Miðfjörður
Miðfjörður er fjörður, sem gengur inn úr Húnaflóa á milli Heggstaðaness og Vatnsness. Næsti fjörður að vestan er Hrútafjörður en Húnafjörður að austan. Við austanverðan Miðfjörð stendur kauptúnið Hvammstangi.
Upp af firðinum eru blómlegar byggðir og kallast sveitin einnig Miðfjörður. Innst klofnar hún í þrjá dali, Miðfjarðardali, sem heita Vesturárdalur, Núpsdalur og Austurárdalur. Úr þessum dölum renna þrjár ár, sem dalirnir eru nefndir eftir, og sameinast þær í Miðfjarðará, sem er þekkt laxveiðiá. Austan Miðfjarðarár er lítill þéttbýliskjarni, Laugarbakki. Áður var farið upp úr Miðfirði suður um Tvídægru til Borgarfjarðar en sú leið þótti villugjörn.
Miðfjörður er kunnur úr Íslendingasögunum. Á Bjargi í Miðfirði fæddist Grettir Ásmundarson, sem segir frá í Grettis sögu en sögustaði Kormáks sögu, Þórðar sögu hreðu og Bandamanna sögu er þar einnig að finna.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Þorsteinn Jósepsson, Steindór Steindórsson og Páll Líndal (1982). Landið þitt Ísland, L-R. Örn og Örlygur.