Fara í innihald

Laugarbakki

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Laugarbakki í Miðfirði.

Laugarbakki er þorp sem stendur rétt við þjóðveg 1 í Miðfirði í Vestur-Húnavatnssýslu. Þar bjuggu 55 manns 1. janúar 2019.

Laugarbakki skiptist í þrjá kjarna, stærsti og nyrsti kjarninn (sem liggur næst þjóðvegi 1) er m.a. með félagsheimili, sundlaug (sem hefur verið breytt í 2 heita potta) og verslun, mið-kjarninn samanstendur af nokkrum húsum, þar á meðal íbúðum fyrir aldraða, og loks er þriðji og syðsti kjarninn sem er skólahúsnæði og íbúðir kennara við skólann.

Eftir sameiningu hreppa og sveitarfélaga í Húnaþing vestra var grunnskólinn á Laugarbakka sameinaður grunnskóla Hvammstanga, starfsemi skólans er því skipt niður á þorpin tvö, þar sem eldri deildir eru á Laugarbakka, en yngri deildir á Hvammstanga.

Laugarbakkaskóli var áður heimavistarskóli, en nú er rekið Eddu-hótel þar á sumrin. Félagsheimilið Ásbyrgi á Laugarbakka er vettvangur fjölmargra ættarmóta yfir sumartímann.

Í hlíðinni fyrir ofan Laugarbakka, í landi Reykja, er hitaveita. Hún er í eigu Hitaveitu Húnaþings vestra og sér bæði Laugarbakka og Hvammstanga fyrir heitu vatni.