Miðfjarðará
Miðfjarðará er á sem rennur um Miðfjörð í Vestur-Húnavatnssýslu. Áin verður til þegar Vesturá og Austurá sameinast en oft er þó nafnið notað um allar árnar þrjár sem renna um Miðfjarðardali, Austurá, Vesturá og Núpsá.
Árnar þrjár sem mynda Miðfjarðará eiga upptök sín á heiðunum suður af Miðfjarðardölum. Vesturá kemur upp á Húksheiði og rennur um Vesturárdal; Núpsá, sem er vatnsminnst, á upptök í Kvíslavötnum á Núpsheiði og rennur um Núpsdal og Austurá, sem er vatnsmest, á aðalupptök í Arnarvatni stóra og fellur um Austurárdal. Núpsá og Austurá renna saman þar sem dalirnir mætast og kalla sumir ána Miðfjarðará frá þeim ármótum en aðrir kalla hana Austurá þar til hún rennur saman við Vesturá.
Áin þykir mjög falleg og er ein besta og dýrasta laxveiðiá landsins, 113 km að lengd og þar eru yfir tvö hundruð veiðistaðir. Við ána er veiðhúsið Laxahvammur. Sumarið 2010 var besta veiðisumar í Miðfjarðará frá upphafi og veiddust þá 4043 laxar í ánni.[1]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Metið slegið í Miðfjarðará annað árið í röð“. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. mars 2016. Sótt 28. október 2010.