Fara í innihald

Mykhajlo Hrúsjevskyj

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Mykhaïlo Hrouchevsky)
Mykhajlo Hrúsjevskyj
Михайло Грушевський
Forseti miðstjórnar Úkraínu
Í embætti
28. mars 1917 – 29. apríl 1918
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurPavlo Skoropadskyj (sem höfuðsmaður Úkraínu)
Persónulegar upplýsingar
Fæddur29. september 1866
Kholm, Póllandi
Látinn24. nóvember 1934 (68 ára) Kíslovodsk, Norður-Kákasus, rússneska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum
ÞjóðerniÚkraínskur
StjórnmálaflokkurÚkraínski sósíalista-byltingarflokkurinn
MakiMaría-Ívanna Hrúsjevska
Börn1
HáskóliHáskóli Heilags Valdimars í Kænugarði
Undirskrift

Mykhajlo Serhíjovytsj Hrúsjevskyj[1] (úkraínska: Михайло Сергійович Грушевський; 29. september 1866 – 24. nóvember 1934) var úkraínskur fræðimaður, stjórnmálamaður og sagnfræðingur sem var einn mikilvægasti aðilinn í endurvakningu úkraínskrar þjóðernisvitundar snemma á 20. öld. Hann var einn helsti leiðtogi úkraínsku þjóðernishreyfingarinnar á árunum fyrir rússnesku byltinguna og á byltingarárunum var hann um skeið forseti miðstjórnar úkraínska alþýðulýðveldisins. Eftir að Úkraína varð hluti af Sovétríkjunum var hann leiðandi í menningarlífi úkraínska sovélýðveldisins.

Mykhajlo Hrúsjevskyj birti fyrstu grein sína í dagblaðinu Dilo árið 1885 á námsárum sínum. Árið 1890 útskrifaðist hann með mastersgráðu frá Háskólanum í Kænugarði með lokaritgerðinni Bar Starostvo: Sagnfræðileg rannsókn um sögu bæjarins Bar í Úkraínu. Næsta ár vann hann verðlaun frá háskólanum fyrir birtingu á verkinu Rannsókn á sögu Kænugarðs frá dauða Jarisleifs til loka 14. aldar. Lokaritgerð Hrúsjevskyj var gefin út árið 1894 og sama ár var hann ráðinn sem prófessor í sagnfræði við Háskólann í Lemberg (nú Lvív). Hann lék lykilhlutverk í þróun menntakerfisins í Galisíu.

Á þessum tíma varð Mykhajlo Hrúsjevskyj virkur meðlimur í Sjevtsjenko-vísindafélaginu. Hann varð meðal annars framkvæmdastjóri heimspeki- og sagnfræðideildar þess og þremur árum síðar varð hann forseti samtakanna. Hrúsjevskyj endurskipulagði samtökin og gerði þau að mikilvægri fræðastofnun. Hann jók útgáfustarfsemi samtakanna með því að breyta ársritum þeirra í rit sem komu út tvisvar á mánuði og setti á fót fjölda nefnda sem birtu mikið magn skjala. Stór hluti af ritverkum Hrúsjevskyj sjálfs kom út í þessum tímaritum með síðari breytingum. Hrúsjevskyj safnaði jafnframt fé til þess að stofnsetja bókasafn og safn. Hann gaf á þessum tíma út fjölda fræðirita, mörg þeirra í samstarfi við Ívan Franko.

Árið 1898 stofnaði Hrúsjevskyj, ásamt Franko og Volodymyr Hnatjúk, Vísinda- og bókmenntasafn Sjevtsjenko-vísindasamfélagsins, sem varð einn mikilvægasti umræðuvettvangur úkraínska bókmennta- og stjórnmálasamfélagsins. Sama ár var hið fyrsta af sex binda verki Hrúsjevskyj um sögu Úkraínu-Rús gefið út í Lvív. Þetta var í fyrsta sinn sem umfjöllun um sögu Úkraínu var safnað saman í eitt heildstætt verk. Mykhajlo Hrúsjevskyj varð jafnframt forstöðumaður bókaútgáfu og árið 1904 var hann í forsvari fyrir Bókmennta- og listasamfélag Úkraínu. Frá árinu 1908 leiddi hann kennarasamtök Úkraínu og frá árinu 1910 einnig úkraínskt héraðsskólasamband í Galisíu. Hann hélt áfram að kenna við Háskólann í Lvív til ársins 1914.

Hrúsjevskyj ritaði fjölda greina sem voru birtar bæði á rússnesku og úkraínu um pólitísk málefni bæði í Úkraínu og erlendis. Eftir stutta dvöl í Sankti Pétursborg árið 1906 flutti Hrúsjevskyj til Kænugarðs. Árið 1907 tók hann þátt í stofnun Úkraínsku vísindasamtakanna, sem voru skipulögð með Sjevtsjenko-vísindafélagið að fyrirmynd. Í því skyni að auka úkraínska þjóðernisvitund meðal bændastéttarinnar hóf Hrúsjevskyj útgáfu nýs fréttablaðs, Selo, sem kom út frá 1909 til 1911. Eftir að rússneska keisarastjórnin lét banna útgáfu blaðsins gaf Hrúsjevskyj út blaðið Zasív frá 1911 til 1912.

Stjórnmálaferill

[breyta | breyta frumkóða]
Hrúsjevskyj, þá forseti úkraínsku miðstjórnarinnar, í herskrúðgöngu í Kænugarði árið 1917.

Árið 1899 tók Hrúsjevskyj þátt í stofnun stjórnmálaflokks, Lýðræðislega þjóðernisflokksins, en hætti í honum stuttu síðar. Hrúsjevskyj hóf afskipti af stjórnmálum fyrir alvöru eftir rússnesku byltinguna árið 1905. Hann gekk í Úkraínska róttæka lýðræðisflokkinn, gerðist ráðgjafi úkraínsku fulltrúanna á rússnesku ríkisdúmunni og talaði fyrir því að Úkraína fengi sjálfsstjórn innan rússnesks lýðræðisríkis. Frá árinu 1908 var Hrúsjevskyj leiðtogi hreyfingar Bandalags úkraínskra framfarasinna og einn stofnandi hennar.

Á tíma fyrri heimsstyrjaldarinnar, í kjölfar aðfarar rússnesku stjórnarinnar gegn úkraínskum þjóðarnissinnum, var Hrúsjevskyj handtekinn. Eftir tveggja mánaða fangavist í Kænugarði var hann sendur í útlegð til Símbírsk, svo til Kazan og loks til Moskvu, þar sem hann var undir smásjá lögreglunnar. Þrátt fyrir þessar aðstæður hélt Hrúsjevskyj áfram fræðastörfum sínum.

Mykhajlo Hrúsjevskyj var leystur úr haldi árið 1917 og þann 17. mars það ár, á meðan hann var enn í Moskvu, var hann kjörinn forseti miðstjórnar Úkraínu (úkraínska: Українська Центральна Рада; Úkrajínska Tsentralna Rada), sem hafði tekið við stjórn Úkraínu eftir febrúarbyltinguna í Rússlandi. Hrúsjevskyj gekk í Úkraínska sósíalista-byltingarflokkinn, sem var í meirihluta í miðstjórninni. Að frumkvæði Hrúsjevskyj lýsti miðstjórnin yfir sjálfræði Úkraínu þann 23. júní árið 1917. Landið tók sér nafnið Alþýðulýðveldið Úkraína þann 20. nóvember 1917. Landið lýsti síðan yfir fullu sjálfstæði þann 22. janúar 1918.

Á tíma sjálfstæðisins

[breyta | breyta frumkóða]

Þann 29. apríl 1918 framdi Pavlo Skoropadskyj valdarán gegn stjórn úkraínska alþýðulýðveldisins með stuðningi Þjóðverja. Með þessu lauk meiriháttar umsvifum Hrúsjevskyj í úkraínsku stjórnmálalífi en hann var þó áfram virkur í stjórnmálum. Hann hélt einnig áfram ritstörfum og birti árið 1918 bókina Á dyraþrepi nýrrar Úkraínu: Hugleiðingar og draumar. Árið 1919 flutti Hrúsjevskyj úr landi og starfaði í utanríkismálanefnd Úkraínska sósíalista-byltingarflokksins. Á árum sínum í útlegð ferðaðist Hrúsjevskyj um Vestur-Evrópu og reyndi að afla stuðnings fyrir sjálfstæði Úkraínu.

Árið 1919 stofnaði Hrúsjevskyj úkraínska félagsfræðistofnun í Vín og síðan í Prag. Hann gaf út fjölda verka meðal annars Nákvæma sögu Úkraínu (1920).[2] Hrúsjevskyj sagðist á þessum tíma vonast til að geta komist að samkomulagi við bolsévika og til að fá að snúa aftur til Úkraínu (sem þá var orðin sovétlýðveldi undir stjórn kommúnista) til að halda áfram störfum sínum. Árið 1923 var Hrúsjevskyj kjörinn í Úkraínsku vísindaakademíuna og var leyft að snúa aftur til Kænugarðs árið 1924. Margir úkraínskir stjórnmálamenn sem dvöldu í útlegð gagnrýndu Hrúsjeskyj fyrir að snúa heim undir þessum kringumstæðum.

Endurkoma til Úkraínu og ævilok

[breyta | breyta frumkóða]
Mynd af Hrúsjevskyj á úkraínskum 50 hrinja seðli frá 2019.[3]
Stytta af Hrúsjevskyj í Kænugarði.

Eftir heimkomuna til Úkraínu hélt Mykhajlo Hrúsjevskyj fljótt áfram sagnfræði- og prófessorsstörfum sínum. Hann skipulagði fjölda rannsóknarnefnda til að rannsaka sögu og þjóðsagnahefðir Úkraínu. Á árunum 1924 til 1930 endurvakti hann tímaritið Úkrajína, sem varð ein helsta heimildin um úkraínsk fræði. Árið 1926 var haldið upp á sextíu ára afmæli Hrúsjevskyj með hátíðarhöldum í Úkraínu. Sama ár var samstarf Sjevtsjenko-vísindafélagsins og Úkraínsku vísindaakademíunnar endurnýjað.

Þrátt fyrir umfangsmikla útgáfu á verkum Hrúsjevskyj á þessum tíma jókst smám saman andstaða gegn honum meðal embættismanna og marxista. Sagnfræðiverk hans voru álitin „þjóðernissinnuð“ í síauknum mæli og gagnrýnd fyrir að samræmast ekki opinberum söguskýringum Sovétríkjanna á sögu Úkraínu. Árið 1929 ágerðist gagnrýnin á Hrúsjevskyj svo að hann neyddist til að hætta störfum hjá Úkraínsku vísindaakademíunni. Í mars árið 1931 var hann handtekinn og neyddur til að búa í Moskvu. Þar var hann undir eftirliti Stjórnmálastofnunar ríkisins, sem vændi hann ranglega um að hafa skipulagt gagnbyltingarsamtök sem áttu að heita Úkraínska þjóðernismiðstöðin. Ritverk Hrúsjevskyj voru framvegis ritskoðuð og nemendur og samstarfsmenn hans handteknir.[4]

Stuttu síðar var sagnfræðiskóli Hrúsjevskyj lagður niður. Hrúsjevskyj var áfram virkur í fræðastörfum á síðustu æviárum sínum og einbeitti sér að rannsóknum á sögu Úkraínu á 17. og 18. öld. Síðustu tvær fræðigreinarnar eftir hann voru birtar í tímaritum Vísindaakademíu Sovétríkjanna árin 1932 og 1934.

Loks fóru erfiðar aðstæður sem hann bjó við og stöðugar ofsóknir stjórnvalda að grafa undan heilsu Hrúsjevskyj. Hann lést í Kíslovodsk, þar sem hann beið eftir læknismeðferð, þann 24. nóvember 1934. Hann var grafinn í Bajkove-kirkjugarðinum í Kænugarði.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Mykhajlo Hrúsjevskyj er umritun úr kyrillísku letri samkvæmt Umritunartöflu Árnastofnunar milli úkraínsku og íslensku.
  2. Mykhajlo Hrúsjevskyj, Précis d'histoire de l'Ukraine; þýðing á frönsku í vinnslu og kynningu próf. Dmytro Tchystiak. Christophe Chomant ritsj., 2022.
  3. „Seðlabanki Úkraínu. Seðlar. 50 UAH. Myndir“. Mars 2017.
  4. Alain Blum, Yuri Shapoval, Faux coupables, CNRS éditions, 2012.