Náttúrusteinar
Náttúrusteinar voru í þjóðtrú kallaðir þeir steinar sem áttu að hafa meiri náttúru, töfra, en aðrir steinar. Margar sögur hafa því myndast bæði um uppruna þeirra og margháttaða krafta. Talsvert meiri hjátrú loðir við steinaríkið en við grasaríkið, en þó er þess að gæta að nokkrir þeir hlutir eru taldir með steinaríkinu sem heyra undir hin náttúruríkin.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir meðal annar um söfnun náttúrusteina:
- „Nær þú vilt leita að að grösum og steinum ber á þér Venerisjurt, surtarbrand, gráurt, vax og álun svo álfar villi ekki sjónir fyrir þér, undir sólaruppkomu því um hana liggja allir steinar lausir á jörðu, en þeirra er helst að leita við sjó þar sem eru rauðir sandar. Má þá taka um áðursagðan tíma; sumir eru á fjöllum uppi og má þá með sama hætti finna. En páskadags- og hvítasunnumorgun halda sumir gott að steinum leita, en að grösum Jónsmessunótt. Annars er það bezt þá þau eru fullvaxin.“
Nokkrir náttúrusteinar
[breyta | breyta frumkóða]Í þjóðsögum eru taldir upp nokkrir náttúrusteina. Þar á meðal þessir:
Hulinhjálmssteinn
[breyta | breyta frumkóða]Hulinhjálmssteinninn dregur nafn bæði af hulinhjálmi eða huliðshjálmi sem sögur ganga af bæði í norrænni og þýzkri goðafræði. Mjög snemma hefur það tíðkast á Norðurlöndum að neyta hulinhjálms til ýmissa galdrabragða sem gjöra máttu menn og hluti ósýnilega, til dæmis til að magna með honum ský er lögðu myrkva eða hulu yfir allt sem falið átti að vera.
Hulinhjálmssteinn er dökklifrauður að lit. Geyma skal hann undir vinstra armi. En ef maður vill neyta hans og gjöra sig ósýnilegan skal maður fela hann í vinstra lófa vafinn í hárlokk eða blaði svo ekki sjái á hann neins staðar; verður sá hinn sami ósýnilegur á meðan en sér þó sjálfur allt sem fram fer í kringum sig.
Segulsteinn
[breyta | breyta frumkóða]Sé frá manni stolið skal skrifa nöfn þeirra er maður hefur grunsama á blað og legg steininn á fyrir neðan og fer hann á nafn þess sem sekaður er. Í öðru lagi drep honum við seðilinn og mun hann við tolla nafn þess sem sekur er.
Lífssteinn
[breyta | breyta frumkóða]Lífsteinninn hefur verið mjög nafntogaður að fornu sem sjá má af Kórmaks sögu og fleiri fornsögum. Nafn sitt dregur af því að hann átti bæði að lífga það sem dautt var og dauðvona, lengja líf manna og græða sár fljótar og betur en nokkur annar hlutur. Þegar maður nær lífsteini þarf því ekki annað en gjöra skinnsprett á sér undir vinstri handar síðu og geyma hann þar í, því hann græðir sjálfur benina fyrir utan sig; einnig má bera hann í gullhring á þriðja fingri frá þumalfingri.
Sagnir eru til þess efnis að hrafnar hafi lífgað með honum unga sína ef maður drepur alla hrafnsungana í hreiðrinu og fleygir þeim burtu, en kreistir einn til dauðs og festir hann þar og lætur ginkefli í kjaft honum svo hálsinn sé opinn. Ef hrafninn er þá iðulega við hreiðrið sækir hann þenna stein og lætur í gin ungans. Skal svo vitja um hreiðrið að tveimur eða þremur dögum liðnum, er unginn þá endurlifnaður og rauður steinn lítill sem baun í kjafti hans. „Tak steininn, en gef ungann lausan.“
Lausnarsteinn
[breyta | breyta frumkóða]Fleiri en einni sögu fer um það hvar sá steinn fæst því áður er þess getið að hann sé í vatninu í Drápuhlíðarfjalli, en aðrir segja að hann vaxi í sjónum og reki því á ýmsum stöðum á land.
Aðferðin til að ná honum er þessi: Maður skal fara í arnarhreiður Vítusmessunótt (þ.e. 15. júní) og múlbinda unga hennar meðan þeir eru ófleygir í hreiðrinu. Þegar örnin kemur heim og finnur þá svo stadda leitar hún allra bragða til að losa af þeim múlinn og dregur alls konar náttúrusteina sem hún hyggur að megi létta þessu af ungunum. Loksins sækir hún lausnarsteininn; margir segja hún komi með þrjá steina seinast með ýmsum litum og beri hún hvern eftir annan að nefi unganna og leysi lausnarsteinninn skjótt múl þeirra. Ef þá er ekki maðurinn viðstaddur að taka steininn fer assa með hann á fertugt djúp og sekkur honum þar niður svo enginn skuli hafa hans not þegar ungarnir eru lausir orðnir.
Steinn þessi er til ýmsra hluta nytsamlegur en einkum er það talinn bestur kostur hans að hann leysi konu sem á gólfi liggur vel og fljótt frá fóstri sínu, og þarf þá ekki annað en annaðhvort leggja hann á kvið hennar eða henni er gefið vatn, sumir segja volgt franskt hvítvín að drekka, sem steinninn hefur legið í eða verið skafinn í. Stein þenna skal geyma í hveiti ef hann á ekki að missa náttúru sína og vefja hann í óbornu hvítu lérefti eða líknabelg.
Jón Árnason tilgreinir ekki hverskonar steintegund er um að ræða en Eggert Ólafsson virðist hafa talið að það sem kallað hafi verið lausnarsteinn hafi ekki verið steinn heldur „ávöxtur eða hnot af tré (Mimosa scandens, e. Nickernut) sem rekur hér og hvar upp með öðrum rekavið á Vesturlandi“.[1] Sagnir eru til frá öldum áður að slíkir ávextir eða hnetur hafi rekið á land allt frá Noregi til Orkneyja, Skotlands og Írlands. Hafi þær oft verið notaðar sem töfragripir þar, til dæmis í barnsnauð eins og hér er líst sem og að draga til sín gæfu eða forða frá sér ógæfu.
Sögusteinn
[breyta | breyta frumkóða]Um sögustein fer nokkrum frásögnum. Purkeyjar-Ólafur segir að hann finnist í maríerluhreiðri í maí. Skal maður bera hann á sér í blóðugum hálsklút og láta hann í hægra eyra þegar maður vill verða einhvers vísari af honum; segir hann þá allt sem maður vill vita.
Aðrir segja svo af þessum steini: Þegar sumar kemur í páskaviku liggur krummi á eggjunum föstudaginn langa. Um messutímann á að fara til hreiðursins og þegar pínutextinn er lesinn liggur hrafninn eins og dauður á eggjunum. Drýpur þá steinn af hrafnshöfðinu ofan í hreiðrið svo að maður má taka hann ef vill. Síðan skal herða hann og bera næst sér í poka. Þegar hann er borinn undir tungurótum skilur maður hrafnamál.
Ef maður vill vita nokkuð skal binda hann beran undir hægri handkrika sinn þegar maður leggur sig út af og vefja vel að sér fötin. „Set það á þig sem þú vilt vita áður en þú sofnar og mundu það þegar þú vaknar hvers þú hefur vísari orðið.“
Einn steinn finnst í sjávarfroðu grár að lit. Hann skal láta í stöðuvatn; verður þá mor í vatninu og í morinu sést manns ásjána, „Spyr þá þess er þú vilt vita og vert stöðugur.“
Surtarbrandur
[breyta | breyta frumkóða]Surtarbrandur er sagt að eigi við kveisu og verkjum ef hann er hitaður og lagður á verkinn. Ef hann er mulinn smátt ver hann föt fyrir möl og öðrum skorkvikindum; hann ver og undirflogi á fénaði ef hann er látinn í fjósveggi eða kvíaveggi á stöðli.
Skruggusteinn
[breyta | breyta frumkóða]Ef maður hefur skruggustein sér maður út um alla veröld; hann kemur úr lofti ofan í þrumum og hefur þaðan nafn sitt.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Hvað er lausnarsteinn og úr hvaða efni er hann?“. Vísindavefurinn. Sótt 26. júní 2012.[óvirkur tengill]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Jón Árnason (2003). Þjóðsögur Jóns Árnasonar.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- „Hvað er lausnarsteinn og úr hvaða efni er hann?“. Vísindavefurinn. (Skoðað 26. júní 2012).