútersk og hélst þannig allar götur síðan. Á 18. öld fóru fleiri og fleiri skemmdir að koma í ljós, enda var byggingin þá komin vel til ára sinna. Meðal annars varð vart við stórar sprungur í þakinu. 1782 fór síðasta guðsþjónustan fram í kirkjunni, en í kjölfarið var hún lokuð. 1787 var hún loks rifin.

Pálskirkjan[breyta | breyta frumkóða]

Mikil reikistefna var um nýbygginguna. Sitt sýndist hverjum. Loks fékk Johann Georg Hess það verkefni að reisa nýja kirkju og hófust framkvæmdir 1789. Hér er um hringlaga byggingu að ræða með lágan turn sem vísar til suðurs. Grunnmúrarnir voru komnir upp 1792, en þá stöðvuðust framkvæmdir sökum frönsku byltingarinnar. Franskur her hertók Frankfurt til skamms tíma. 1796 var þakið reist, en þá voru Frakkar aftur í borginni. Allar framkvæmdir á vegum borgarinnar voru stöðvaðar. Þó voru gluggar voru settir í kirkjuna 1803 til varnar skemmdum af völdum veðurs. Eftir fall Napoleons voru fjármunir af skornum skammti og borgarráð hafði brýnni verkefni á sinni könnu. Því var ekki tekið til við að halda smíðinni áfram fyrr en 1830. Þá voru komnar skemmdir í bygginguna. Rúður höfðu brotnað, jarðvegur hafði fokið inn og grös og jafnvel runnar byrjuðu að vaxa innan hennar. Á aðeins þremur árum tókst að ljúka smíðinni og innréttingunum. Turninn var lágreistur og fékk ekki spíruþak. Vígslan fór fram 9. júní 1833 og var kirkjan helguð Páli postula.

Þjóðþingið mikla 1848[breyta | breyta frumkóða]

Málverk af þjóðþinginu mikla 1848

Í mars 1848 var ákveðið að nýta stóra salinn í Pálskirkjunni fyrir þjóðþing sem kallað hafði verið saman í Frankfurt. Salurinn var þá tiltölulega nýr og hentugur og tók 1.200 manns í sæti. Predikunarstóllinn var hulinn, sem og altarið. Fyrir alla glugga voru settir fánar í svörtu-rauðu-gulu, en það var upphafið að þýska þjóðfánanum. 37 gaslampar voru settir upp til lýsingar. Meðan á þinginu stóð var miðstöð sett í kirkjuna, enda höfðu margir þingmanna kvartað undan kulda, sérstaklega þegar vetra tók. Þingið hófst 18. maí 1848 og sat fram á næsta ár. 27. október var sú tillaga samþykkt að sameina allt Þýskaland (þar á meðal Austurríki) í eitt stórt ríki. Samfara því var einnig samþykkt að keisarinn í Austurríki skyldi segja af sér. Tillögur þessar voru samþykktar með miklum meirihluta þingmanna, en þær strönduðu á því að fulltrúarnir frá Austurríki höfnuðu henni. Þeir hótuðu að standa utan við þýska ríkið ef hróflað væri við keisaradómi þar í landi. 3. apríl 1849 var önnur tillaga lögð fram þess eðlis að sameina beri allt Þýskaland, en Austurríki stæði fyrir utan. Þýskaland yrði aftur keisaradæmi og valinn yrði nýr keisari þar sem Austurríki yrði ekki með í dæminu. Ennfremur var lagt til að bjóða Friðrik Vilhjálmi IV, konungi Prússlands, keisaratignina. Þessar tillögur voru einnig samþykktar með miklum meirihluta þingmanna. En aftur varð ekkert úr þessu, því Friðrik Vilhjálmur afþakkaði pent. Hann sagðist ekki vilja vera keisari í þingbundinni stjórn, heldur viðhalda einveldi sínu í Prússlandi. Við svo búið leystist þjóðþingið upp. Margir fundarmenn fóru til Stuttgart og héldu fundum sínum áfram. En allt í allt stóðu menn tómhendir uppi. Það var ekki fyrr en 22 árum seinna að Bismarck tókst að sameina Þýskaland í nýtt keisaraveldi, utan Austurríkis.

Nýrri tímar[breyta | breyta frumkóða]

Minnisplatti um þjóðþingið utan á Pálskirkjunni

Eftir þjóðþingið var kirkjan gjarnan notuð fyrir sérstaka viðburði. Þar fóru fram minningarguðsþjónustur fyrir ýmsa merka menn, hátíðir og annað. Á þessum tíma varð Pálskirkjan að þjóðarhelgidómi. Í loftárásum 18. mars 1944 var Frankfurt fyrir gríðarlegum skemmdum. Þá brann Pálskirkjan, þakið hrundi og eftir stóðu aðeins útiveggir. Hún var ein af fyrstu opinberum byggingum í Frankfurt sem var endurreist, sökum þess að kirkjan var þjóðargersemi. Viðgerðir fóru fram 1947-48. Hún var endurvígð 18. maí 1948, á 100 ára opnunardegi þjóðþingsins mikla. Rithöfundurinn Fritz von Unruh hélt opnunarræðuna og hlaut hann Goetheverðlaunin fyrir. Síðan þá eru Goetheverðlaunin veitt í kirkjunni á þriggja ára fresti. Pálskirkjan er ekki lengur notuð fyrir guðsþjónustur, heldur fyrir sérstaka viðburði. 1963 sótti John F. Kennedy kirkjuna heim og sagði þá að engin önnur bygging í Þýskalandi gæti frekar kallast vagga lýðræðisins þar í landi. Í tilefni af 1.200 ára afmæli borgarinnar, fékk franski línudansarinn Philippe Petit að strengja vír milli Pálskirkjunnar og Bartólómeusarkirkjunnar. Vegalengdin var 300 metrar og gekk Petit yfir á vírnum.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]