Fara í innihald

Marie Curie

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Marie Sklodowska-Curie)
Marie Curie
Marie Curie í kringum árið 1920.
Fædd7. nóvember 1867
Dáin4. júlí 1934 (66 ára)
StörfEðlisfræðingur, efnafræðingur
MakiPierre Curie (g. 1895; d. 1906)
BörnIrène Joliot-Curie (1897–1956)
Ève Curie (1904–2007)
Verðlaun Nóbelsverðlaun í eðlisfræði (1903)
Nóbelsverðlaun í efnafræði (1911)
Undirskrift

Marie Curie-Skłodowskapólsku: Maria Salomea Skłodowska-Curie) (7. nóvember 18674. júlí 1934) var pólskur eðlisfræðingur og efnafræðingur gift franska eðlisfræðingnum Pierre Curie sem fæddist þann 15. maí 1859. Þau eignuðust tvær dætur þær Iréne og Evu Curie og bjuggu þau að mestu í París. Hún lærði við Sorbonne-háskólann í Frakklandi en gerði það ekki fyrr en á þrítugsaldrinum því hún hafði átt erfiða æsku og þurfti alla tíð að vinna fyrir sér og námi sínu. [1]

Curie hjónin voru brautryðjendur á sviði rannsókna á geislavirkni eftir tilraunum Henri Becquerel og hlutu þau Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði fyrir það árið 1903 ásamt Becquerel. Þá var hún fyrsta konan sem hlotið hafði Nóbelsverðlaun í eðlisfræði. Seinna fundu þau hjónin geislavirku frumefnin radíum og pólóníum en fyrir það hlaut hún Nóbelsverðlaunin í efnafræði árið 1911, þá ein því Pierre var látinn. Hún var einnig fyrsta konan sem kenndi við Sorbonne háskólann. [2]

Eva, yngri dóttir Marie, ritaði ævisögu móður sinnar. Sagan var þýdd á íslensku af Kristínu Ólafsdóttur lækni, undir titlinum Frú Curie, og kom út hjá Ísafoldarprentsmiðju árið 1939. Sagan er góð heimild um hjónin Marie og Pierre sem voru einstök í sinni röð, vísindamenn í fremstu röð. Einnig má lesa stuttar greinar um Marie Curie og vísindarannsóknir hennar á vefnum nobelprize.org. Marie ritaði sjálf ágrip af sögu Pierre, eiginmanns síns, sem hún missti snemma þegar hann varð undir vagni á götum Parísar.

Marie Curie fæddist þann 7. nóvember 1867 í Póllandi og fékk nafnið Manya Sklodovska. Faðir hennar, Vladyslav Sklodovski, missti vinnuna sem eðlisfræðikennari í Varsjá þegar hún var ung og móðir hennar dó úr berklum þegar Marie var aðeins tíu ára gömul. Hún var mikill föðurlandsvinur og alin upp í mikilli föðurlandsást, enda var Pólland undir Rússlandi í þá daga. [3]

Marie var mikið undrabarn og strax fjögurra ára, þegar Bronya eldri systir hennar var að læra að lesa gat Marie lesið nánast reiprennandi. Foreldrum hennar fannst hún of bráðþroska þar sem þau voru uppeldisfræðingar og létu hana frekar leika sér heldur en að leyfa henni að lesa bækur.[4]

Sorbonne-háskólinn

[breyta | breyta frumkóða]

Marie og Bronyu langaði til Parísar að læra við Sorbonne-háskólann, en faðir þeirra hafði ekki efni á því. Þá fékk Marie þá snilldarhugmynd, að þær skyldu hjálpast að við námið og önnur myndi vinna fyrir námi systur sinnar og svo öfugt þegar hin kæmi úr námi. Þær ákváðu að gera þetta og byrjaði Bronya að læra en Marie fór í vist, fyrst í Szczuki og svo í Varsjá sem kennslukona og barnfóstraSorbonne háskólinn.[5]

Fljótlega kynntist hún manninum Kasmir, sem var sonur húsráðanda hennar. Þau urðu mjög ástfangin og ýmislegt gekk á milli þeirra. Lítið varð hins vegar úr ást þessari þar sem móðir hans var mjög ósátt við þetta samband því hann var háskólastúdent en hún bara barnfóstra. Marie tók sambandsslitin mjög inn á sig og hugleiddi að fremja sjálfsvíg. Skrýtið þótti að þær Bronya áttu báðar mann sem hét Kasmir en um þetta leyti var Bronya að fara að gifta sig Kasmir Dluski, sem var ungur læknir og hafði verið skólabróðir hennar.[6]

Þegar hún hætti sem kennslukona flutti hún til systur sinnar og mágs í París og bjó hjá þeim til að byrja með. Hún ritaði sig inn í skólann sem Marie Sklodovksa því enginn í Frakklandi gat borið fram nafn hennar Manya. Hún ætlaði að helga sig náminu, sem og hún gerði, en erfitt var orðið að einbeita sér vegna mikils gestagangs hjá þeim hjónum, Bronyu og Kasmirs. Einnig var mjög langt og dýrt að ferðast í skólann þaðan svo hún flytur þá ein í herbergi nær Sorbonne háskólanum. [7]

Hjónin Pierre og Marie Curie á rannsóknarstofu sinni.

Marie kynntist manni sínum, Pierre Curie, í gegnum sameiginlegan vin þeirra þegar hún var í leit að stærra vinnurými fyrir verkefni sem hún var að vinna að í námi sínu. Hann var aðeins eldri en hún, fæddur 15. maí 1859. Pierre fær áhuga á þessari bráðgáfuðu pólsku konu sem hefur gaman af því að spjalla um eðlisfræði alveg eins og hann. Þau kynnast vel en Marie hikaði allengi við að hleypa honum að sér, því hún hafði brennt sig á ástinni á Kasmir, fyrrverandi elskhuga sínum. Pierre fær alla í lið með sér, meira að segja Bronyu, til að telja Marie á að giftast sér. Hann reyndi allt, sagðist meira að segja gefa eðlisfræðina upp á bátinn og flytja til Póllands ef hún vildi, bara til að vera með henni. Hún var mjög stíf en loksins kom að því að hún játaðist honum. Hún varð honum mjög ástrík og góð eiginkona og ól honum tvær dætur, þær Iréne og Evu Curie.[8]

Þau verða svo ástfangin að Marie segir Pierre að hún geti ekki lifað án hans. Hann segir henni þá að hún verði að lofa að halda áfram að lifa fyrir vísindin ef hann félli frá. Stuttu seinna verður hann fyrir hestvagni á leið sinni yfir götu og deyr. Hún tók það mjög nærri sér og erfitt var fyrir hana að efna loforðið sem hún gaf manni sínum en fljótlega náði hún áttum og byrjaði á fleiri rannsóknum í þágu vísindanna. Þá tók hún einnig við starfi hans sem prófessor í eðlisfræði við Sorbonne-háskólann, fyrst allra kvenna.[9]

Mikið samstarf myndaðist milli þeirra hjóna og unnu þau hörðum höndum við léleg húsakynni að rannsóknum á geislavirkni frumefna, þar sem eðlisfræðingurinn Henri Becquerel hafði fundið út ósýnilega geisla bundna við frumefnið úraníum. Marie ætlaði upphaflega að rannsaka þessa geislun Becquerels betur og nota það sem efni í doktorsritgerð sína og fékk aðsetur í herbergi einu á rannsóknarstofuhæðinni í Eðlisfræðiskólanum þar sem Pierre vann.[10]

Þegar hún hafði rannsakað úraníum og geislavirkni þess í nokkra mánuði komst hún að því að geislamagnið væri í réttu hlutfalli við úranmagnið. Þá langaði hana að halda áfram og skoða önnur frumefni með sama tilgangi. Hún ákvað að skoða öll önnur frumefni sem þekkt voru og fann út að thoríum hafði sams konar geislun. Þá kemur Pierre til liðs við hana í þessum rannsóknum af ekki síðri áhuga en Marie. Þau unnu að rannsóknunum í um fjögur ár og fengu meðal annars senda bikblöndu gefins frá Austurríki og þurftu aðeins að borga flutningskostnaðinn, annars voru þetta frekar kostnaðarsamar rannsóknir. Árið 1898 fundu þau radíum og birta grein um það í skýrslu vísindafélagsins. Þetta radíum var frumefni með miklu meiri geislavirkni en hin frumefnin sem þau höfðu skoðað.[11]

Þau höfðu bæði brennt sig á geislum radíums og ákváðu að prófa þessa geisla á dýrum og sjá hvaða afleiðingar það hefði í för með sér. Þannig uppgötvaðist að hægt væri að lækna ýmis krabbamein með þessum geislum. Þetta var mikil framför fyrir læknavísindin og fóru menn nú að sýna þessu frábæra frumefni mikinn áhuga. Eftir dauða mannsins síns setti hún svo á stofn radíumstofnun í Varsjá, sem hún starfaði við til dauðadags.[12]

Nóbelsverðlaunin

[breyta | breyta frumkóða]

Þau hjónin höfðu hlotið Davy-heiðursmerkið fyrir tilraunir sínar og voru orðin mjög þekkt. Í desember 1903 hlaut svo Marie Curie Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði fyrir vísindi sín, fyrst kvenna, ásamt eiginmanni sínum og Henri Becquerel. Nóbelsverðlaunin hlutu þau fyrir að uppgötva geislavirkni. Stuttu seinna fengu þau svo Osiris-verðlaunin og höfðu þau þá aðeins meiri peninga á milli handanna til tilraunanna. Þeim líkaði illa þessi nýfengna frægð enda truflaði hún þau oft við rannsóknarstörfin. Árið 1911 hlaut Marie svo Nóbelsverðlaun í annað sinn, þá í efnafræði fyrir að uppgötva radíum og Pólóníum. [13]

Eftir að hafa helgað líf sitt vísindunum lést Marie þann 4. júlí 1934 þá 67 ára gömul. Hún hafði meðhöndlað radíum og önnur geislavirk efni í tugi ára, brennt sig á geislum og haldið að geislavirkni væri ekki skaðleg. Heimildum ber ekki saman um úr hverju hún lést en segja það líklega vera af völdum geislavirkninnar sem hún var í kringum daglega. Sumar segja að hún hafi látist úr radíum eitrun, aðrar úr hvítblæði og enn aðrar úr illkynja blóðleysi og mergrýrnun af völdum langvarandi geislunar. Einnig eru til heimildir sem segja að hún hafi verið með berkla þegar hún var ung og hefði átt að passa sig út af þeim. Útför hennar fór fram í kyrrþey þann 6. júlí 1934. Hún var jarðsett í kirkjugarðinum í Sceaux og var kista hennar lögð ofan á kistu Pierre.[14]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Curie, Eva, bls. 107-108 og 311; Geir Hallgrímsson o.fl., bls 171-173.
  2. Curie, Eva, bls. 129-136; Gunnlaugur Classen, bls. 193-194; Lifandi vísindi 2000:62; The Official Web Site of the Nobel Prize [án árs].
  3. Curie, Eva, bls. 15; Geir Hallgrímsson o.fl., bls. 171-172.
  4. Curie, Eva, bls. 16.
  5. Curie, Eva, bls. 74; Geir Hallgrímsson o.fl., bls. 173.
  6. Curie, Eva, bls. 74-79; Geir Hallgrímsson o.fl., bls 173.
  7. Curie, Eva, bls. 85-93.
  8. Curie, Eva, bls. 105-118; Geir Hallgrímsson o.fl., bls 174.
  9. Curie, Eva, bls. 178; Lifandi vísindi 2000:61-62.
  10. Curie, Eva, bls. 129-131; Gunnlaugur Classen bls. 193; Lifandi vísindi 2000:61.
  11. Curie, Eva, bls 131-138; Geir Hallgrímsson o.fl., bls. 175-176; Gunnlaugur Classen, bls. 193-194.
  12. Geir Hallgrímsson o.fl., bls. 176, 179; Lifandi vísindi 2000:62.
  13. Curie, Eva, bls. 177; Geir Hallgrímsson o.fl., bls. 177; Lifandi vísindi 2000:62; The Official Web Site of the Nobel Prize [án árs].
  14. Curie, Eva, bls. 311-312; Lifandi vísindi, bls. 62; Geir Hallgrímsson o.fl., bls. 174 og 179.
  • Curie, Eva. Frú Curie. Ævisaga. Kristín Ólafsdóttir þýddi. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja H.F., 1939.
  • Geir Hallgrímsson o.fl. Vísindamenn allra alda. Frásagnir um tuttugu og einn vísindamann. Reykjavík: Draupnisútgáfan, 1947.
  • Gunnlaugur Classen: „Radíum.“ Eimreiðin. Ársfjórðungsrit. Bls. 193-202.
  • „Hún einangraði radíum með berum höndum“, Lifandi vísindi. 2000 (12): 59-62.
  • The Official Web Site of the Nobel Prize. [án árs]. The Nobel Prize in Physics 1903. Sótt 29. janúar 2011 af http://nobelprize.org/nobel_prizes/physics/laureates/1903/index.html#