Umbætur á heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Obama skrifar undir nýju heilbrigðislögin

Umbætur á heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna voru veigamikill þáttur í bandarísku forsetakosningunum 2008. Fulltrúar demókrata, Hillary Clinton og Barack Obama, lögðu bæði fram hugmyndir um umbætur á heilbrigðiskerfinu sem var ætlað að bæta aðgengi almennings til heilbrigðisþjónustu. Ríflega tveimur árum eftir að Obama hafði sigrað kosningarnar, þann 23. mars 2010, undirritaði hann heilbrigðisfrumvarpið (enska:The Patient Protection and Affordable Care Act).[1]

Frumvarpið olli deilum á Bandaríkjaþingi og skiptar skoðanir voru á lögmæti þess. Repúblikanar töldu frumvarpið fela í sér brot á stjórnarskrá, með því að heimila yfirtöku stjórnvalda (enska: Government takeover) í einkageiranum og skylda þegna til að kaupa heilbrigðistryggingar.[2]

Lögin munu taka gildi í áföngum, en lokaáfanginn er áætlaður árið 2018. Auk þess að fela í sér aukin réttindi borgara til heilbrigðisþjónustu er lögunum ætlað að draga úr halla ríkissjóðs um 143 milljarða dollara á fyrsta áratug eftir gildistöku þeirra.[3]

Obama var tíðrætt um frumvarpið á opinberum vettvangi, bæði í kosningabaráttu sinni og þegar hann hafði tekið við forsetaembættinu. Hann hefur lagt áherslu á að heilbrigðisþjónusta sé hluti af réttindum borgara, en ekki forréttindi.[4] Ennfremur gagnrýndi hann starfshætti tryggingafélaga. Eftir að frumvarpið hafði verið samþykkt sagði Obama í sjónvarpsávarpi að þetta væri birtingarmynd breytinga: „This is what change looks like“.[5]Change“ (íslenska: Breytingar) var eitt af lykilorðunum í kosningabaráttu Obama.

Fyrri tilraunir til umbóta á heilbrigðiskerfinu[breyta | breyta frumkóða]

 • Árið 1933 beitti Franklin D. Roosevelt, sér fyrir umbótum á heilbrigðiskerfinu. Hluti af New Deal löggjöf hans, sem fól í sér að komið yrði á velferðarkerfi, lagði til opinberan fjárstuðning til heilbrigðisáætlana. Samband bandarískra lækna (enska: American Medical Association) ásamt fulltrúum sambandsins í ríkjunum, lögðust gegn slíkum breytingum og Roosevelt tók ákvæðið úr New Deal frumvarpinu.[6]
 • Lyndon B. Johnson beitti sér fyrir umbótum á heilbrigðiskerfinu, og kom á Medicare verkefninu þann 30. Júlí 1965. Medicare er félagslegt tryggingakerfi sem alríkisstjórnin hefur umsjón með og fjármagnar. Veitir tryggingin einstaklingum sem náð hafa 65 ára aldri og öðrum sem uppfylla sérstök skilyrði, heilbrigðistryggingar.[7]
 • Árið 1974 vann Richard M. Nixon að því að koma á alhliða heilbrigðistryggingakerfi. Hann lagði fram frumvarp sem kvað á um að atvinnuveitendur væru skyldaðir til þess að veita starfsmönnum sínum heilbrigðistryggingar. Frumvarpið kvað einnig á um heilbrigðisáætlun sem rekin væri á alríkisvettvangi, sem allir Bandaríkjamenn gætu skráð sig í og borgað í samræmi við tekjur. Þingið hafnaði frumvarpinu.
 • Í valdatíð Bill Clinton, beitti eiginkona hans, Hillary Clinton, sér fyrir umbótum á heilbrigðiskerfinu. Hillary Clinton stofnsetti starfshóp til að vinna að umbótum og úr þeirri vinnu varð Clinton heilbrigðisfrumvarpið til árið 1993 (enska: The 1993 Clinton Health Care Plan). Frumvarpið kvað á um að allir bandarískir ríkisborgarar og þeir sem búsettir voru til lengri tíma í Bandaríkjunum myndu verða skráðir meðlimir í heilbrigðisáætlun. Heilbrigðisáætlunin fól í sér lágmarkstryggingar og verðþak á hámarksútjöld einstaklinga til heilbrigðisþjónustu. Einstaklingar með tekjur undir ákveðnum mörkum áttu að hljóta ókeypis tryggingar. Frumvarpinu var hafnað í Bandaríkjaþingi.

Ferill frumvarpsins í Bandaríkjaþingi[breyta | breyta frumkóða]

Undirskrift Obama á heilbrigðislögunum

Obama byrjaði að vinna að umbótum á heilbrigðiskerfinu fljótlega eftir að hafa tekið forsetaembættinu. Í febrúar 2009 var boðaði Obama þingdeildir á sameiginlegan fund, þar sem unnið var að áætlun til að koma á fyrirhuguðum umbótum.[8] Í mars 2009 hóf Obama umbótaferilinn formlega og hélt ráðstefnu fyrir mikilvæga aðila innan heilbrigðisgeirans. Obama óskaði eftir því að frumvarpið færi í gegn um báðar þingdeildir áður en hlé yrði gert á störfum þeirra yfir sumarið, en það markmið náðist ekki.[9]

Þar sem frumvarpið mætti andstöðu margra þingmanna var komið á samvinnu milli repúplikana og demókrata. Öldungadeildarþingmaðurinn Max Baucus leiddi það starf, og gerði í kjölfar þess breytingar á frumvarpinu sem tóku mið af áherslum beggja flokka. Breytingarnar fólu meðal annars í sér að kostnaðurinn við umbæturnar lækkaði talsvert. Þessar breytingar komu einnig í veg fyrir að um alhliða almenningstryggingar (enska: Public insurance option) væri að ræða.

Ferill frumvarpsins í Öldungadeild[breyta | breyta frumkóða]

Ferill frumvarpsins öldungadeildinni var tímabundið stöðvaður vegna hótana þingmanns repúplikana fyrir Nebraska, Ben Nelson, um að kæfa það í málþófi (enska: Filibuster). Nelson hvarf frá fyrirætlunum sínum eftir að frumvarpinu var breytt á þann hátt að Medicaid-kerfi Nebraska hlaut hærri fjárstuðning en upphaflega stóð til.[10]

Frumvarpið var afgreitt í Öldungadeild Bandaríkjaþings 24. desember 2009 með 60 atkvæðum með og 39 á móti. Allir þingmenn demókrata sem og óháðir, kusu með frumvarpinu, en allir repúblikanar kusu gegn því.[11]

Ferill frumvarpsins í Fulltrúadeild[breyta | breyta frumkóða]

Þegar frumvarpið var lagt fyrir fulltrúadeildina, var nokkuð ljóst að það hefði ekki nægan stuðning til að verða samþykkt. Talið var að demókratar sem taka afstöðu gegn fóstureyðingum myndu kjósa gegn því, þar sem í frumvarpinu var upphaflega ákvæði um fjárhagslegan stuðning alríkisins til fóstureyðinga. Til að tryggja stuðning þessa hóps var ákvæðinu breytt þannig að fjárhagslegur stuðningur til fóstureyðinga fengist einungis ef um væri að ræða þungun í kjölfar nauðgunar, sifjaspells eða þegar líf móður er í hættu. Í kjölfar þessara breytinga fékkst stuðningur leiðtoga þessa hóps demókrata, sem tryggði samþykkt frumvarpsins í fulltrúadeildinni.[12]

Í Fulltrúadeild Bandaríkjaþings var frumvarpið samþykkt 21. mars 2010, með 219 atkvæðum gegn 212.[13] Allir 178 þingmenn repúblikana í fulltrúadeildinni kusu gegn því, ásamt 34 þingmönnum demókrata.

Hvers vegna var umbóta þörf?[breyta | breyta frumkóða]

Heilbrigðiskerfið var óskilvirkt[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2009 fór um 17% af þjóðarframleiðslu til útgjalda til heilbrigðismála, sem er hærra hlutfall en í öllum öðrum iðnríkjum. Samkvæmt rannsókn sem birtist á vegum tímaritsins Health Affairs voru, árið 2007, heildarútgjöld til heilbrigðisþjónustu 2,4 þúsund milljarðar eða $7900 á hvern íbúa Bandaríkjanna. Út frá því nam kostnaður við heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum 52% meira á mann heldur en í því landi sem kemur næst á eftir Bandaríkjunum hvað varðar útgjöld til heilbrigðisþjónustu, sem er Noregur.[14]

Fjárlagaskrifstofa þingsins (enska: Congressional Budget Office) áætlaði að án breytinga á heilbrigðiskerfinu myndi þetta hlutfall vera orðið 25% af þjóðarframleiðslu, árið 2025.[15] Demókratar hafa talið heilbrigðisútgjöld vera byrði á ríkinu, vegna þess að kerfið hafi ekki verið nægilega skilvirkt og fjármunum hafi verið sóað.[16] Umbætur áttu því að stemma stigu við útgjöldum og lækka fjárlagahallann.

Fjöldi Bandarískra þegna var án heilbrigðistrygginga[breyta | breyta frumkóða]

Hlutfall ótryggðra Bandaríkjamanna hefur farið vaxandi á undanförnum áratugum. Sífellt færri Bandaríkjamenn hafa góðar heilbrigðistryggingar og því ekki aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu. Fyrir setningu laganna voru um 46 milljónir Bandaríkjamanna án heilbrigðistrygginga og 25 milljónir í viðbót höfðu ekki fullnægjandi heilbrigðistryggingar. Ein stærsta ástæðan fyrir þessu var sú að margir atvinnuveitendur höfðu hætt að bjóða stafsmönnum sínum tryggingar vegna of mikils kostnaðar. Önnur ástæða fyrir þessu var sú að tryggingafélög neituðu einstaklingum með heilsufarsvandamál, eða slæma heilsufarssögu, um tryggingar.[17]

Grunnhugmynd Obama var að skapa ríkisstyrkt heilbrigðiskerfi sem tryggir alla Bandaríkjamenn á svipaðan hátt og Medicare tryggingakerfið, sem þegnar yfir 65 ára aldri hafa einir átt kost á hingað til. Annað markmið Obama var að koma í veg fyrir að tryggingafyrirtæki mismuni einstaklingum á grundvelli heilsufars.[18]

Obama hefur sett fram leiðir til að fjármagna nýja heilbrigðistryggingakerfið. Í því felst meðal annars hagræðing á Medicaid og Medicare heilbrigðisþjónustunum. Obama hefur bent á að með bættu heilbrigðiskerfi megi uppræta þá misnotkun og sóun sem er til staðar í núverandi kerfisskipan. Ennfremur er skattahækkunum á tekjuhærri einstaklinga hugsaðar til að fjármagna þessar umbætur á heilbrigðiskerfinu.[19]

Helstu umbætur heilbrigðislaganna[breyta | breyta frumkóða]

 • Lögin koma í veg fyrir að bandarísk tryggingafyrirtæki geti mismunað sjúklinum á grundvelli heilsufars, og gera um 30 milljónum bandarískra þegna sem ekki hafa heilbrigðistryggingar, kleift að kaupa sér slíkar tryggingar. 5,6 milljónir einstaklinga sem glíma við veikindi og er hafnað af tryggingafyrirtækjum munu eiga kost á því að vera í hópi einstaklinga sem álitnir eru vera í miklum áhættuhópi, og bannað var að hafna einstaklingum á grundvelli heilsufars, um slíkar tryggingar. Árið 2014 var alfarið bannað að mismuna einstaklingum á grundvelli heilsufars.[20]
 • Frumvarpið kveður á um að öllum bandarískum ríkisborgurum sé skylt að kaupa heilbrigðistryggingar.[21] Ennfremur kveður það á um skattahækkanir sem lagðar verða á efnameiri Bandaríkjamenn. Slíkum aðgerðum er ætlað að fjármagna niðurgreiðslur til fjölskyldna með minna en 88.000 dollara í árslaun.[22]
 • 48 milljónir ótryggðra Bandaríkjamanna munu eiga kost á nýjum, heilbrigðistryggingum á viðráðanlegum kjörum. Nýja frumvarpið tryggir að hægt var að kaupa tryggingar á lægra verði og margir munu eiga kost á skattaívilnunum til að lækka kostnað.[23]
 • Skattaívilnanir til allt að 29 milljón einstaklinga til að koma á móts við kostnað við kaup á heilbrigðistryggingum. Frá árinu 2014 munu miðstéttarfjölskyldur og einstaklingar sem hafa ekki hlotið heilbrigðistryggingar í gegnum atvinnuveitendur sína, eiga kost á því að nýta sér slíkar ívilnanir.[24]
 • 500.000 fjölskyldum er, með frumvarpinu, forðað frá gjaldþroti vegna hárra útgjalda í kjölfar veikinda. Árið 2007, voru 62% gjaldþrota í Bandaríkjunum, tengd vanefndum á greiðslum vegna heilbrigðisþjónustu. Sett var þak á hámarksgreiðslur sem fjölskyldur þurfa að greiða úr eigin vasa vegna kostnaðar við heilbrigðisþjónustu.[25]
 • Litlum fyrirtækjum voru veittar skattaívilnanir til þess að mæta auknum kostnaði við að heilsutryggja starfsmenn. Með þessu á að hvetja minni fyrirtæki til þess að bjóða starfsmönnum slíkar tryggingar. Þeir atvinnurekendur sem bjóða starfsmönnum upp á slíkar tryggingar eiga kost á 35% skattaafslætti, en árið 2014 var hlutfall afsláttarins hækkað í 50%. Þetta mun eiga við um 60% af smærri atvinnufyrirtækjum.[26]

Framkvæmd og árangur[breyta | breyta frumkóða]

Lögin mörkuðu tímamót fyrir almenning í Bandaríkjum(en) varðandi aðgengi þeirra að heilbrigðisþjónustu[27]. Og þau reyndust vera mesta breytingin á almannatryggingakerfinu frá því að lögin um Medicaid, opinberar sjúkratryggingar fyrir láglaunafólk og Medicare, sem er fyrir aldraða [28] voru undirrituð. Milljónir manna sem áður voru ótryggðir eiga nú kost á að fá sjúkratryggingar[29]. Þessi lög höfðu í för með sér aukin gæði í heilbrigðisþjónustu, bætt aðgengi almennings og aukið öryggi fyrir þá sem áður voru ótryggðir og gátu ekki nýtt sér heilbrigðisþjónustuna að fullu. Stór hluti þeirra bandaríkjamanna sem komin er með tryggingar finnst sem þeir geti nú nýtt sér þjónustu í veikindum og haft efni á því vegna endurgreiðslna sem þeir eiga rétt á. Þetta er því grundvallarbreyting frá því sem áður var. Það kemur fram í könnun á vegum Commonwealth Fund að 3 af hverjum 4 þeirra sem nýlega fengu sér tryggingar eru ánægðir með fyrirkomulagið[30]. Það er því alveg ljóst að lögin hafa tryggt almenningi aukið aðgengi að heilbrigðisþjónustu. En þrátt fyrir að verulegar umbætur hafi orðið þá er ennþá stór hluti bandaríkjamanna ótryggður. Þar á meðal eru óskráðir innflytjendur og einnig er einhver hluti ungra, heilbrigðra einstaklinga ótryggður þar sem sá hópur hefur frekar takmarkaðan áhuga á tryggingum[31]

Tryggingamiðlanir á vegum ríkjanna (enska: Health Care Exchange)[breyta | breyta frumkóða]

Mikilvægur þáttur í nýju heilbrigðislögunum eru tryggingamiðlanir (enska: Health Care Exhange). Með stofnun slíkra miðlana á að koma á fót vettvangi þar sem hægt er að nálgast upplýsingar um hvernig tryggingar eru nú í boði fyrir almenning. Upphaflega markmiðið var að þessar tryggingamiðlanir myndu starfa á vettvangi alríkisins. Þessu var breytt á þann hátt að lögin kveða nú á um að sjálfstæðar tryggingamiðlanir munu starfa á vegum ríkjanna. Ríkin munu fá styrki frá alríkinu sem þau nýta til að setja upp tryggingamiðlanir. Ef ríkin ákveða að nýta ekki þessa styrki sem skyldi þá mun alríkið grípa í taumana.

Tilgangur tryggingamiðlana[breyta | breyta frumkóða]

Með því að koma á fót tryggingamiðlunum sem starfræktar eru af ríkjunum, er reynt að tryggja að ríkin geti gert hagstæða samninga við tryggingafélög fyrir þegna sína, og miðlað þeim svo áfram til einstaklinga. Með því að koma á fót slíkum miðlunum er komið á stjórnskipulagi sem hefur umsjón með skráningu trygginga og auðveldar flutningshæfni trygginga, til að mynda þegar fólk skiptir um atvinnu eða flytur búferlum. Ennfremur er þessum miðlunum ætlað að auka gagnsæi og neytendavernd innan heilbrigðistryggingakerfisins.[32]

Tryggingamiðlunum er ætlað að bjóða neytendum upp á mismunandi valkosti á heilbrigðistryggingum þar sem áhersla er lögð á verðsamkeppni. Einnig er lögð áhersla á að upplýsa neytendur um það hvaða vernd mismunandi tegundir tryggingaleiða fela í sér, þær eiga því að þjóna ráðgjafahlutverki. Annað hlutverk þessa vettvangs er að leiða til umbóta á tryggingamarkaðnum og koma í veg fyrir að fólki sé neitað um tryggingar sökum heilsufars.[33]

Ólíkt fyrirkomulag tryggingamiðlana[breyta | breyta frumkóða]

Nokkur ríki hafa nú þegar komið á fót tryggingamiðlunum. Tryggingamiðlun Utah hefur komið slíkri á fót, en íbúar geta nálgast upplýsingar og verslað tryggingar á vefsíðu miðlunarinnar. Rekstraraðilar miðlunarinnar í Utah skilgreina ákveðna skilmála sem tryggingarfélögum ber að uppfylla. Að þeim uppfylltum fá tryggingafélögin aðgang að miðluninni, þar sem neytendur geta sjálfir valið þau tryggingafélög sem henta þeim best. Tryggingamiðlun Massachusetts starfar eftir öðrum formerkjum. Þar er ríkið viðskiptavinur tryggingafélaga, sem kaupir hagstæðustu tryggingarnar út frá verði og tryggingavernd og endurselur svo íbúum innan ríkisins tryggingarnar.[34]

Gagnrýnisraddir[breyta | breyta frumkóða]

Deilan um heilbrigðislögin tengist málaflokkum sem lengi hafa verið átök um í bandarískum stjórnmálum, sérstaklega varðandi aukin ríkisafskipti alríkisvaldsins (enska: The Federal Government) og aukna skattheimtu. Andstæðingar frumvarpsins hafa bent á að með heilbrigðislögunum og öðrum breytingum á skattkerfinu, sé verið að grafa undan grunnstoðum bandarísks samfélags, sem ættu að byggjast á lágmarks ríkisafskiptum og frjálsum markaði.[35]

Heilbrigðisfrumvarpið hefur valdið talsverðum stjórnmáladeilum, bæði áður en það var samþykkt og eftir að það varð að lögum. Helstu andstæðingar heilbrigðislaganna hafa verið liðsmenn teboðshreyfingarinnar og repúblikanar, en einnig hafa nokkrir hægrisinnaðir demókratar verið á móti þeim. Helstu ágreiningsmál í þessari deilu hafa snúið að auknum umsvifum alríkisins, og aukinni skattlagningu á tekjuháa einstaklinga.

Sarah Palin gagnrýndi nýju heilbrigðislögin harðlega

Gagnrýni Teboðshreyfingarinnar[breyta | breyta frumkóða]

 • Teboðshreyfingin (enska: The Tea Party Movement) var meðal þeirra sem skipulögðu mótmæli gegn frumvarpinu. Í víðari skilningi er andstaða teboðshreyfingarinnar gegn mörgum af þeim stefnumálum sem demókratar hafa lagt til að umbætur verði gerðar á. Teboðshreyfingin er í mikilli andstöðu gegn því að stjórnvöld hafi afskipti af einkageiranum. Þá er hreyfingin í andstöðu gegn skattahækkunum, en heilbrigðislögin fela í sér skattahækkanir á tekjuhærri einstaklinga í Bandríkjunum.[36]
 • Sarah Palin, fyrrum ríkisstjóri Alaska og af mörgum talin einn helsti leiðtogi teboðshreyfingarinnar, telur að hin nýju heilbrigðislög muni auka kostnað fyrir almenning, jafnvel fyrir þá sem minnst mega sín. Hún hefur varað við því að niðurstaðan verði sú að fjölskyldur hafi færri valkosti um heilbrigðisþjónustu. Fylgismenn laganna telja þetta vera ranga ályktun, þvert á móti munu lögin ná fram hagræðingu samhliða því að veita milljónum þegna heilbrigðistryggingavernd, sem ekki hafa hana núna.[37]
 • Frambjóðandi teboðshreyfingarinnar til þingkosninga 2010, Rick Barber, hefur lýst því yfir að heilbrigðislögin feli í sér endurupptöku þrælahalds. Ef þvinga eigi bandaríska þegna til að vinna og greiða skatta sem renni í vasa þeirra sem ekki hafa efni á að kaupa tryggingar, þá sé það ekkert annað en þrælahald.[38]

Gagnrýni repúblikana[breyta | breyta frumkóða]

 • Formaður repúblikanaflokksins, Michael Steele hefur sagt um lögin að með þeim sé verið að byggja upp gríðarstórt og lokað heilbrigðiskerfi þar sem Washington tekur allar ákvarðanir. Að hans mati eru heilbrigðislögin birtingarmynd jafnaðarstefnu og með þeim væri Obama að reyna að koma á heilbrigðiskerfi sem væri ríkisrekið. Repúblikanar vilji hins vegar styðja opið heilbrigðiskerfi þar sem það séu sjúklingarnir sjálfir og læknar sem taki ákvarðanir.[39]
 • Leiðtogi minnihlutans í fulltrúadeild þingsins, repúblikaninn John Boehner lýsti því yfir að heilbrigðisfrumvarpið væri svo skelfilegt að ef það yrði samþykkt myndi það þýða ragnarök í bandarísku samfélagi.[40]

Gagnrýni hægrisinnaðra demókrata[breyta | breyta frumkóða]

 • Nokkrir hægrisinnaðir demókratar, svokallaðir Blue Dogs, gagnrýndu einnig frumvarpið. Einn þeirra, Ben Nelson, öldungadeildarþingmaður fyrir Nebraska, lýsti því yfir að hann væri andvígur stækkun alríkisins og að lögin græfu undan heilbrigðistryggingum 200 milljóna Bandaríkjamanna.[41]

Gagnrýni vinstrisinnaðra demókrata[breyta | breyta frumkóða]

 • Jane Hamsher, einn talsmanna vinstrisinnaðra demókrata, gagnrýndi að frumvarpið veitti hvorki alhliða heilbrigðisþjónustu né alhliða tryggingar. Benti hún í því sambandi á útreiknina fjárlagaskrifstofu þingsins sem reiknar með því að, án umbóta verði ótryggðir Bandaríkjamenn 54 milljónir, en með tilkomu nýju laganna verði árið 2019, 24 milljónir Bandaríkjamanna tryggðir. Hún gagnrýndi að lögin fælu ekki í sér að aukagjöld vegna heilbrigðisþjónustu myndu lækka. Taldi hún að lögin fælu í sér aukin útgjöld, sérstaklega millistéttarinnar, þar sem öllum er gert skylt að kaupa tryggingar. Gagnrýndi hún að öfugt við því sem haldið hefði verið fram af stuðningsmönnum laganna, væri með þeim verið að þvinga Bandaríkjamenn til að kaupa tryggingar sem, þrátt fyrir umbæturnar, væru of dýrar.[42]
 • Almennt hafa vinstrimenn gagnrýnt frumvarpið fyrir að ganga ekki nógu langt. Vinstrimenn óttuðust að Obama myndi semja frá sér mikilvæg markmið til að koma frumvarpinu í gegn um þingið. Sumir töldu að samningar sem Hvíta húsið hafði gert við lyfjafyrirtæki og aðra hagsmunaaðila í heilbrigðisgeiranum, hefðu dregið úr þeim möguleika að frumvarpið myndi fela sér jafn þýðingarmiklar umbætur á heilbrigðiskerfinu og stefnt var að í upphafi.[43]

Önnur gagnrýni[breyta | breyta frumkóða]

 • Heilbrigðisfrumvarpið olli einnig miklum deilum varðandi kostnað við fóstureyðingar, en andstæðingar þess mótmæltu því að ríkið myndi bera kostnað við slíkar aðgerðir. Til að koma til móts við slík andmæli, og auka líkur á samþykkt frumvarpsins, skrifaði Obama undir tilskipun sem kvað á um að ríkisfé skyldi ekki vera veitt til fóstureyðinga, að undanskildum tilvikum þar sem um væri að ræða nauðganir, sifjaspell eða þar sem líf konunnar væri í hættu.[44]
 • Skattlagning á hinar svokölluðu "Cadillac tryggingar" (enska: Cadillac Insurances), eða tryggingar sem hinir efnameiri eiga kost á , hefur einnig valdið deilum. Með ákvæði um slíkar tryggingar, er tryggingafélögum gert skylt að greiða 40% skatt af tryggingum sem seldar eru til fjölskyldna og eru andvirði að minnsta kosti 27.500 dollara (10.200 dollarar eru viðmið fyrir einstaklinga). Með þessu móti hyggst ríkið að hluta til fjármagna kostnað við umbætur nýju laganna.[45]
 • Andstæðingar laganna hafa bent á að þessi skattlagning varpi raunverulegu ljósi á tilætlanir fylgismanna laganna, þ.e. að andstætt því sem þeir hafi haldið fram sé með lögunum verið að koma á velferðarkerfi, en ekki félagslegu tryggingakerfi, þar sem hinir vel efnuðu þurfa í raun að greiða fyrir heilbrigðistryggingar hinna verr settu.[46]

Svör Obama við gagnrýni[breyta | breyta frumkóða]

Obama hefur svarað gagnrýni á heilbrigðislögin með því að leggja áherslu á að þau snúist ekki um stjórnmál, heldur um það að heilbrigðiskerfið sé að sliga bandarískar fjölskyldur. Of mörg mannslíf og lífsviðurværi fjölda bandarískra fjölskyldna væru í húfi.[47] Hann hefur ennfremur lagt áherslu á að nýju heilbrigðislögin taki mið af sjónarmiðum repúblikana og demókrata. Þau feli ekki í sér ríkisrekið heilbrigðiskerfi líkt og margir vinstrisinnaðir hafi viljað koma á í fortíðinni. Þau feli heldur ekki í sér það sem margir á hægri væng hafi sagt, að þeim reglum sem tryggingafélög þurfi að fara eftir muni fækka. Þess í stað, sameini lögin hugmyndir frá bæði repúblíkönum og demókrötum, þar sem báðir flokkarnir komu að því að semja lögin.[48]


Dauðastjórnir (enska: Death Panels)[breyta | breyta frumkóða]

Sarah Palin er hugmyndasmiðurinn á bakvið hugtakið „dauðastjórnir“ (enska: Death Panels), sem hún taldi að heilbrigðislögin myndu leiða til. Í því felst að komið verði á stjórn af skrifræðisfólki (enska: bureaucrats) á vegum hins opinbera, sem muni hafa ákvörðunarvald um hvort einstaklingar geti haldið áfram að fá heilbrigðisþjónustu eða ekki. Heilbrigðisþjónusta verði skömmtuð og hið opinbera skrifræðisfólk muni skammta þá þjónustu. Sú skömmtun muni byggjast á framleiðslugetu einstaklingins í samfélaginu. Þannig muni heilbrigðiskerfið flokka einstaklinga sem verðuga eða óverðuga til að hljóta heilbrigðisþjónustu. Þetta muni bitna fyrst og fremst veikum einstaklingum, öldruðum og fötluðum.[49]

Gagnrýnisraddir, bæði af hálfu demókrata og repúblikana hafa látið í ljós að þessar staðhæfingar séu mjög langsóttar og eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum. Howard Dean, fyrrverandi formaður demókrataflokksins, sagði staðhæfingar hennar einfaldlega ósannar. Jack Kingston, fulltrúardeildarþingmaður repúblikana, hefur einnig sagt hugmynd Palin ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum.[50]

Álit almennings[breyta | breyta frumkóða]

Almenningur mótmælir nýju heilbrigðislögunum í West Hartford, Connecticut

Áður en lögin voru samþykkt voru háð fjölmörg mótmæli gegn þeim. Auk teboðshreyfingarinnar voru repúblikanar meðal þeirra sem skipulögðu fjöldamótmæli og hvöttu almenning til þátttöku í mótmælum gegn frumvarpinu. Útvarpsmaðurinn og repúblikaninn Glenn Beck var einn af þeim sem hvatti almenning til að rísa upp gegn ætlunum Obama.[51]

Í mars 2010, skömmu eftir að Obama hafði undirritað lögin, var gerð könnun á vegum USA TODAY og Gallup, til að kanna viðhorf almennings gagnvart lögunum. 49% þátttakenda voru hlynntir þeim en 40% mótfallnir þeim. 48% töldu heilbrigðislögin vera fyrsta skrefið í rétta átt, en frekari umbóta væri þörf. 4% sögðu að lögin sjálf fælu í sér mikilvægustu umbætur sem heilbrigðiskerfi þjóðarinnar þyrfti á að halda.[52]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 1. „The New York Times“. Sótt 23. október 2010.
 2. „The New York Times“. Sótt 23. október 2010.
 3. „Health Care“. Congressional Budget Office. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. nóvember 2010. Sótt 30. október 2010.
 4. „OnTheIssues“. Sótt 23. október 2010.
 5. „CBS News“. Afrit af upprunalegu geymt þann 24. október 2010. Sótt 23. október 2010.
 6. Jan Coombs. The rise and fall of HMOs: an American health care revolution. ISBN 0-299-20240-2. Sótt 12. nóvember 2010.
 7. Martin, Jessica. „Major health care proposals ignore the 'Big Leak,' says health insurance expert“. Washington University in St.Louis. Sótt 12. nóvember 2010.
 8. „Remarks of President Barack Obama – As Prepared for Delivery“. The White House. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. mars 2010. Sótt 12. nóvember 2010.
 9. „Timeline: Milestones in Obama's quest for healthcare reform“. Reuters. Sótt 12. nóvember 2010.
 10. „Timeline: Milestones in Obama's quest for healthcare reform“. Reuters. Sótt 12. nóvember 2010.
 11. „CNN“. Afrit af upprunalegu geymt þann 19. október 2010. Sótt 23. október 2010.
 12. „Executive Order -- Patient Protection and Affordable Care Act's Consistency with Longstanding Restrictions on the Use of Federal Funds for Abortion“. The White House. Sótt 12. nóvember 2010.[óvirkur tengill]
 13. „San Fransisco Chronicle“. Afrit af upprunalegu geymt þann 1. janúar 2016. Sótt 23. október 2010.
 14. „What you need to know about health care reform“. CNN. Sótt 30. október 2010.
 15. „Healthcare Costs and U.S. Competitiveness“. Council on Foreign Relations. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. október 2010. Sótt 30. október 2010.
 16. „What we stand for: Health Care“. Democrats. Afrit af upprunalegu geymt þann 30. maí 2014. Sótt 30. október 2010.
 17. „What you need to know about health care reform“. CNN. Sótt 30. október 2010.
 18. „What you need to know about health care reform“. CNN. Sótt 30. október 2010.
 19. „What you need to know about health care reform“. CNN. Sótt 30. október 2010.
 20. „Organizing For America“. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. október 2010. Sótt 23. október 2010.
 21. „Sky News“. Sótt 23. október 2010.
 22. „CNN“. Sótt 23. október 2010.
 23. „Organizing For America“. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. október 2010. Sótt 23. október 2010.
 24. „Organizing For America“. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. október 2010. Sótt 23. október 2010.
 25. „Organizing For America“. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. október 2010. Sótt 23. október 2010.
 26. „Organizing For America“. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. október 2010. Sótt 23. október 2010.
 27. the White House president Barack Obama. „Health Care that Works for Americans“. Sótt 26. október 2014.
 28. Bogi Þór Arason. „Mikill sigur fyrir Barack Obama“. Sótt 26. október 2014.
 29. „Key Features of the Affordable Care Act By Year“. Sótt 26. Október 2014.
 30. U.S. Department of Health and Human services. „The Affordable Care Act is Working“. Sótt 26. október 2014.
 31. Mertens Maggie. „Health Care For All Leaves 23 Million Uninsured“. Sótt 26. október 2014.
 32. „Explaining Health Care Reform: What are Health Insurance Exchanges?“ (PDF). The Henry J. Kaiser Family Foundation. Sótt 30. október 2010.
 33. „Explaining Health Care Reform: What are Health Insurance Exchanges?“ (PDF). The Henry J. Kaiser Family Foundation. Sótt 30. október 2010.
 34. „Health Care Overhaul Depends on States' Insurance Exchanges“. The New York Times. Sótt 30. október 2010.
 35. „Tea party draws tax critics“. The Columbia Daily Tribune. Sótt 30. október 2010.
 36. „Bloomberg“. Sótt 23. október 2010.
 37. „Top House Republicans Press For Health Reform Repeal While GOP Candidates, Personallities Offer Reform Criticism“. Kaiser Health News. Sótt 30. október 2010.[óvirkur tengill]
 38. „Top House Republicans Press For Health Reform Repeal While GOP Candidates, Personallities Offer Reform Criticism“. Kaiser Health News. Sótt 30. október 2010.
 39. „Obama challenges GOP critics on health care“. White House on msnbc.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 24. janúar 2011. Sótt 30. október 2010.
 40. „Rep. John Boehner: "This Health Care Bill Will Ruin Our Country". Mediaite. Sótt 30. október 2010.
 41. „* Alternative Medicine * / * Asset and Wealth Protection * / * Conservative Politics * / * Offshore Opportunities * / * Survival and Self-sufficiency Under Republican Criticism, Democrats Torn On Healthcare Bill“. Personal Liberty Digest. Sótt 30. október 2010.
 42. Hamsher, Jane. „Fact Sheet: The Truth About the Health Care Bill“. The Huffington Post. Sótt 12. nóvember 2010.
 43. „Concern, Doubts From the Left on Obama's Health-Care Plan“. The Washington Post. Sótt 30. október 2010.
 44. „Obama signs order on abortion and healthcare“. Reuters. Sótt 30. október 2010.
 45. „Health Care Reform Bill Summary: A Look At What's in the Bill“. CBSnews. Afrit af upprunalegu geymt þann 30. október 2010. Sótt 30. október 2010.
 46. „US Senate Medicare Payroll-Tax Hike Draws Criticism“. Nasdaq. Sótt 30. október 2010.
 47. „Obama challenges GOP critics on health care“. White House on msnbc.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 24. janúar 2011. Sótt 30. október 2010.
 48. „Obama shrugs off healthcare law criticism“. The Hill. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. júní 2010. Sótt 30. október 2010.
 49. „Death Panels“. The American Spectator. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. nóvember 2010. Sótt 30. október 2010.
 50. „Republicans and Democrats Criticize Sarah Palin's Death Panels Claim“. Politicususa. Sótt 30. október 2010.
 51. Hamsher, Jane. „Fact Sheet: The Truth About the Health Care Bill“. The Huffington Post. Sótt 12. nóvember 2010.
 52. „Poll: Health care plan gains favor“. USA Today. Sótt 30. október 2010.